Fimmtudagur 08.10.2015 - 23:10 - FB ummæli ()

Indefence og baráttan um Ísland

Indefence hópurinn hefur bent á það með sterkum rökum að sú aðferðarfræði sem fyrirhuguð er við afnám gjaldeyrishafta muni ekki uppfylla það skilyrði að verja lífskjör almennings. Allt bendir til þess að kröfuhafar munu geta flutt 500 milljarða úr landi og mun það valda gegnisfalli íslensku krónunnar og hækkun verðbólgu. Það mun skerða lífskjör almennings samtímis og kröfuhafar sem keyptu sitt á slikk koma út með gróða. Seðlabanki Íslands á að meta hvort aðferðafræðin standist skilyrði um stöðuleika og lífskjör almennings og á því að vera öryggisventill til að almenningur haldi sínu.

Í Basel í Sviss er Seðlabanki seðlabankanna. Bank for international settlements (BIS) heitir hann og er kallaður BIS. Hann hefur svipaða stöðu og sendiráð. Svissnesk yfirvöld geta ekki farið þar inn og hafa þar enga lögsögu. Starfmenn hans hafa stöðu diplómata og ferðast þannig, ónæmir fyrir afskiptum. Bankinn lýtur ekki stjórn neins þjóðkjörins valds.

Á átta vikna fresti hittast átján seðlabankastjórar stærstu landanna á sunnudagskvöldi í Basel. Þar eru málin rædd og ákvarðanir teknar. Enginn kaus þá til þessara verka. Þeir eru í raun bara ríkisstarfsmenn. Ekkert er skráð og ekki möguleiki að fá vitneskju um hvað fer fram á fundunum. Ákvarðanir þeirra stjórna í raun heiminum.

BIS sá um millifærslur milli þjóða og var meðal annars þekktur fyrir það að varðveita og koma í verð tanngulli Nazista í seinni heimstyrjöldinni. BIS mönnum fannst gagnrýnin eftir stríð ósanngjörn. Gull er bara gull. Bankamenn geta ekki verið að draga menn í dilka, viðskipti eru bara viðskipti. Atvinnumenn í viðskiptum geta ekki látið mannréttindi stjórna gerðum sínum. Í raun sönnun þess að kjörnir fulltrúar eru óhæfir til að sinna ríkisfjármálum að mati BIS manna.

Núverandi Seðlabankastjóri Íslands, Már Guðmundsson hefur mikla reynslu af störfum hjá seðalbönkum. Árin fimm áður en hann varð Seðlabankastjóri Íslands starfaði hann hjá BIS. Þess vegna sér hann sennilega viðskipti bara sem viðskipti og ekki á færum annarra en bankamanna.

Þetta vekur upp óþægilegar spurningar. Stærstu seðlabankar heimsins hafa einbeitt sér að því að bjarga gjaldþrota bönkum og fjárfestum á kostnað skattgreiðenda. Í ljósi þess er þá ekki harla ólíklegt að Seðlabanki Íslands sjái nokkuð athugavert við það að kröfuhafarnir komist með gull úr landi. Er þá ekki barátta Indefence glötuð. Þeir hafa engan skilning á raunverulegum viðskiptum því þeir eru ekki bankamenn.

Að mati Indefence er togstreitan á milli mannréttinda og viðskipta. Það virðist sem skilningur seðlabankanna á viðskiptum takmarkist við mannréttindi til handa fjárfestum. Ef skattgreiðendur eru ósáttir við mannréttindastefnu seðlabanka skilja þeir ekki viðskipti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur