Þriðjudagur 26.08.2014 - 00:13 - FB ummæli ()

Plastkort, peningar og lýðræði

Stundum er sagt að ”fjármálavaldið” ráði mest öllu í þjóðfélagi okkar og mun meira en Alþingi. Þetta er satt en hvernig fer það að því, í hverju felast völd þess. Kjarninn í fjármálavaldinu eru bankarnir. Þeir búa til peningana. Þeir hafa einkaleyfi á því. Hið opinbera, fyrirtæki og almenningur verður að taka peninga að láni hjá bönkunum til að geta stundað sín viðskipti.
Peningar flytja verðmæti frá einum stað til annars. Svipað og fyrirfram greitt debet kort, þú setur ákveðna upphæð inná kortið þitt og nýtir hana seinna. Þetta plastkort geymir því verðmæti. Plastkortið flytur því verðmæti þín frá einum stað til annars og auk þess getur þú geymt peningana á kortinu að vild. Einnig er hægt að nota kortið til að greiða skatta til hins opinbera og þar með er þetta kort orðið ígildi peninga. Kostnaðurinn við kortið er einhver föst stærð óháð því hversu mikið þú setur inná það. Það sem ég er að reyna að segja er að miðillinn, kortið, er selt á kostnaðarverði.
Peningarnir sem við fáum hjá bönkunum eru eins og plastkortið. Hlutverk kortsins og peninganna er það sama, að flytja verðmæti okkar frá einum stað til annars, frá einum tíma til annars, að geyma verðmæti okkar. Það er þó einn mikilvægur munur því við fáum ekki peningana á kostnaðarverði. Á peningana er stimplaðar ákveðnar upphæðir eins og við þekkjum.
Plastkortið kostar nánast ekkert og peningar ættu ekki að kosta neitt heldur. Vandamálið er að bönkum tókst fyrir 300 árum að fá einkaleyfi á því að framleiða peninga og þar með verðleggja þá. Við fáum ekki peningana á kostnaðarverði hjá bönkunum heldur verðum við að taka þá að láni hjá þeim. Lánsupphæðin ákvarðast af þeirri upphæð sem stimpluð er á peningana. Ef við þurfum 1000 krónur þá þurfum við að fá þá að láni hjá bankanum og þegar við höfum greitt þá skuld höfum við borgað 1000 krónur fyrir 1000 króna seðilinn. Síðan getum við notað hann til að flytja verðmæti vinnu okkar frá einum stað til annars.
Þetta er ein aðferð til að framleiða peninga svo við getum átt í viðskiptum en hefur í för með sér óendalega mikla skuldasöfnun. Í raun skulda allir; einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera bönkunum. Auk þess eru það bankarnir sem ákveða hvað er framkvæmt því þeir skammta lánin til þeirra sem eru þeim þóknanlegir. Ef peningar væru búnir til án skuldsetningar af hinu opinbera þá værum við ekki jafn skuldum vafin og almenningur hefði aðgöngu að ákvörðunum um það hvernig við deilum út peningum.
Forseti í einhverju þriðja heims ríki fær ekki krónu lánaða hjá neinum banka heldur bara hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fylgja þá oft ströng skilyrði með. Skiptir þá ekki máli þó stót hluti þjóðarinnar sé á vergangi vegna uppskerubrests og deyjandi úr hungri og þorsta. Viðkomandi land fær þróunarhjálp frá vesturveldunum sem er þó minni upphæð en landið borgar í afborganir af lánum til vesturveldanna.
Það væri mun gæfulegra ef viðkomandi ríki(og öll önnur) gæti framleitt sína peninga sjálft án milligöngu banka. Það gæti þá strax hafist handa við vatnsveitur og annað sem vinnur bug á hungri og þorsta, nægt er vinnuaflið, og greitt fyrir með peningum búnum til án skuldsetningar af hinu opinbera. Þar með væru peningar aftur komnir á sinn stall við að flytja verðmæti frá einum stað til annars án sérstakrar skuldsetningar. Þar með væru peningar aftur orðnir fjórða valdið í lýðræðisskipulagi okkar undir stjórn almennings en ekki fámennrar elítu einkarekinna banka.
Bankarnir yrðu af ofsagróða en við myndum höndla hið lýðræðislega vald aftur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur