Fimmtudagur 16.02.2017 - 22:02 - FB ummæli ()

Silfur hafsins

Það var eins og ljóstýra hefði kveiknað í kollinum á Íslendingum haustið 2008, héldum við. Í hverri eldræðunni af fætur annarri haustið 2008 var það fullyrt að Sjálfstæðisflokkurinn væri upphaf og endir á óhamingju Íslendinga. Eini sýnilegi árangurinn af búsáhaldarbyltingunni í dag er að Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar sem fyrr.

Vinstri stjórnin brást ekki auðvaldinu enda hafði hún löngu áður samþykkt framsalið og þannig orðið hluti af auðvaldinu. Samfylkingin er Sjálfstæðisflokkur fyrir litblinda og í Vg hafa allir hrökklast út sem ekki vilja vera Sjálfstæðismenn. Í dag sjáum við afleiðingar fylgispektar þeirra við auðvaldið. Sjómenn standa einir, hvar eru baráttumenn alþýðunnar?

Viðreisn er bara Sjálfstæðisflokkur sem vill inní ESB. Björt framtíð er eitthvað sem fittar vel þar sem hún er núna engum til ama nema því alþýðufólki sem kaus hana. Framsóknarflokkurinn hefur hingað til verið hækja þess sem óskar.

Í raun kjósa lang flestir íslenskir kjósendur Sjálfstæðisflokkinn í einni eða annarri mynd.

Útgerðarmenn stjórna hinum mismunandi þingflokkum Sjálfstæðisflokksins og því er það meira formsatriði hverja við kjósum af þeim.

Ekki skrítið að fólk nenni ekki að kjósa og gefi lýðræðið upp á bátinn.

Sjómenn eiga það ekki gott. Útgerðarauðvaldið vill brjóta þá niður og Alþingi mun sennilega koma útgerðarauðvaldinu til hjálpar, fljótlega.

Hvers vegna þjóðin horfir aðgerðalaus á útgerðarauðvaldið svína á sjómönnum og þjóðinni er í raun ráðgáta. Vandamálið er að þjóðin þorir ekki að hrófla við kvótakerfinu né útgerðarauðvaldinu því hún trúir því að síðasti fiskurinn í hafinu verði veiddur. Það er eins og sú trú réttlæti allt óréttlæti af hálfu útgerðarauðvaldsins. Þessu verður að linna, við eigum að veiða mun meira og við eigum að afnema einokun útgerðarvaldsins á fiskinum okkar. Núna er lag því útgerðarmenn hafa sjaldan afhjúpað eigingirni sína betur en núna.

Það er aðgerða þörf og þær verða að hefjast fyrst í huga okkar sjálfra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur