Þriðjudagur 12.03.2013 - 08:06 - FB ummæli ()

Hrægammasjóðir og húsnæðisskuldir – Athugasemdir

Uppgjör við hrægammasjóðina/óþekkta eigendur 87% af Arion banka og 95% af Íslandsbanka verður eitt mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar í kjölfar alþingiskosninganna í apríl. Verkefnið er flókið og viðkvæmt og gríðarlegir hagsmunir íslenzks samfélags eru í húfi að vel takist til við úrlausn þess. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skilgreina viðfangsefnið á skýran og yfirvegaðan hátt.

Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og gjaldkeri Samfylkingarinnar m.m., skrifaði grein á bloggsíðu sinni 24. febrúar sl. undir fyrirsögninni „Hrægammasjóðir og húsnæðisskuldir”. Að jafnaði er Vilhjálmur bæði glöggur og pennafær en í umræddri grein brást honum bogalistin varðandi öll helztu atriði sem verið hafa í umræðunni síðustu misseri.

Til að auðvelda framsetningu og skilning lesenda á efnistökum Vilhjálms þá er greinin birt hér að neðan í hlutum að viðbættum athugasemdum undirritaðs við einstaka hluta greinarinnar.

***

VILHJÁLMUR:
Á undanförnum vikum og mánuðum hefur talsvert verið rætt um svokallaða „hrægammasjóði“, þ.e. erlenda vogunarsjóði sem sjúgi gjaldeyri út úr þjóðarbúinu og/eða hagnist gríðarlega á kostnað skuldugs almennings. Til þessara sjóða sé jafnvel hægt að sækja fé í ríkissjóð sem nota megi til að lækka skuldir heimilanna, eins og formaður Framsóknarflokksins nefndi í nýlegu sjónvarpsviðtali. Að ekki sé „tekið á þessum sjóðum“ sýni linkind ríkisstjórnarinnar í hagsmunagæslu gagnvart vondum útlendingum.

Athugasemd:
Þetta er öfugsnúin kynning á vandamálum þjóðarbúsins, sem tengjast hrægammasjóðunum.

(1) Sjóðirnir hafa ekki ennþá ‘sogið gjaldeyri út úr þjóðarbúinu‘ – þeir eru að undirbúa sig til að gera það.

(2) Bókfærður hagnaður nýju bankanna, sem tóku yfir eignir gömlu bankanna á hluta af nafnvirði (traustar upplýsingar um afsláttinn liggja ekki á lausu) en hafa látið stærri skuldara njóta góðs af afslættinum en uppfært skuldir annarra, er liður í tilraun til að ‘hagnast gríðarlega á kostnað skuldugs almennings‘.

(3) Bókfært virði eigna bankanna inniheldur því froðu – þ.e.a.s. útistandandi lán eru uppfærð samtímis því að hlutfall lána í vanskilum er margfalt hærra en það sem gerist og gengur í vestrænum bankakerfum. Eigið fé bankanna myndi lækka – og staða Íslands til að taka ‘á þessum sjóðum’ batna – við það eitt að stjórnvöld fyrirskipuðu þeim að færa niður hlutfall lána í vanskilum til að endurspegla froðulausa eignastöðu.

***

VILHJÁLMUR:
Snjóhengja krónueigna. Erlendir kröfuhafar í þrotabú banka og fjármálafyrirtækja, aðrir erlendir aðilar og einnig innlendir, eiga eða munu eignast mörghundruð milljarða íslenskra króna, jafnvel 1.000 milljarða. Þeir vilja skipta þessum krónum í alvöru gjaldmiðla og fara með þá úr landi við fyrsta tækifæri. Ef það fær að gerast veikist krónan verulega, innfluttar vörur hækka í verði, verðbólga fer af stað, skuldirnar hækka enn frekar og heimil og fyrirtæki fara í aðra kollsteypu. Með öðrum orðum: Uppgjör þrotabúa einkaaðila úti í bæ (bankanna) og leifar vaxtamunarviðskipta „góðærisins“ verða þarna að risavöxnu vandamáli almennings í gegn um íslensku krónuna. (Það er lykilatriði að átta sig á að ef við værum með t.d. evru í stað krónu væri vandi almennings vegna uppgjörs þrotabúanna sem slíks enginn.)

Athugasemd:
Vandinn er hér rétt skilgreindur. Hins vegar eru lokaorðin í sviga staðleysa – vandinn hefur ekkert að gera með krónuna sem slíka heldur kröfur sem eru umfram greiðslugetu þjóðarbúsins. Greiðslugeta þjóðarbúsins myndi ekki breytast við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og hugsanlega upptöku evru í stað krónu – nema Evrópusambandið hlypi undir bagga að því marki sem snjóhengjan er umfram greiðslugetu þjóðarbúsins.

***

VILHJÁLMUR:
Til að veita ráðrúm og velta vandanum á undan okkur erum við með fjármagnshöft. Verið er að losa krónueigendur út á lágu gengi með gjaldeyrisuppboðum Seðlabankans, en það gengur hægt. Ekki þarf að reikna lengi til að sjá að með þeim afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum sem nú er, og þeim hagvexti sem raunhæft er að spá, tekur 1-2 áratugi að vinda ofan af snjóhengjunni, að öðrum forsendum óbreyttum – og á meðan yrði krónan veik og í höftum. Leiðin er ekki auðfundin, en hana þarf að þróa í sem mestri pólitískri sátt. Það eru engar hraðvirkar töfra- eða patentlausnir í boði. Ég tel affarasælast að vinna áfram að áætlun með AGS, ESB og evrópska seðlabankanum, og stefna á ERM II og evru myndi hjálpa mjög, en þetta verður eitt af meginviðfangsefnum næsta kjörtímabils.

Athugasemd:
Hér virðist mega lesa: Ísland er í súpunni nema við fylgjum stefnu Samfylkingarinnar. Þetta eru draumórar – engin ástæða er til að ætla að ‘AGS, ESB og evrópski seðlabankinn‘ séu reiðubúin til að fjármagna fullt uppgjör við eigendur snjóhengjunnar, erlenda jafnt sem innlenda fjárfesta.

***

VILHJÁLMUR:
Viðskipti með kröfur í þrotabú bankanna. Bankarnir skulduðu miklu meira en þeir áttu. Þess vegna fóru þeir í greiðsluþrot. Fjölmargir, innlendir og erlendir, höfðu lánað bönkunum peninga. Þeir sitja uppi með sárt ennið en fá þó eignir bankanna í sinn hlut, svo langt sem þær ná. Aðeins brot af fjármunum almennra kröfuhafa mun verða endurgreitt, sirka 5-35% eftir bönkum. Eftir stendur tjón upp á mörgþúsund milljarða króna.

Skiptaferli eignanna er skilgreint í íslenskum gjaldþrotalögum og lögum um fjármálafyrirtæki. Það byggir á því að menn lýsi kröfum í þrotabú bankanna með stöðluðum hætti fyrir tiltekna dagsetningu. Slitastjórnir, sem tilnefndar eru af héraðsdómi, útbúa kröfuskrá og annast innheimtu útlána og fullnustu eigna og greiða kröfuhöfum að réttri tiltölu upp í samþykktar kröfur, í áföngum.

Nú er það svo að einhverjir kröfuhafar hafa síðan á árinu 2009, þegar kröfulýsingarferlinu lauk, gefist upp á að bíða eftir peningunum sínum. Þeir hafa í staðinn kosið að framselja kröfur sínar til annarra, á verði sem aðilar koma sér saman um. Þannig hafa kröfur gengið kaupum og sölum enda ekkert sem bannar slíkt.

Hafi „hrægammasjóður“ t.d. keypt kröfu á íslenskan banka á 10% af nafnvirði kröfunnar árið 2009, en gæti nú selt hana á 30% af nafnvirði (af því að horfur um endurheimtur hafa batnað), hefur hann þrefaldað fjárfestingu sína á tæpum fjórum árum. En sá hagnaður er ekki á kostnað íslenska ríkisins, skattgreiðenda eða almennings, heldur „á kostnað“ þess kröfuhafa sem seldi sjóðnum kröfuna á 10% árið 2009.

Athugasemd:
Kröfur á íslenzka banka ganga kaupum og sölum á verði sem byggist á væntingum aðila um raunvirði eignanna þegar upp er staðið. Sá tími er ekki kominn – en þangað til skapast hvorki gróði né tap, heldur hugsanlegur gróði eða tap.

Fjárfestar sem selja kröfur ódýrt miðað við lokavirði gera það á markaðsvirði og bera engan ‘kostnað‘ af gróða við innleysingu þeirra. Það sama á við ‘íslenzka ríkið, skattgreiðendur eða almenning‘ við kaup og sölu á kröfum innan hóps fjárfesta.

Það er fyrst þegar kröfuhafar innleysa kröfur sínar og vilja taka andvirði þeirra út úr íslenzka hagkerfinu í gjaldeyri að hagsmunir ‘ríkis, skattgreiðenda eða almennings’ koma við sögu.

***

VILHJÁLMUR:
Viðskipti af þessu tagi er ekki unnt að fyrirbyggja, þótt íslenskir stjórnmálamenn vildu, því í mörgum tilvikum eiga þau sér stað milli tveggja erlendra aðila og eru ekki undir íslenskri lögsögu. (Enda má spyrja sig hvaða tilgangi bann við framsali krafna í þrotabú ætti að þjóna. Slíkt framsal breytir almennt séð engu um úrvinnslu þrotabúsins eða störf slitastjórnar skv. lögum.) Íslensk löggjöf getur heldur ekki mismunað innlendum og erlendum aðilum í þessu efni, a.m.k. ekki innan EES-svæðisins.

Athugasemd:
Mér vitanlega hafa engin áform verið uppi um að hindra kaup og sölu krafna á bankana – enda vandséð af hverju ‘íslenskir stjórnmálamenn‘ ættu að vilja fetta fingur út í það.

***

VILHJÁLMUR:
Varðandi hugsanlega skattlagningu hagnaðar af verslun með kröfur í þrotabú, þá er slíkur hagnaður ótvírætt tekjuskattskyldur hjá íslenskum lögaðilum og einstaklingum. Hann er á hinn bóginn ekki skattskyldur á Íslandi hjá erlendum lögaðilum sem eru skattskyldir í sínum heimaríkjum. Hugsanlega mætti búa til einhvers konar takmarkaða skattskyldu erlendra aðila af hagnaði af verslun með kröfur í íslensk þrotabú, en hún yrði erfið í framkvæmd og auðvelt að skjóta sér undan henni. Þeir sem tala fyrir slíkri skattlagningu þurfa að útskýra með sannfærandi hætti hvernig hún ætti að virka. Í öllu falli yrði hún ekki afturvirk því stjórnarskráin bannar afturvirka skatta.

Athugasemd:
Hér skjátlast Vilhjálmi svo um munar.
Það hefur ekki verið rætt um tekjuskatt á krónueignir heldur útgöngugjald (e. exit fee) – sem jafngildir skatti og myndi verða innheimt ef erlendir/innlendir krónueigendur vilja innleysa þær í gjaldeyri og flytja úr landi. Það er ekki í önnur hús að venda en íslenzka bankakerfið til að skipta krónum í gjaldeyri á gengi sem boðið er upp á. Afturvirk skattlagning kemur hér hvergi til sögunnar.

***

VILHJÁLMUR:

Brýnt er að koma til móts við þau heimili sem verst fóru út úr húsnæðiskaupum á árunum 2005-8 og eiga í erfiðleikum. En það viðfangsefni tengist ekki með neinum beinum hætti „hrægammasjóðum“ eða viðskiptum með kröfur í bankana. Tal um slíkt beinir einungis athygli frá hinum raunverulega vanda.

Athugasemd:
Eitt er að tengjast ‘ekki með neinum beinum hætti‘ vanda heimilanna – annað að vera uppspretta ríkistekna í mynd útgöngugjalds fyrir gjaldeyri til að fjármagna lagfæringu á stöðu heimilanna.

***

VILHJÁLMUR:
Þegar flóknar áskoranir eru framundan, til dæmis það risavaxna verkefni að „taka til eftir krónuna“ og bræða niður snjóhengjuna í áföngum, er freistandi að slá fram „einföldum“ lausnum á borð við það að sækja peninga með óskilgreindum hætti til „vondra útlendinga“ í „hrægammasjóðum“. Vitaskuld á að halda eins vel og unnt er á hagsmunum íslenska þjóðarbúsins þegar kemur að því að hleypa krónueigendum út, og beita þeim verkfærum sem tiltæk eru og gagnleg í stöðunni. En verkefnið þarf að nálgast af ábyrgð og segja kjósendum satt, rétt og skýrt frá. Aðeins þannig geta þeir tekið upplýsta afstöðu í næstu kosningum og valið leiðir sem skila okkur áfram en ekki aftur á bak á næsta kjörtímabili.

Athugasemd:
Snjóhengjuvandinn felst ekki í geðslagi kröfuhafa – ‘vondra útlendinga‘ – eða nafngift þeirra í fyrirsögn greinar Vilhjálms – ‘hrægammasjóðir‘ – né þjónar það ‘hagsmunum íslenska þjóðarbúsins‘ og ‘upplýstri afstöðu í næstu kosningum‘ að láta að því liggja að þar liggi hundurinn grafinn. Við bæði getum og eigum að huga að hagsmunum íslenskra ríkisborgara þegar kemur að losun gjaldeyrishafta og “snjóhengjunnar”. Útgöngugjald er kostur í stöðunni, jafnvel sá bezti.

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar