Föstudagur 26.02.2016 - 20:33 - FB ummæli ()

Stjórnarskráin okkar

Mörgum Íslendingnum er farið að lengja eftir stjórnarskrá sem virkar og er við hæfi. Þeim sem sitja í stjórnarskárnefnd Forsætisráðauneytisins og skilaði núna uppkasti sínu virðast alls ekki vera samstíga þjóðinni að þessu leytinu. Hver er ósk og væntingar margra Íslendinga þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

 

Við teljum stjórnarskrá vera verklagsreglur fyrir kjörna fulltrúa okkar meðan þeir fara með valdið okkar tímabundið sem við treystum þeim fyrir. Þeir sem setja öðrum verklagsreglur hafa valdið og þeir sem fara eftir verklagsreglum hafa ekki valdið. Þjóðin er valdið, þingmönnum er treyst fyrir valdinu tímabundið og stjórnarskrá setur þeim takmarkanir um hvernig þeir beita valdinu sem við treystum þeim fyrir, tímabundið.

 

Þessar nýju tillögur sem koma núna fram hjá stjórnarskrárnefnd Forsætisráðuneytisins virðist bera þess merki að þingmenn setji sig á háan hest, hér fljótum við eplin eins og einn góður maður sagði. Þingmenn eiga ekkert með að setja sjálfum sér verklagsreglur, það á þjóðin að gera. Þess vegna er hægt að henda þessum tillögum út í hafsauga bara vegna þessa eina formgalla.

 

Það er sorglegt að verða vitni að því að fínt fólk með fína menntun reynir með miklum erfiðismunum að semja texta, að stjórnarskrá, sem lítill hópur hagsmunaaðila getur sætt sig við. Hópur sem hefur ákkúrat ekkert umboð til að standa í slíkri vinnu. Hópur sem virkar á venjulegan Íslending eins og geimvera hafi lent í garðinum hans.

 

Nei, við þessir Íslendingar sem teljum að valdið tilheyri þjóðinni og þið þingmenn séuð þjónar okkar erum ekki sátt við þetta brölt ykkar. Árangur ykkar er ekkert til að skreyta með, enn er fátækt á Íslandi, misrétti og forréttindastéttum er hyglað. Það er full ástæða til að almenningur taki virkan þátt í stjórnun landsins.

 

Við sjáum stjórnaskrá sem verkfæri til að kalla fram þjóðarvilja sem eftir atvikum er alls ekki það sem þið þingmenn hafið í hyggju. Það er allt í lagi því þið buðuð ykkur fram til að sinna okkur og vilja okkar. Við viljum hafa möguleika til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um öll hugsanleg mál og bara með undirskrift 10% kosningabærra manna. Við erum valdið og okkur ber að taka afstöðu. Að halda það að 63 einstaklingar séu betur til þess fallnir en almenningur er svæsin ranghugmynd.

 

Við viljum geta ákveðið hvort við göngum í ESB, hvort við samþykkjum TISA samninginn, hvort og hvernig kvótakerfinu verði breytt, hvort lífeyrissjóðirnir verði sameinaðir eða ekki og vald þeirra minnkað eða einfaldlega ákveðið að lækka stýrirvexti seðlabankans. Það virðist sem flestar ákvarðinir séu teknar með hliðsjón af þörfum einhverra hagsmunahópa. Við teljum að stærsti hagsmunahópurinn, þ.e. almenningur, eigi að koma mun meira og með virkari hætti að stjórn landsins.

 

Þess vegna viljum við semja stjórnarskrá, án ykkar þingmanna, til að koma böndum á ykkur fyrir okkur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur