Sunnudagur 31.03.2013 - 17:25 - FB ummæli ()

Verðtrygging – Okurvextir

Í nýlegum pistli (Misþyrming á móðurmálinu.) benti Jónas Kristjánsson á nýyrðasmíði sem miðar að því að fegra athæfi sem almennt er fordæmt í samfélaginu:

„Nýjasti frasinn er markaðsmisnotkun, sem er bara þjófnaður. Áður heyrðust umboðssvik og innherjasvik og þar áður skattasniðganga. Markmiðið er að forðast tal um þjófnað karla með hálsbindi.‟

Okurlánastarfsemi er almennt fordæmd í siðuðum samfélögum, sbr. gagnrýni í fjölmiðlum og á Alþingi á fyrirtækjum sem veita smálán gegn nokkur hundruð prósenta vöxtum á ársgrundvelli.

Hugtakið verðtrygging er dæmi um fegrun okurlánastarfsemi sem íslenzk stjórnmálastétt (1) heimilaði með lögum, (2) vill feiga í orði, en (3) verndar á borði.

Lögleg og siðlaus okurlánastarfsemi hefur svipt 4000 fjölskyldur heimilum sínum á árunum eftir hrun – ekki af tilviljun heldur undir verndarvæng stjórnmálastéttarinnar.

Það var ljóst í upphafi að verðtrygging lána í verðbólguhagkerfi var peningalegt gjöreyðingarvopn nema eitthvað samræmi væri með þróun greiðslugetu lántakenda og greiðslubyrði af lánum þeirra.

Afnám verðtryggingar launa árið 1983 varð síðan kveikja þess gjöreyðingarvopns sem hefur rústað heimilum og lífi þúsunda fjölskyldna eftir hrun og ógnar ótöldum öðrum á komandi tíð.

En stjórnmálastéttin og hagsmunaöflin að baki hennar ræða ekki málin á þessum nótum heldur segja það vera siðferðilega skyldu fórnarlamba óskapnaðarins að heiðra lánasamninga við fyrirtæki og stofnanir sem veita lán á okurvöxtum og kalla verðtryggingu.

„Brýnustu málin eru málefni heimilanna, málefni atvinnulífsins og opinber fjármál á Íslandi,‟ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins við endurkjör hans á landsfundi flokksins.

En lagðist síðan gegn ályktun efnahagsnefndar fundarins um afnám verðtryggingar og leiðréttingu á rústun helgustu innviða samfélagsins vegna lögverndaðra okurvaxta á lánum heimilanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar