Þriðjudagur 08.04.2014 - 18:44 - FB ummæli ()

Þensluáhrif skuldaleiðréttingar

I. Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, kynnti frumvarp ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu á Alþingi í gær, 7. apríl.  Í kjölfarið skiptust alþingismennirnir Vilhjálmur Bjarnason og Frosti Sigurjónsson á skoðunum um hugsanleg þensluvaldandi áhrif leiðréttinganna.

II. Vilhjálmur taldi leiðréttinguna fela í sér „peningaprentun” sem næmi um 5% af landsframleiðslu og samsvaraði 20% aukningu peningamagns í hagkerfinu yfir fjögur ár.

III. Frosti var á öðru máli og taldi að ekki væri um „peningaprentun” að ræða nema að því marki sem heimili notuðu aukið veðrými sem skapast við leiðréttinguna til að taka ný lán.

IV. Hugtakið „peningaprentun” er teygjanlegt líkindamál. Vilhjálmur virðist hafa notað það sem grófan mælikvarða á beina aukningu kaupmáttar sem skapast við leiðréttinguna/ígildi „peningaprentunar”, en Frosti svaraði með tilvísun til óbeinnar aukningar kaupmáttar við „peningaprentun” vegna lántöku út á aukið veðrými.

V. Miðað við 5% aukningu kaupmáttar yfir fjögur ár að óbreyttu verðlagi er ársaukning kaupmáttar gróflega áætluð um 1,25%.

VI. Í umsögn Seðlabanka Íslands voru áhrif skuldaleiðréttingarinnar á einkaneyzlu talin vera liðlega 1,5% á ársgrundvelli en SÍ áætlar að verðbólguáhrif leiðréttingarinnar verði um 0,4%.

VII. Umsögn Seðlabanka Íslands samrýmist niðurstöðunni í lið V. hér að ofan.

VIII. Í umsögn Analytica voru áhrif leiðréttingarinnar á einkaneyzlu talin vera 0,4% og á verðbólgu 0,1%.

IX. Sú umsögn gæti staðist ef aðeins 1/3 hluta af kaupmáttaraukningunni yrði varið til einkaneyzlu.

X. Í athugasemdum með leiðréttingarfrumvarpinu segir m.a.: „Ljóst er að mikil óvissa er um heildaráhrif aðgerðanna og áhættuþættir eru fjölmargir.”

XI. Mat Seðlabanka Íslands á áhrifum aðgerðanna á aukningu einkaneyzlu – og þar með á eftirspurn eftir innflutningi og þrýsting á gengi krónunnar – verður vart dregið í efa á faglegum forsendum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar