Sunnudagur 14.12.2014 - 00:26 - FB ummæli ()

Að velja sér landfesti kæri ráðherra

Læknaverkfallið leggst æ þyngra á sálina á mér. Ætlar Ríkisstjórnin virkilega að bíða þangað til að síðasti viðsemjandinn er fluttur héðan. Ég neita að trúa því. Ekki minnka áhyggjurnar þegar auglýsingar eru farnar að birtast á FB síðu lækna um laus störf í Skandinavíu, þ.e. það er runnið á blóðlyktina.

All margir læknar hafa haldið því fram að áramótin séu afgerandi í læknadeilunni. Ef ekki semst fyrir þau þá ákveði læknar að segja upp og flytja. Eins og ástandið er núna þá þarf ekki margar uppsagnir til að boltinn fari af stað því vont er að vinna núna en verður enn verra þegar fleiri fara. Nýútskrifaðir læknakandidatar ætla ekki að vinna á Íslandi heldur fara strax erlendis ef ekki semst. Það er veruleg blóðtaka, í raun erfitt að sjá fyrir sér að kerfið virki án þeirra.

Þegar maður horfir til baka þá er sú staða sem upp er komin í dag einstök og gjörsamlega galin. Á strit kynslóðanna og öll fjárfestingin að fara í súginn? Það virðist svo, því heilbrigðisráðherra sagði „að hann trúi því ekki að læknar muni segja upp“. Hann ætlar ekki að tryggja stöðuna með góðum samningi við lækna. Nei hann stólar á trú sína að ekkert fari úrskeiðis þrátt fyrir slæman eða engan samning. Öll hegðun valdhafanna er á sömu lund.

Það er þarna þar sem rökhugsun þeirra bregst eins og hjá strútnum. Margir læknar sögðu fyrir nokkrum árum að þeir færu aldrei í verkfall vegna launa sinna, það væri ekki samboðið læknastéttinni. Læknar eiga engan verkfallssjóð enda ætluðu þeir sér aldrei í verkfall. Þrátt fyrir þessa fortíð eru allir þessir læknar í dag í verkfalli og samstaðan er algjör. Réttlæting læknanna er ekki sjálf launin, réttlætingin er hvort læknar verði þátttakendur í heilbrigðiskerfinu til framtíðar eða ekki. Þeir vita að án þeirra verður ekki neitt heilbrigðiskerfi. Þess vegna berjast menn.

Kæri Kristján og Co, ekki stóla á að læknar segi ekki upp. Læknar eru komnir út á ystu nöf, þeir geta ekki lengur tekið þátt í þessu leikriti um að allt sé í lagi. Það er ekki hægt að reka heilbrigðiskerfið á fornri frægð, það sekkur núna og íslenskir læknar eru menn að meiru að standa upp og viðurkenna hið augljósa.

Ég ráðlegg þér því eindregið að tryggja landfestar, það er skylda þín.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur