Sunnudagur 29.05.2016 - 23:26 - FB ummæli ()

Framtíð barnanna okkar

Börnin okkar hafa undanfarna daga verið að útskrifast úr skólum landsins. Framtíð flestra er björt og möguleikar þeirra margvíslegir. Þau eiga reyndar litla möguleika á því að eiga fyrir húsaleigu og hvað þá að kaupa sér þak yfir höfuðið. Þökk sé valdhöfum. Illugi vinnur hörðum höndum að því að gera opinbert skólakerfi óaðlaðandi og markmiðið er að búa í haginn fyrir hagnaðardrifið einkakerfi. Þau sem settu upp kollana núna sluppu rétt fyrir horn við aðgerðir Illuga en nú mætir þeim framsóknardama sem leggur húsnæðismarkaðinn ótilneydd í hendur markaðsaflanna. Ekkert non profit dæmi hér segir hún því það gæti skaðað hagnað hinna “frjálsu” fjárfesta sem eru oftar en ekki gæslumenn lífeyris okkar. Lánasjóður íslenskra námsmanna virðist eiga til framtíðar að sinna frekar efnameiri námsmönnum allt í boði Illuga. Kristján Júl laumast mjúkmæltur inn með hagnaðardrifið heilbrigðiskerfi. Bjarni Ben vill selja Landsvirkjun í áföngum til einkaaðila og má ekki heyra minnst á að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka. Kóróna sköpunarverks núverandi ríkisstjórnar í tvískinnungi er bitlaust frumvarp um skattaskjól lagt fram af Fjármálaráðherra sem hefur verið sjálfur í skattaskjóli, reyndar óafvitandi. Samstarfsflokkurinn tekur til gamalla raka og segir að menn mega ekki gjalda þess að vera ríkir. Auk þess fylgja því erfiðleikar að koma svo miklu fé frá skattanefi. Verst er að það skiptir litlu máli hver af fjórflokknum situr við völd. Það er enginn raunverulegur munur bara minniháttar litabrigði sem breyta engu, raunverulega.

Betur settir foreldrar geta skotið skjólshúsi yfir börnin sín og stutt þau fjárhagslega meðan þau ná sér í nægjanlega menntun til að geta flutt úr landi og komið sér fyrir í samfélagi þar sem til er siðferðisleg vitund meðal stjórnvalda, ekki þetta ættbálkasamfélag sem er á Íslandi. Ég sé ekki veisluna, sá hana ekki þá og ekki heldur núna.

Það er hlutverk foreldra að skapa börnum sínum góða framtíð.

Hluti af því er að vera virkur borgari í lýðræðisþjóðfélagi er að skoða með gagnrýnum huga stjórnmál dagsins. Hverjir hafa staðið sig og hverjir þora að gera raunverulegar kerfisbreytingar. Ég sjálfur tel að það sé fullreynt með fjórflokkinn, hann hefur fengið sín tækifæri og ekki tekist að sanna sig. Aðrir bíða á hliðarlínunni og vilja takast á við vandmálin. Dögun er nýlegt stjórnmálaafl sem hefur ekki fengið tækifæri til að spreyta sig. Stefna okkar er markviss og skýr. Stefna okkar er alls ólík því sem stunduð er núna og hefur réttlætið að leiðarljósi. Kynntu þér málið á xdogun.is , aldrei að vita nema lausnir okkar henti þér og afkomendum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur