Sunnudagur 30.08.2015 - 23:27 - FB ummæli ()

Fjórða valdið

Pólitísk umræða er oft yfirborðskennd, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Þegar kvartað er yfir þessari yfirborðsmennsku þá er sagt að augljóslega sé eftirspurn eftir henni og því eigi hún rétt á sér. Vandamálið er að slík umræða kæfir nauðsynlega umræðu um það sem skiptir samborgarana mestu máli. Þess vegna verður framgangur mikilvægra mála lítill. Er það ásættanlegt?

Eitt dæmi eru skoðanakannanir í aðdragenda kosninga. Umræðan snýst mjög mikið um þær í staðinn fyrir hvað flokkarnir standa fyrir. Auk þess eru þær mjög skoðanamyndandi og viðhalda fjórflokknum við völd því litlu flokkarnir ná sér aldrei á strik hjá kjósendum. Jafnvel verða niðurstöður skoðanakannana grundvöllur þess við hverja fjölmiðlar ræða eða ekki. Þessu verður að breyta.

Eitt lærdómsríkasta dæmið hin síðari ár um fallvaltleika fjórða valdsins er þegar Jón Gnarr bauð sig fram. Hann stjórnaði umræðunni og þrátt fyrir að frambjóðendur annarra flokka vildu ræða ýmis þjóþrifamál, fátækt eða hvernig bregðast ætti við bankakreppunni var það Ísbjörninn og Jón sem umræðan snérist um, með fullu samþykki fjölmiðla. Jón var að spauga með hefðbundin stjórnmál og því stikkfrí frá allri gagnrýni. Gott og blessað, Jón er hinn besti spaugari en geta fjölmiðlar verið stikkfrí og bara lækað vinsælasta nettrúðinn? Er ekki hlutverk fjölmiðla mikilvægara og merkilegra en svo.

Niðurstaðan verður því sú að hafa alvöru stefnumörkun í lágmarki. Láta fjölmiðla hæpa sig upp eða auglýsingastofur eða öfugt. Verða þannig meinstrím, vinsæll og ná völdum. Það í skjóli auðs eða aðstöðu eða hvoru tveggja.

Að stjórna umræðuninni og halda henni er mikilvægt til að ná völdum. Til þess kaupa flokkarnir sér þjónustu fjölmiðlaráðgjafa. Björt Framtíð hefur haldið umræðunni gangandi undanfarið um ekki neitt nema persónur. Þar verða blaðamenn að veita mótvægi. Þeir ættu að draga fram þau atriði sem skipta almenning mestu máli og stuðla að því að umræðan snúist um þau. Núna um helgina gerðust þó merkilegir atburðir í íslenskum fjölmiðlum. Blaðamenn virðast hafa ákveðið að hafa niðurstöður skoðanakannana að engu og Landsfundur Pírata um helgina varð einhver millifyrirsögn í fréttum helgarinnar. Ekki það að ekki hafi verið minnst á þá heldur hitt að væntanlegur stærsti flokkur landsins fái ekki að vera fyrsta eða önnur frétt finnst mér vera lélegt. Allt of mikil þægli við valdhafa.

Fjórða valdið hefur í raun því hlutverki að gegna að segja sannleikann. Þetta hefur mjög sennilega í för með sér að sterkum öflum verður misboðið. Ef mark á að vera takandi á þeirri fullyrðingu að blaðamenn hafi eitthvað sérstakt hlutverk innan lýðræðisskipulags okkar verður svo að vera að þeir bjóði þeim öflum byrginn. Þeirra hlutverk er ekki að safna lækum, vera meinstrím eða að halda frið við valdhafana.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur