Mánudagur 30.11.2015 - 20:02 - FB ummæli ()

Vond veður ganga yfir

Ég hef hingað til talið það ekki ómaksins vert að ræða Vigdísi Hauksdóttur Alþingismann Framsóknarflokksins. Hún er dæmi um vont veður sem maður vonar að gangi yfir sem fyrst. Hennar hlutverk á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn er að halda Framsóknarflokknum í umræðunni og þar tekst henni vel upp. Innan Fjárlaganefndar Alþingis er hún málpípa Sjálfstæðisflokksins og tekur á sig skítkastið fyrir hann, svipað og Baldur og Konni forðum daga. Það var Konni sem sagði alla dónabrandarana.

Nei, það var eiginlega þetta tilsvar að forstjóri Landspítalans hafi beitt Vigdísi andlegu ofbeldi á fundi fjárlaganefndar sem gerði mér rúmrusk. Hann gerði það með væli og þrýstingi. Það stenst náttúrulega enga skoðun. Hann færði bara rök fyrir því að til að reka Landspítalann þyrfti meira fjármagn.

Annað sem vekur undrun er að hún tekur það fram að hún muni ekki erfa orð Páls. Er það reglan að erfa orð opinberra starfsmanna í garð Alþingismanna og Vigdís sýnir af sér einstaka góðvild með því að gera undantekningu núna, bara fyrir Pál.

Vigdís stillir sér upp sem fórnarlambi. Hún verður fyrir andlegu ofbeldi. Hún þarf að hlusta á botnlaust gímald. Hún þarf að hlusta á væl. Eins og hennar persónulega líðan komi fjármálum Landspítalans eitthvað við eða var það umferðahnútar. Þessi orðræða Vigdísar er fyrir neðan virðingu Alþingis. Samtímis er hún dæmi um vonda stjórnsýslu eins og Egill Helga bendir á. Henni virðist vera fyrirmunað að skilja að þeir sem treystu kosningaloforðum hennar eða þeir sem þurfa að upplifa verri þjónustu af hálfu Landspítalans vegna ákvarðana hennar eru hin raunverulegu fórnarlömb. Páll var að tala máli þeirra og hann fór fram á málefnaleg gagnrök, það var allt ofbeldið af hans hálfu.

Það er hefð fyrir því að það birti upp um síðir og í þeirri von lifum við.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur