Sunnudagur 23.06.2013 - 00:24 - FB ummæli ()

Eignir kröfuhafa og leiðrétting skulda

Í aðdraganda kosninganna 27. apríl sl. leyfði ég mér að kalla hugmyndir XB um fjármögnun leiðréttinga á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna „endemis rugl“.

Í síðustu viku tjáði annar hagfræðingur sig um málið og sagði hugmyndirnar vera „galnar“.

Í beinni útsendingu á Stöð2 daginn fyrir kosningar var Sigmundur Davíð spurður um viðbrögð hans við umsögn minni. Hann vísaði henni á bug sem pólitískum áróðri en taldi það ekki vera ámælisvert þar sem ég væri í framboði (fyrir Lýðræðisvaktina). Þar var um misskilning að ræða; ég var formaður uppstillinganefndar XL en ekki í framboði.

Friðrik Már Baldursson, forstöðumaður viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, var ekki í framboði fyrir neinn flokk en er sammála mér um meint ágæti hugmynda XB. Af málflutningi XD fyrir kosningar varð ekki annað ráðið en að þar á bæ hafi menn almennt deilt skoðunum okkar Friðriks Más.

Síðar reyndist Bjarni Benediktsson vera á pari með Sigmundi Davíð og samþykkti stjórnarsamstarf milli XD og XB með framkvæmd umræddra hugmynda að hornsteini.

En hver er þá sannleikurinn í málinu?

Það má leiða fræðileg rök að umsögnum okkar Friðriks Más, sem bjóða heim mótrökum ef einhver eru.

En peningahagfræði er flókin og erfitt að rökstyðja fræðilega afstöðu í málum sem þessu þannig að gagn sé að fyrir allan almenning.

Mér datt því í hug að setja upp einfalt dæmi þar sem kjarni málsins ætti að vera flestum skiljanlegur.

1. Íslenzk stjórnvöld boða lækkun verðtryggðra húsnæðisskulda um 400 milljarða.

2. Erlendir kröfuhafar eiga eftirfarandi eignir:

a. Tvo viðskiptabanka, 200 milljarðar.

b. Kröfur á Íbúðalánasjóð, 100 milljarðar.

c. Ríkisvíxla, 100 milljarðar.

d. Bankainnstæður, 100 milljarðar.

e. Gjaldeyrir utan Íslands 2.000 milljarðar.

3. Yfirtaka stjórnvalda á lið a. án endurgjalds eykur ríkiseignir í mynd hlutafélaga um 200 milljarða.

4. Yfirtaka stjórnvalda á liðum b. og c. og d. bætir hreina skuldastöðu ríkissjóðs um samtals 300 milljarða.

5. Tilraun stjórnvalda til yfirtöku á e. býður heim langvarandi dómsmálum innanlands og utan.

6. Yfirtaka b. og c. skilar engu reiðufé í ríkiskassann.

7. Yfirtaka d. skilar 100 milljörðum í ríkiskassann en hefur engin áhrif á peningamagn í umferð.

8. Notkun andvirðis d. til skuldaleiðréttingar eykur peningamagn í umferð um 100 milljarða.

9. Notkun andvirðis d. er því jafngildi peningaprentunar af hálfu Seðlabanka Íslands.

10. Um áhrif sölu tveggja banka á fjárhagslegan og greiðslujafnaðar stöðugleika fer eftir atvikum.

11. Innlendar eignir kröfuhafa upp á 500 milljarða (a.-d.) skapa 100 milljarða „svigrúm“.

12. „Svigrúm“ sem Seðlabanki Íslands getur skapað með pennastriki/peningaprentun.

Það er ábyrgðarhlutur að (a) vinna kosningar með endemis rugli, og (b) hafa skuldsett heimili landsins að ginningarfíflum í kjölfarið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar