Þriðjudagur 09.07.2013 - 17:07 - FB ummæli ()

III. Setti seðlabankinn Ísland á hausinn?

Í ársbyrjun 2004 hafði verið búið svo um hnútana með ákvæðum laga og reglugerða og einkavæðingu ríkisbankanna, að það eina sem stóð í vegi fyrir peningaþvætti illa fengins fjár erlendra aðila var löghlýðni yfirmanna viðskiptabankanna og árvekni Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins við framfylgd regluverks ESB.

Einkavæðing Landsbankans og Útvegsbankans lagði grundvöllinn að margvíslegri nýbreytni í íslenzka bankakerfinu. Það varpaði hins vegar skugga á einkavæðingaferilinn að formaður stjórnskipaðrar nefndar um framkvæmd hans, Steingrímur Ari Arason, sagði af sér árið 2002 af ástæðum sem hann vék að síðar:

I. „Við vildum vinna eftir reglum, þannig að það yrði hafið yfir vafa hvað við værum að gera. Smám saman voru reglurnar svo settar til hliðar,“ sagði Steingrímur Ari þegar hann tjáði sig fyrst opinberlega um málið í viðtali á Rás 2 þann 20. apríl 2010.

„Svona eftir á, þá hugsar maður að þarna fær væntanlegur eigandi að fara inn í bankann með óeðlilegum hætti, að mínu mati,“ sagði Steingrímur Ari í viðtalinu og rifjar upp að hafa mótmælt þessu innan nefndarinar.

„Því var bara hafnað. Skilaboðin sem ég fékk voru að það væri bara búið að taka ákvörðun að semja við Samson. Ég fékk enga skýringu á því, nema mönnum bara lá á,“ segir hann.

„Ég fékk það mjög sterklega á tilfinninguna – og það gerði Valgerður líka – að það væru í raun Davíð og Halldór sem réðu ferðinni, þarna sem áður í mörgum málum,“ sagði Steingrímur Ari. Á þessum tíma var starfandi ráðherranefnd um einkavæðingu bankanna, en í henni sátu Davíð Oddson, Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde og Valgerður Sverrisdóttir. Steingrímur Ari segir að Davíð og Halldór hafi einir ráðið ferðinni.

„Ég tel 99,9% líkur á því að þeir hafi verið búnir að ákveða að selja þessum tveimur aðilum bankana,“ sagði Steingrímur Ari.  „Það fór ekkert á milli mála að þeir höfðu ákveðnar skoðanir á þessum aðilum. Þetta var pólitísk ákvörðun hverjir fengu bankana.“

II. Í grein – Kraftaverk á Íslandi – sem Hannes H. Gissurarson skrifaði í Wall Street Journal 29. janúar 2004, vék hann m.a. að breytingum á íslenzkum fjármálamarkaði sem hér segir:

„Með breyttu regluverki hagkerfisins var stefnt að afnámi forréttinda hópa eins og apótekara og, það sem meira er um vert, innleiðingu frjálsra fjármagnsflutninga til og frá landinu…”

„Ísland greip tækifærið og er að verða áhugaverð miðstöð alþjóðlegra viðskiptafélaga og fjármagns,” voru lokaorð greinarinnar.

III. Í erindi sem Davíð Oddsson flutti í American Enterprise Institute í Washington D.C. þann 14. júní 2004 vék hann að þeirri nýskipan efnahagsmála sem var orðin fyrir hans frumkvæði.

„Sá þáttur sem skipti sköpum var hins vegar það hreðjatak sem íslenzka ríkið hafði á öllum viðskiptum í gegnum eignarhald sitt á viðskiptabönkunum. Gjörvallt fjármálakerfið var gegnumsýrt af pólitísku valdi, þannig að vart var hægt að greina á milli þess og pólitíska kerfisins.”

Lokaorð Davíðs Oddssonar, utan lofs um Ronald Reagan, voru eftirfarandi:

„Stjórnmálamenn sem hafa barist fyrir frjálsræði geta horft stoltir um öxl, því alls staðar blasa við augljós dæmi um yfirburði frálsræðis yfir stjórnræði.”

IV. Í fyrri bloggfærslu Rússnesk mafía: Fann Ísland, keypti landið?, var fjallað um sjónvarpsviðtal í Bretlandi við rússneska auðkýfinginn Boris Berezovski í febrúar 2009. Morgunblaðið birti frétt um viðtalið 12. febrúar 2009 undir fyrirsögninni: Segir Rússa hafa keypt Ísland.

„Fram kemur í [viðtalinu] að íslenska utanríkisráðuneytið segir að Berezovski hafi rangt fyrir sér. Regluverk ESB, sem snýr að eftirliti með fjármálastofnunum, eigi við á Íslandi. Ísland sé fullgildur aðili að innri markaði ESB og að allar reglur eigi því við,” segir í lok fréttar Mbl.

Af viðtalinu er ljóst að Berezovski talaði ekki lýtalausa ensku, sbr. e.t.v. þá umsögn hans að Ísland stæði utan regluverks ESB. Athugasemd utanríkisráðuneytisins er efnislega rétt en tekur ekki afstöðu til þess hvort „Rússar hefi keypt Ísland” í þeirri merkingu sem Berezovski lagði í það orðalag.

V. Bandaríkjamaðurinn Dr. Gary K. Busch, sem er fyrrverandi háskólaprófessor í Hawaii m.m. og hefur látið rússnesk málefni til sín taka, heimsótti Ísland í janúar 2009. Dr. Busch skrifaði grein um heimsókn sína þar sem vikið var að rússnesku fjármagni í íslenzka bankakerfinu. Við undirbúning þessa bloggs var haft samband við Dr. Busch og farið fram á nánari upplýsingar um málið.

Dr. Busch brást vel við og gaf eftirfarandi atvikalýsingu í svarbréfi sínu (lausleg þýðing):

„Ég var í heimsókn á Íslandi og rakst á nokkra Íslendinga á hóteli í miðborg Reykjavíkur. Við vorum að ræða ástandið og einn Íslendinganna sagði að hann hefði verið að koma af fundi á Alþingi þar sem Rússar hefðu verið að tala um óskjalfestar öldur reiðufjár sem höfðu yfirgefið Rússland til innlagnar í íslenzka banka.

Ég hafði verið að rannsaka sölu Bravo International á bjórverksmiðju sinni til Heineken og þá slóð peninga sem lá frá Rússlandi til Íslands. Það kom á daginn að það höfðu verið margar millifærslur af reiðufé og innlagnir frá Rússlandi til Íslands sem höfðu styrkt lausafjárstöðu nokkurra íslenzkra banka. Ég rakti nokkur atriði í þessu sambandi í grein minni. Ég leitaði ekki upplýsinga hjá þeim Íslendingum sem þú nefndir. Ég talaði aðallega við Rússa; sérstaklega Rússana sem höfðu áhuga á ásökunum Berezovskys. 

Mín skoðun er sú að íslenzku bankarnir sáu tækifæri til að auka gífurlega grunnfjárstöðu sína með því að taka við rússnesku reiðufé. Þeir gátu síðan notað þetta innstreymi reiðufjár til að gefa út innstæðubréf sem var hægt að umbreyta í eignir hvar sem er í heiminum. Það er ólíklegt að Rússar hafi átt mikið af þessum eignum eða að Rússarnir hafi látið sig miklu varða hvað varð um peninga þeirra. Þeir vissu að reiðufé þeirra var öruggt í banka eða bönkum sem voru skráðir alþjóðlega og var aðgengilegt þegar á þurfti að halda. Þeir höfðu takmarkaðan áhuga á endastöð peninganna og létu íslenzku fjármálasérfræðingana um að skapa eignabólu.

Rússarnir sem ég talaði við þegar ég var þarna höfðu engan áhuga á því hvað íslenzku bankarnir höfðu gert við peningana þeirra. Það eina sem skipti þá máli var að eignir þeirra sem höfðu verið millifærðar til bankanna væru öruggar.

Ég vona að þetta komi að gagni.”

Dr. Busch gaf leyfi sitt fyrir birtingu svarbréfs hans og nafngreiningu.

VI. Eftirfarandi frásögn, sem var deilt með fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins árið 2010, barst mér við undirbúning þessa bloggs:

„Íslensk kona var á ferðalagi í Tyrklandi og fór inn í pelsabúð.  Hún fann kápu sem henni líkaði og tók upp kredit gullkort frá Landsbankanum og spurði pelsasalann hvort hann tæki ekki örugglega svona kort.  Pelsasalinn hélt það nú,  kannaðist nú mjög vel við kortið og sagði;  This is like gold, I have a lot of Russian customers who come here to buy furs in loads of boxes, and they all pay with Landsbankinn gullkort!

Kredikort í “þvottabanka”, til að kaupa dýrar vörur  er einmitt þekkt leið til að lagskipta og flækja upprunann.  Eða hvers vegna ættu Rússar að versla dýrar vörur með íslenskum kreditkortum?”

Meira síðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar