Sunnudagur 30.06.2013 - 17:53 - FB ummæli ()

Forsætisráðherra, frasar og rökleysa.

1. Í viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Sprengisandi í morgun – http://visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP19477 – vakti Sigurjón M. Egilsson máls á “umframhagnaði” í sambandi við umræðuna um veiðigjald. (mín. 3:00)

2. “Umframhagnaður” er vel þekkt hagfræðihugtak, sbr. eftirfarandi:

A special tax that is assessed upon income beyond a specified amount, usually in excess of a deemed „normal“ income.  (Sérstakur skattur sem er lagður á tekjur umfram tiltekna upphæð, venjulega umfram það sem teljast vera “eðlilegar tekjur.”) http://www.investopedia.com/terms/e/excess-profits-tax.asp

3. Forsætisráðherra svaraði þessu:

“Já, umframhagnaður er einmitt mjög gott orð til þess að útskýra það sem ég er að tala um og hef áhyggjur af varðandi umræðuna, hvernig hún snýst oft miklu meira um einhverja frasa eða einhvern tilbúning heldur en raunveruleikann. Ég efast um að margir viti hvað átt er við með þessu orði ‘umframhagnaður‘. Hvernig finnst þér það hljóma? Hljómar það ekki eins og hagnaður sem er umfram eðlilegan hagnað? Jú. En það er ekki merking orðsins. Umframhagnaður sem er alltaf verið að tala um, er semsagt minna heldur en venjulegur hagnaður þegar búið er að borga af skuldum og rekstri og öðru. Umframhagnaður er framlegðin áður en menn greiða hin ýmsu gjöld sem fyrirtækin þurfa að standa skil á. Menn bara kalla þetta umframhagnað af því að það hljómar eins og eitthvað sem að er meira en menn þurfa. Í rauninni er þetta minna en fyrirtækin þurfa bara til að geta staðið í skilum og haldið sér gangandi. Og að búa til svona orð er nýtt til þess að leiða umræðuna. Og hver getur verið á móti því að það sé tekið af umframhagnaði?” (mín. 4:15)

4. Fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja var ógjaldfær eftir hrunið en framtíðartekjuhorfur þeirra voru góðar m.a. vegna hruns krónunnar. Því var tekið til við afskriftir af skuldum þeirra. Stjórnendum bankanna var í mun að skuldsett fyrirtæki væru áfram í rekstri til að hámarka endurheimtur af skuldum þeirra að frádregnum afskriftum.

5. Hlutfall afskrifta einstakra fyrirtækja réði síðan deilingu auðlindarentu sjávarútvegs milli fyrirtækja og banka. Af orðum forsætisráðherra má ráða að stundum hafi afskriftir verið í naumasta lagi til að fyrirtæki gætu staðið í skilum við bankana, annars vegar, og tryggt áframhaldandi rekstrarstöðu sína, hins vegar.

6. Það er rökleysa að naumar afskriftir bankanna hljóti að koma niður á innheimtu veiðigjalds.

7. Það samrýmist ekki leikreglum lýðræðis að úthlutun banka á afskriftum ráði skiptingu auðlindarentu í sjávarútvegi milli banka og fyrirtækja, annars vegar, og eigenda auðlindarinnar, hins vegar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar