Laugardagur 23.01.2016 - 00:37 - FB ummæli ()

TISA

Margir halda að fríverslunarsamningar fjalli um afnám tolla. Það að þjóðríki setjist niður til margra ára samningaviðræðna við það eitt að skera niður einhverjar prósentutölur í tollatöflum  ríkja er ekki sennilegt. Nei fríverslunarsamningar eru miklu meira. Það ætti einnig vera augljóst að mikið er í húfi þar sem farið er með innihald samningaviðræðnanna eins og mannsmorð, algjör leynd.

Í þessum samningum er mest rætt um óheftan aðgang stórfyrirtækja að mörkuðum þjóðríkja. Til að þau hafi óheftan aðgang verður að setja stjórnvöldum takmarkanir. Það er eðli stjórnvalda á hverjum stað að styðja undir þá starfsemi sem á uppsprettu sína í nærumhverfinu. Það er einnig eðli stjórnvalda að styðja þá sem eru minni máttar. Styðja lítil og meðalstór fyrirtæki. Styðja þróun og nýsköpun. Að skapa réttlæti og sanngirni á markaði. Að varðveita náttúruna. Að skapa almenningi og launamönnum öryggi. Að varðveita menningu og þá þjóðlegu hefð sem veitir svæðinu sérstöðu og íbúunum er annt um.

Það er hlutverk stjórnvalda að stjórna þannig að réttlæti og sanngirni nái fram að ganga öllum til hagsbótar.

Í fríverslunarsamningum eru búnar til reglur sem takmarka völd stjórnvalda. Því er hafnað að stjórnvöld hafi það hlutverk að skapa réttlæti. Eina réttlætið er að allir hafi nákvæmlega sama aðgang að mörkuðum samkvæmt fríverslunarsamningum. Afleiðingin er augljós, stór fjölþjóðleg fyrirtæki munu ryðja smærri fyrirtækjum út af markaðnum með undirboðum og eiga svo markaðinn fyrir sig. Þess vegna eru stjórnvöld fyrirstaða í markaðstöku þessara fyrirtækja enda eru þau aðal þrýstihópurinn sem vill að þessir samningar verði að veruleika. Þess vegna er samið bak við luktar dyr og almenningi ekki hleypt að. Þess vegna mótmæla samtök almennings um allan heim.

Stórfyrirtækin vilja ekki bara jafna stöðu heldur sérstöðu t.d. vill Walmart keðjan hafa eindæmi um hvar hún setur verslanir sínar niður, ráða opnunartíma,  selja tóbak og áfengi að eigin geðþótta. Allt atriði sem stjórnvöld eru vön að ákveða. Það er vel hugsanlegt að þær kröfur sem venjulega eru gerðar til fyrirtækja í tengslum við leyfisveitingar, þekkingu og kunnáttu, öryggisatriði eða þá náttúruvernd verði dæmdar sem íþyngjandi fyrir fyrirtækin. Þar með er eftirlitsvald stjórnvalda gert að engu.

Fríverslunarsamningar snúast mikið um einkavæðingu á almannaþjónustu. Mikið hefur verið einkavætt á liðnum áratugum. Margt hefur mistekist og því hafa stjórnvöld neyðst til að taka þjónustuna yfir aftur, þ.e. afeinkavæða. Nú vilja þeir sem eru að semja um TISA koma með reglu sem heitir STANDSTILL. Það þýðir að það sem einu sinni hefur verið einkavætt má ekki afeinkavæða, alveg sama þó þjónustan sé dýrari og verri.  Önnur regla sem kallast RATCHETT snýst um að ef stjórnvöld vilja gera tilraun með einkarekstur til að kanna hvernig það reynist þá geta þau ekki bakkað og tilraunin verður því til framtíðar einkarekin. Til að gulltryggja einkavæðingu í sessi þá vilja stórfyrirtækin að inn í samninginn séu sett ákvæði sem kallast ”future-proofing”. Sú regla gengur út á að ef einhvern tíman ný þjónusta verður til þá verði hún alltaf einkarekin, þ.e. stjórnvöldum er fyrirfram gert ókleift að koma að henni. Þessar reglur eru augljóslega gerðar til að takmarka völd stjórnvalda. Stjórnvöldum ber skylda til að bregðast við mismunandi aðstæðum í þjóðfélaginu og það vita allir viti bornir menn að einkarekstur er ekki eina lausnin. Stjórnvöld verða að hafa valið og ákvörðunarvaldið.

Af þessu má ljóst vera að fríverslunarsamningar fjalla minnst um afnám tolla. Þeir fjalla miklu meira um að takmarka það vald sem almenningur hefur falið kjörnum fúlltrúum. Að samningarnir fari fram fyrir luktum dyrum án aðkoma almennings sem eru handhafar valdsins er samsæri. Þessu verður að mótmæla því um er að ræða skerðingu á grundvallarréttindum okkar í því lýðræðisskipulagi sem við búum við.

Stjórnmálasamtökin Dögun munu hafa fund um TISA í Norræna húsinu fimmtudaginn 28. JANÚAR kl 20:00. Þar mun Bergþór Magnússon fulltrúi úr samninganefnd Íslands um TISA kynna samningaviðræðurnar. Ég mun halda stutt erindi. Fulltrúar þingflokkanna munu flestir mæta til að kynna okkur skoðun sína á TISA. Hvet ég alla til að mæta til að kynna sér TISA.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur