Fimmtudagur 18.02.2016 - 22:51 - FB ummæli ()

Kæri Guðlaugur Þór

Ég hlustaði á þig og Ögmund rökræða um samfélagsbanka í Bítinu 17. febrúar á Bylgjunni. Það eru nokkur atriði sem ég vil gera athugsemdir við í málflutningi þínum.

Sparkasse í Þýskalandi er með 50 milljón Þjóðverja af 80 milljónum sem viðskiptavini og hefur starfað í 200 ár. Þegar Þjóðverjar eru spurðir hvaða stofnun þeir treysta best þá segja 54% Sparkasse (liðlega 10% treysta bönkum á Íslandi). Ef Deutsche Bank (einkabanki) setur eina Evru í vinnu þá eru eftir 0,87 Evrur að ári, þ.e. 13% tap á þeirri fjárfestingu. Hjá Sparkasse verður ein Evra að 1.65 Evrum að ári. Tölur frá 2015 um cost-income-ratio (115% vs 59.9%).  Stór útgjaldaliður einkabankanna eru skaðabætur til viðskiptavina vegna skaða sem framferði þeirra hefur orsakað. Deutsche Bank hefur á síðustu fimm árum borgað 8.2 milljarða Evra í skaðabætur og hagnaður á sama tíma var 9.3 milljarðar Evra. Fjöldi lögsókna er núna um 6000.

Ykkur andstæðingum samfélagsbanka er tíðrætt um Íbúðarlánasjóð (ÍLS).  Hvernig stóð þá á því að ríkisrekinn íbúðalánasjóður lenti í ógöngum? Mikið til vegna ákvarðana manna í ríkisstjórn Davíðs og Halldórs og tengdra aðila á sínum tíma. Afnám bindiskyldunnar 2003 og einkavæðing bankanna, allt á vakt XD og XB, settu Íbúðalánasjóð í uppnám sem sjóðurinn réð ekki við. Einkabankarnir komu inn á íbúðarlánamarkaðinn og undirbuðu Íbúðarlánasjóð og lántakendur greiddu upp lán sín hjá Íbúðarlánasjóði. ÍLS gat ekki greitt upp sín eigin lán vegna skorts á uppgreiðsluákvæði. Þar með hafði ÍLS talsvert af peningum (án hirðis). Þess vegna lánaði ILS einkabönkunum (af öllum) Eftir skelfilegt gjadþrot einkabankanna varð það að tapi ÍLS og margir verktakar urðu einnig gjaldþrota.

Íbúðalánasjóður er lánasjóður ekki banki, ekki frekar en að Lánasjóður íslenskra námsmanna sé banki. Enginn getur stofnað bankabók í ÍLS, fengið kreditkort, haft greiðsludreifingu eða sótt um venjuleg neyslulán. ÍLS er ekki banki. Samfélagsbankinn í Norður Dakóta er banki. Hann getur fjárfest í ”köldum svæðum” því hann hefur sveigjanleika sem fylgir almennum bankarekstri.

Jafnvel þó að ÍLS hafi gengið illa þá er ekki hægt að fullyrða það að samfélagsbanki á Íslandi muni ekki standa sig. Samkvæmt þinni rökfræði ættum við því að banna alla einkabanka á Íslandi um alla framtíð vegna þess að það voru einkabankar sem fóru á hausinn 2008 með ærnum tilkostnaði fyrir þjóðina. Hugsanlega hefði verið hægt að byggja nokkra spítala fyrir allan  kostnaðinn af hruninu.

Þú nefnir að þriðji stærsti kostnaðarliður ríkisútgjalda séu vextir. Fyrir hrun skuldaði ríkissjóður um 25% af VLF. Sú tala margfaldaðist við gjaldþrot einkabankanna haustið 2008. Hægt er að minnka vaxtakostnað ríkisins verulega með samfélagsbanka. Ef ríkið á samfélagsbanka þá mun hann skila stærstum hluta af vöxtunum sem hagnaði til ríkisins. Þess vegna fær ríkið í raun vaxtarlaus lán. Þetta verður eilífðarvél og er mun betri kostur en að selja eignir ríkisins einu sinni. Auk þess er það kostur með samfélagsbanka að hann er eingöngu viðskiptabanki og því mun minni líkur á því að hann fari í þrot. Það er mun meiri áhætta fyrir skattgreiðendur að hafa einkabanka í samfélaginu því þeir eru sí og æ að fara á hausinn og það lendir alltaf á skattgreiðendum hvort sem er.

Þannig kæri Guðlaugur Þór þá virðist sem samfélagsbanki geti orðið mikil lyftistöng fyrir allt samfélagið sem þú og ég búum í. Með hagnaðinn af bankarekstri í höndum almennings þá færumst við fram á veginn að réttlátara samfélagi. Meðan fátækt er til á Íslandi er ekki annað forsvaranlegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur