Laugardagur 17.10.2015 - 20:43 - FB ummæli ()

Mislingar eða réttlæti

Á fréttavef RÚV er frétt um mislingafaraldur í Kongó. Faraldurinn hefur geisað undanfarna mánuði og sýkt 30.000 manns og 428 hafa látist. Árið 2011 var líka mislingafaraldur í Kóngó sem sýkti 77.000 manns og meira en 1000 manns létust. Mislingar eru gríðalega smitandi og í 30% tilfella fá þeir sem lifa af alvarlegar aukaverkanir. Flestir sem látast eru börn innan við fimm ára aldur. Þetta rifjar það upp að samkvæmt Sameinuðu Þjóðunum þá deyja 21.000 börn á dag, þ.e. 875 á klukkustund. Þau eru 0 til 5 ára en hægt væri að bjarga langflestum þeirra með einföldum og ódýrum aðferðum.

Margir trúa því að hægt sé að skattleggja þá ríku þeim fátæku til hagsbótar. Það hefur ekki gengið eftir. Þess í stað verða þeir ríku alltaf ríkari. Það bendir til þess að löggjafarvaldið sé það valdalítið að hinir ríku komist alltaf undan skattheimtu. Þessi staðreynd um vanmátt löggjafarvaldsins ætti að fá fólk til að leita að hinu raunverulega valdi í þjóðfélaginu. Hver stjórnar?

Til að koma í veg fyrir mislingafaraldur er allt þekkt og til staðar. Bólusetning virkar eins og Vesturlönd eru dæmi um. Aftur á móti þá virkar það ekki í Kóngó því þar vantar peninga. Reyndar vantar líka peninga á Vesturlöndum. Það er margt sem við viljum gera sem myndi bæta ástandið hjá okkur en svarið sem við fáum alltaf er að það eru ekki til peningar fyrir þessu eða hinu.

Þess vegna er það augljóst að sá sem stjórnar magni peninga, stjórnar samfélaginu. Löggjafinn getur bara búið til lög til að taka peninga frá einum og færa þá til einhvers annars. Löggjafinn getur ekki búið til peninga. Það geta bankarnir og þeir hafa einkaleyfi á því. Þess vegna stjórna bankarnir magni peninga í umferð og þar með þjóðfélaginu. Þeir búa ekki til peninga fyrir bólusetningar í Kóngó. Þeir gera það fyrir spámennsku í rafrænum heimi verðbréfahallanna.

Að löggjafinn hafi ekki vald til að búa til peninga til að sinna þegnum sínum veldur því að langflest barnanna 21.000 sem deyja á hverjum degi, gera það að nauðsynjalausu.

Skoðun okkar á þvi hver ætti að hafa vald til að búa til peninga hefur ekkert með vinstri eða hægri pólitík að gera, bara réttlæti og almenna skynsemi.

congo minin kids

 

Hvers vegna eru þessi börn í þessari stöðu. Hvers vegna eru þau neydd til að vinna í námu djúpt í yðrum jarðar. Hvers vegna voru þau svift því að vera börn, hvers vegna fengu þau ekki hollan og góðan mat, gott uppeldi og sluppu við áþján og sjúkdóma. Hvers vegna fengu þau ekki tækifæri til að dreyma um framtíðina eins og unglingar gera og vinna að því að skapa sér framtíð við hæfi. Þau eru þrælar þess kerfis sem krefst hámarksgróða fyrir sem minnstan tilkostnað. Skuldir fyrirtækja og vextir eru stærsti kostnaðarliðurinn. Lán veitt af bönkum, peningar búnir til úr engu og með vöxtum. Löggjafinn gæti alveg eins búið til peninga úr engu í stað banka. Beint í gegnum Seðlabankann eða óbeint með samfélagsbönkum.  Munurinn er samfélagshugsjón eða einkagróði. Þetta hefur ekkert með vinstri eða hægri pólitík að gera bara réttlæti og skynsemi. Meðan við hömumst við að búa til vinstri,hægri eða sjóræninga pólitík til að selja kjósendum þá kljúfum við samstöðu almennings. Þessi pólitíska sundrung veitir bönkunum fullkomið næði til að sinna sínu. Auk þess eiga þeir alla mein-strím miðlana og þar með helstu álitsgjafana þannig að umræðan snýst um smjörklípur og önnur smáatriði. Þess vegna er hægt að fullyrða það að öll þessi umræða og deilur um mismunandi pólitík í þjóðfélaginu skapar þau skilyrði að við ræðum aldrei aðalatriðin. Það hver býr til peningana og stjórnar þannig þjóðfélaginu. Þess vegna eru þessi börn að vinna í þessari námu í Kóngó.

Pældu í þessu, er ekki ástæða til að breyta þessu?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur