Sunnudagur 15.11.2015 - 19:53 - FB ummæli ()

Að taka sér réttinn til að drepa

Það er erfitt að einbeita sér því fjöldamorðin í París taka hugann. Hugsunin hvernig ættingjunum líður veldur sársauka. Fyrir nokkrum dögun drápu ISIS menn 43 manneskjur og særðu 200 í Beirut með sjálfmorðssprengjum. Í Nígeríu drápu Boko Harem 117 manns í mosku. Í Kenía voru 147 námsmenn drepnir í háskóla, það var í apríl 2015. Anders Breivik drap 77 manns 2011 í Noregi. Svona mætti lengi telja. Morðingjarnir telja allir að þeir séu í fullum rétti að myrða saklaust fólk. Ég á rétt á…

Maðurinn er í eðli sínu friðsöm skepna. Flestir vilja skapa sér heimili og ala upp börnin sín í friði við allt og alla. Flestir vilja að við séum frjáls til athafna og skoðana svo lengi sem við sköðum ekki náungann. Maðurinn hefur engan sérstakan áhuga á því að stunda styrjaldarekstur. Flestir eru uppteknari af því hvort uppskeran verði góð um haustið eða hvort börnunum gangi vel í skólanum. Sennilega hefðu fáar styrjaldir hafist ef almenningi hefði gefist kostur á að kjósa um það í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Ef Assad Sýrlandsforseti hefði boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2011 í stað þess að senda herinn á mótmælendur væri margt öðruvísi. Hann telur sig hafa rétt á að myrða saklaust fólk.

Græðgin og valdafíkn eru ókostir sem heltekur stundum manninn eins og Assad. Eða þá fjölskylduna sem stjórnar með harðri hendi í Saudi Arabíu og notar trúnna sér til framdráttar. Hálshöggva mann annan hvern dag. Þjálfar og fjármagnar ISIS með samþykki vesturveldanna. Við(Vesturlandabúar) verðum að líta í eigin barm og spyrja okkur hvort við eigum einhvern þátt i þessum harmleik í París. Fjöldamorðin í París eru svo stór atburður að við getum ekki leyft okkur einfaldar skýringar. Hver er orsökin og hvernig upprætum við hana.

Afskipti Vesturveldanna í miðausturlöndum hafa haft skaðleg áhrif. Innrásir í Afganistan, Írak og Líbíu. Sífelldar dróna árásir víðsvegar um heiminn og hernaðarleg íhlutun í mörgum löndum heimsins. Þetta skapar gróðarstíu fyrir hatur. Mið-austurlönd og Afríka eru ein af ríkustu svæðum heimsins, full af auðlindum en mörg þeirra eru máluð sem þjóðir sem lifa ekki af án þróunaraðstoðar. Ef Afríka hefði getað skattlagt með 30% skatti öll skattaundaskot vestrænna stórfyrirtækja í skattaparadísir s.l. 10 ár væri Afríka skuldlaus heimsálfa. Það fara mun meiri fjármunir frá Afríku til vesturlanda á ári en öfugt. Afríka er mun ríkari en vesturlöndin og ætti því að vera senda okkur aðstoð. Ef Afríka væri látin afskiptalaus af okkur væri enginn að deyja úr hungri eða þorsta þar.

Ungur maður sem sér og skilur að þjóð hans gæti lifað góðu lífi ef hún væri ekki arðrænd af vesturlöndum. Sami ungi maður skynjar það eru alltaf einhverjar styrjaldi í löndum sem eru ríkar af auðlindum. Sami ungi maður skynjar það að umræða um trú hans og þjóð er nánast alltaf neikvæð í stærstu miðlum heimsins. Sami ungi maður verður föðurlaus því dróni sprengdi pabba hans í tætlur og heimilið þeirra. Þessi sami ungi maður upplifir að harðstjóri stjórnar landi hans með aðstoð vesturlanda. Þessi sami ungi maður verður eins og ómótaður leir í höndum heilaþvottadeildar ISIS manna. Hann fer til Parísar sannfærður um rétt sinn, til að drepa. Hann trúir því að það sé rétt. Það er hans eina von um breytingu.

Bandaríski hermaðurinn sem stjórnaði drónanum sem sprengdi pabba hans í tætlur er sömu trúar og ungi maðurinn, þ.e. að hann hafði rétt til að drepa. Það er auk þess hans von um breytingu. Samt trúa þeir ekki á sama guð.

Það fæðist enginn sem hryðjuverkamaður eða hermaður, þeir eru búnir til.

Hver er ábyrgð okkar, þessi við eða Vesturlönd. Samkvæmt lýðræðisskipulagi Vesturlanda eru almennir kjósendur valdið. Þeir reyndar afhenda það kjörnum fulltrúum tímabundið en við erum engu að síður valdið. Ef við erum ósátt verðum við að breyta en á meðn við höfum ekki gert það erum við ábyrg fyrir núverandi ástandi.

Þrátt fyrir að stolin velsæld okkur sé þægileg þá eiga kúgaðir meðbræður okkar rétt á því að við reynum að skilja samhengi hlutanna og breyta þessum heimi. Í raun eigum við bara einn rétt, að valda ekki öðru fólki ónæði.

 

Athyglisvert myndband sem tengist efninu:

https://www.facebook.com/ayo.turton/videos/10153727297304324/

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur