Laugardagur 25.04.2009 - 17:21 - 1 ummæli

Kjördagur

Á kjördag hér vestra er hið besta veður. Veturinn minnir á sig með föl yfir öllu og hleypir sólinni ekki í gegnum skýin til að hita snjófölina í burtu.

Fólk mætir á kjörstað í sínu fínasta pússi. Ég mætti þremur ungum mönnum sem voru áberandi vel til hafðir. Einn þeirra í smóking, með pípuhatt og sveiflaði montpriki. Mjög flottur.

Fyrir utan kjörstað voru Lionsmenn í fjáröflun sinni að selja harðfisk sem þeir verka sjálfir. Eiga til þess hjall úti í Arnardal þar sem þeir verka af mikilli list. Þeir töldu sig nægilega langt frá kjörstað til að trufla ekki. Eitt kosningaárið voru þeir látnir taka niður gulu Lions húfurnar og fánann. Í miðju merkisins er ,,L“ en það árið var einmitt L-listi í framboði. Harðfisksalarnir voru taldir með áróður á kjörstað.

Þó ákveðinn drungi hvíli yfir þessum kjördegi vegna þess hversu aðstæður eru erfiðar í þjóðfélaginu þá er líka hátíðarbragur yfir öllu. Það eru auðvitað forréttindi að búa í lýðræðisþjóðfélagi og það skulum við ávallt muna.

Kosið er í 6 kjördeildum í Ísafjarðarbæ. Þrjár á Ísafirði og Hnífsdal sem eru í íþróttahúsinu á Torfnesi, Ísafirði. Hinar þrjár eru á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.

Samkvæmt skoðanakönnunum og yfirlýsingum Samfylkingar og VG verður vinstri stjórn eftir kosningar. Þó það skýrist auðvitað ekki fyrr en eftir talningu atkvæða og samningaviðræður þá liggur þetta í loftinu og hefur haft áhrif á kosningabaráttuna og afstöðu kjósenda.

Hver sem stjórnin verður þarf henni að ganga vel. Það er mikil vantrú á stjórnmálum og flokkum við þessar aðstæður. Og það er alveg öruggt að stjórnmálamenn munu valda kjósendum vonbrigðum vegna þess að þeir ráða ekki við allt sem er að gerast.

Erfiðleikarnir eru þess eðlis að við þurfum að vinna okkur í gegnum þá skref fyrir skref. Það snarar enginn þeim bagga á klakk fyrir okkur. Við verðum að gera þetta allt saman sjálf.

Veturinn mun að lokum víkja og hleypa sólinni að hér fyrir vestan. Þá kemur vorið af miklum krafti og svo sumar. Því hefur mátt treysta til þessa. Hvenær vorar eftir hrunið mikla veit ég ekki frekar en aðrir. En það kemur að því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Fyrir þá sem enn eiga eftir að ákveða sig.

    Staðreyndir um Íslandi :

    Gjöful fiskimið, tæknivæddur sjávarútvegur.
    Gríðarlegar orkulindir, fallvötn og jarðhiti.
    Einstakt landslag , mikið ferðamanna-aðdráttarafl.
    Flottur landbúnaður.
    Mikil auðlegð í vatnslindum.
    Mikið af öflugum framleiðslufyrirtækjum.
    Hátt hlutfall af vel menntuðu fólki.

    OG

    Þúsundir fjölskyldna og fyrirtækja sem eru gjaldþrota.
    Mikið af vel menntuðu fólki sem er að flýja landið.
    Lélegt heilbrigðiskerfi.
    Fólk sem ekki hefur efni á tannlæknaþjónustu.
    Skuldugasti ríkisjóður í heimi.
    Gjörónýtt stjórnkerfi.

    ÞAÐ ER TIL LAUSN : X-O

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur