Þriðjudagur 20.10.2015 - 19:52 - FB ummæli ()

Okkar er valið og valdið

Það datt lítil sprengja inní samfélagið okkar í dag. Hrægammasjóðirnir sem eiga Íslandsbanka vilja selja hann til íslenska ríkisins. Samkvæmt bloggurum þá komast þeir vel frá stöðuleikaskattinum með þessu. Aðrir bloggarar telja þetta upphafið að nýrri útsölu til vildarvina í boði XD og XB-gamalt vín á nýjum belgjum. Ef skynsemin fær að ráða þá skapast hér möguleikar til hagræðingar og verðmætasköpunar fyrir Ísland.

Með sameiningu Íslandsbanka og Landsbanka skapast mikil hagræðing. Þar með væri hægt að stofna einn stóran og öflugan ríkisbanka sem rekinn væri sem samfélagsbanki. Afleiðingarnar af gjaldþroti einkabankanna haustið 2008 eru svo hrikalegar að ríkisbanki, hversu mikið hann myndi reyna það myndi aldrei ná því að standa sig jafn illa og einkabankarnir. Þar með væri almenningi amk tryggð betri lífskjör með ríkisbanka. Bara það er þó nokkuð.

Best er að stofna samfélagsbanka að fordæmi North Dakota ríkisins í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sá banki var stofnaður 1919 í kjölfar efnahagserfiðleika og uppskerubrests sem einkabankarinr höfðu bara eitt svar við; að innheimta veðin fyrir skuldunum, þeir kunnu ekki neitt annað. Afleiðingin var samfélagsleg katastrófa. Hvað skiptir það einkabanka máli, hluthafarnir fengu sitt. Það er einmitt það sem við höfum upplifað undanfarin ár á Íslandi, almenningi var kastað út af heimilum sínum í skiptum fyrir gróða hluthafa.

Samfélagsbankinn í Norður Dakóta starfar eftir lögum sem hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi. Það er munur á samfélagsbanka og ríkisbanka. Hagnaður samfélagsbankans fer til ríkisins og þar með lækka skattar eða þá að það gerir Norður Dakóta kleift að ráðast í frekari framkvæmdir. Bankinn fjárfestir í raunverulegri verðmætasköpun en ekki spákaupmennsku. Ríkið getur alltaf fengið ódýr lán hjá bankanum sínum. Þar að auki kunna einkabankarnir í N-Dakóta þessu vel því þeir starfa í skjóli stóra bankans sem veitir þeim rekstraröryggi ef sveiflur verða. Reyndar lenti banki Norður Dakóta ekki vandræðum vegna bankakreppurnnar 2008 því þeir höfðu ekki keypt neina ”gúmmítékka” sem hinir bankarnir gerðu. Það samrýmdist einfaldlega ekki fjárfestingastefnu samfélagsbanka að taka þátt í spilavíti  einkabankanna.

Einkabankar sinna hluthöfum en samfélagsbankar sinna almenningi, á því er í raun eðlismunur. Með góðri lagasetningu er hægt að láta sameinaðan Íslands- og Landsbanka mala gull í ríkiskassann sem samfélagsbanka. Þeim sem er einstaklega illa við almannahag mæla með einkavæðingu en við hin stefnum að samfélagsvæðingu bankareksturs, eins og við í Dögun gerum?

Okkar er valdið og valið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur