Sunnudagur 07.07.2013 - 19:52 - FB ummæli ()

II. Setti seðlabankinn Ísland á hausinn?

I. Já, Seðlabanka Íslands var skylt „að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi”, (4. gr. Seðlabankalaga nr. 36/2001).

Frá þessu sjónarhorni séð er ótvírætt að Seðlabanki Íslands (SÍ) sinnti ekki þessari skyldu sinni og „setti [þarmeð] Ísland á hausinn”.

II. Frásögn Boris Berezovsky – Rússnesk mafia: Fann Ísland, keypti landið? – kann að tengjast hugmyndum sem Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, deildi með enskum blaðamanni 1998, sbr. frásögn hins síðarnefnda:  „Davíð Oddsson ætlar Íslandi stórt hlutverk. Ef [hann] nær sínu fram gæti eldfjallaeyjan í norður-Atlantshafi orðið miðstöð fyrir aflandsbankaviðskipti [m.a.] sem fjárhæli fyrir aðila sem vilja bankaleynd.” (Grein í Financial Times, 7. apríl 1998. Lausleg þýðing mín.)

Í Mbl. frétt um greinina sagðist Davíð einungis hafa nefnt að „kostir þess að setja upp fjármálamiðstöð hér [hafi verið] kannaðir á sínum tíma og blaðamanninum hafi verið sagt frá því”.

Umsögn Davíðs var borin undir blaðamanninn, Tim Burt, sem var ósáttur við hana. Eins kom fram að hann teldi orð Davíðs hafa getað átt við peningaþvætti, þótt hann hefði ekki notað það orð í fréttinni.

III. Stjórnarfrumvarp um alþjóðleg viðskiptafélög var lagt fram á Alþingi í janúar 1999. Í umsögn Samtaka Iðnaðarins, dags. 18. febrúar 1999, segir m.a.: „Alþjóðavæðingin felst í því að þjóðir heims leggja niður vopn sín, tolla og höft, í baráttunni um verðmætasköpunina. Viðurkennt er að markaðsöflin eiga á þessu sviði að ráða óhindrað.”

Í 10. gr. laga nr. 31/1999 var slíkum félögum heimilað „að eiga peningalegar eignir hér á landi til nota í daglegum rekstri og taka lán hér á landi jafnt sem erlendis í eðlilegu samræmi við starfsemi sína.”

IV. Í ritdómi um bók eftir Hannes H. Gissurarson árið 2001 er m.a. að finna eftirfarandi umsögn:

„Næstsíðustu tveimur köflum bókarinnar er varið til þess að skoða annars vegar fordæmi Lúxemborgar og Írlands og hins vegar sjö lítilla eylanda, en öll hafa þau tekið sér fram um að opna fyrir erlent fjármagn og fyrirtæki og stofna til fjárhælis fyrir eigendur hvaðanæva að úr heiminum. Slík fjárhæli hafa verið fjáreigendum til margra hluta nytsamleg: til að firra þá opinberum afskiptum og tryggja hámarks arðsemi, komast hjá skattbyrði heimalands og jafnvel til að koma illa fengnu fé undan armi laganna.”

V. Walt Disney teiknimyndin Lærlingur kuklarans (e. Sorcerer’s Apprentice) byggir á ljóði Goethes um þann háska sem felst í uppvakningu afla sem viðkomandi fær ekki við ráðið þegar á hólminn er komið.

Prófessor William K. Black, fremsti sérfræðingur heims á sviði fjármálasvika, fjallaði um skuggahliðar fjárhæla í viðtali við Egil Helgason í Silfri Egils 10. maí 2009.

VI. Þá var margt hulið sem síðan hefur komið í ljós um fjármálamisferli og svik í aðdraganda hrunsins í október 2008 sem áréttar varnaðarorð Blacks, sbr. eftirfarandi textun RÚV á hluta viðtalsins:

EH: Ert þú viss um að fjársvik hafi átt sér stað á Íslandi?

WB: Já, og í öllum öðrum þróuðum ríkjum eru skýrar reglur um það hverjum má lána og hverjir teljast tengdir aðilar. Við vitum að eignarhaldsfélög eru helsti vettvangur þessa svindls. Þau eru algengasta leiðin og víðast annars staðar, m.a. á Norðurlöndunum, hafa verið settar skýrar reglur eftir efnahagsáföllin á níunda og tíunda áratugum, skýrar reglur um þessi eignarhaldsfélög. Ég held að þið finnið vandamálin í viðskiptum bankanna við eignarhaldsfélögin.

EH: Mörg stór eignarhaldsfélög áttu banka og tryggingarfélög.

WB: Og mér skilst að þið hafið ekki sett nógu skýr takmörk á viðskipti milli tengdra félaga og alls ekki haft nógu gott eftirlit með eignarhaldsfélögum. Ef ekkert eftirlit er með eignarhaldsfélögum verða svikin framin þar sem veikasti hlekkurinn er. Þannig skapast svarthol í eftirlitinu og það nýta menn sér.

EH: Það er mikið rætt um skattaskjól sem auðkýfingar heimsins hafa nýtt sér. Telur þú mikilvægt að opna þau?

WB: Það er fyrir öllu. Það eru ekki aðeins skattar sem menn eru að víkja sér undan heldur víkja þeir sér undan eftirlitslöggjöf og nota skjólin til að fela óþægileg gögn. Glæpir sannast oft fyrir tilstilli skattabókhalds og ef við fáum ekki aðgang að þessum skattgögnum getum við ekki sannað þessi bókhaldssvik. Þetta eru fyrirtæki sem á margan hátt eru afætur á jarðkringlunni. Þau auðgast á því en þetta er subbulegur bransi sem eyðileggur ímynd viðkomandi lands.

EH: Geturðu ímyndað þér að til eru menn sem létu sig dreyma um að breyta Íslandi í svona fjárhagsparadís, breyta því í skattaskjól?

WB: Þeir breyttu Íslandi í risastóran áhættusjóð og skattaskjól er rökrétt framhald. Ísland átti að verða Lúxemborg úti á reginhafi.

EH: Var það illa til fundið?

WB: Það hefði orðið hræðilegt. Þið hefðuð safnað enn meiri auði til að byrja með en skattaskjól geta alltaf af sér geysimikla spillingu. Þið laðið versta hluta mannkynsins að ykkur. Harðstjóra sem arðræna þjóðir sínar, eiturlyfjabaróna, hryðjuverkamenn; nefndu það bara – þá rekur alltaf á land í skattaskjólunum. Það er engin leið að eiga við þess háttar fólk án þess að smitast af óhroðanum.

VII. Nýskráning hluta- og einkahlutafélaga á Íslandi jókst stöðugt úr um 2.400 árið 2003 í 3.674 árið 2007.  Heildarskuldir íslenzkra skúffufyrirtækja námu ríflega eitt þúsund milljörðum króna í árslok 2007.

Í ágúst 2009 var m.a. greint frá því að „fjöldi óvirkra fyrirtækja á Íslandi í dag er 14.912 talsins sem þýðir að 47 prósent skráðra fyrirtækja eru í raun skúffufyrirtæki. […] Þriðjungur skúffufyrirtækjanna virðist hafa þann eina tilgang að vera einhvers konar fjármögnunarfyrirtæki eigenda sinna þar sem skuldsetning er mikil en rekstrarstarfsemi hefur aldrei verið til staðar.”

„Embætti ríkisskattstjóra hefur bent á að fjöldi eignarhaldsfélaga á Íslandi sé ekki eðlilegur. Ekki er loku fyrir það skotið að endurskoða þurfi löggjöf um starfsumhverfi þessara fyrirtækja,” segir í lok fréttarinnar.

Meira síðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar