Þriðjudagur 19.05.2009 - 16:17 - 4 ummæli

Flutningskostnaður

Jöfnun flutningskostnaðar á Íslandi hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn hingað til þrátt fyrir að þörfin fyrir slíkt sé til staðar.

Flutningskostnaður er það mikill fyrir heimili og fyrirtæki á landsbyggðinni að takast þarf á við það mál. Samkvæmt gjaldskrá kostar t.d. 460.000 kr. að koma 40 feta gám á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar.  Fyrirtæki sem þarf að flytja 150 slíka gáma á ári fær væntanlega afslátt frá gjaldskrá en engu að síður er þetta svo mikill kostnaður að hann skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Þar með er samkeppnisstaða landsbyggðarinnar skert.

Í umræðunni er þetta oft afgreitt með því að húsnæði sé ódýrara úti á landi. Það er oftast rétt en það munar bara ekki svona miklu.

Í Vestfjarðaskýrslu sem unnin var í samstarfi okkar heimamanna og ríkisstjórnarinar árið 2007 eftir töluvert hrun hér í atvinnulífinu, var fjallað um jöfnun flutningskostnaðar. Unnið var áfram með það mál en síðan virðist það hafa dottið niður í einhverja dvalarskúffuna í stjórnarráðinu.

Á Alþingi í gærkvöldi var aðeins komið inn á þetta í eldhúsdagsumræðum og vona ég að haldið verði áfram með málið.

Mér þykir ekki ólíklegt að einhver geri þá athugasemd að þetta sé mál sem ekki eigi að takast á við þegar efnahagslífið er svo slæmt sem raun ber vitni. En jú, það á einmitt að takast á við þetta núna til að þau fyrirtæki sem eru að skapa verðmæti og útflutningstekjur hafi til þess aðstæður að halda því áfram. Það er nefnilega erfitt við núverandi aðstæður og hefur orðið erfiðara með hverju árinu í takt við hækkandi flutningskostnað.

Nú segir kannski einhver að lausnin sé sjóflutningar. Það kann að vera ef þeir eru hagkvæmari en landflutningar. Ágætt væri að draga úr umferð flutningabíla en staðreyndin er sú að þeir veita mjög góða daglega þjónustu sem skipaflutningar eiga erfitt með að keppa við.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (4)

  • Kristján Kristjánsson

    Ef það kosta 460.000 að flytja einn slíkan gám frá R-vík til Ísafj.
    Er þá ekki alt eins líklegt að gjaldskráin sé óeðlileg.
    Eiga opinberir aðilar að koma inn með leiðréttingu af skattfé þegar fyrirtæki okra í fákeppni ?

    Ef flytja á marga slíka gáma er þá ekki kominn grundvöllur fyrir viðkomandi að kaupa bíl og vagn í verkið.
    Það verður að segjast eins og er að gjaldskrá flutningafyrirtækja er nokkuð sem þarf að greina í smáatriðum.

    Félögin hafa haldið því fram að það sé hagkvæmara að flytja allt með bílum og allir kyngja því eins og staðreynd væri.
    Það eru svolítið margar breytur í þessu dæmi.
    Breytur eins og ótímabært viðhald vegakerfisins vegna þungaflutninga.
    Uppbygging og viðhald hafnarmannvirkja.
    Álögur ríkissjóðs.
    Áhrif mismunandi kjarasamninga, Skip / Bílar.
    Álagning fyrirtækja.
    Flutningsjöfnunar styrkir sem kunna að hafa áhrif á eðlilega verðmyndun.
    Magn eðli og umfang.
    Fjöldi lestunarstöðva.
    Afleidd starfsemi sem getur falið í sér hækkun eða lækkun á kostnaði.
    Og sjálfsagt margir aðrir liðir.

    Fróðlegt væri að fela háskólunum það verkefni að kryfja þetta stóra mál.
    Líklega væri best að láta fleiri en einn hóp í málið og bera saman niðurstöður.

    Ég er sammála því að þetta er stór mál.

  • Sæll Halldór.

    Okkar ágæti flokkur samþykkti á síðasta landsfundi klausuna í samgöngustefnu flokksins að hefja skyldi strandflutninga að nýju. Ég bar þó upp tillögu um að svo skyldi ekki verða, þ.e. tillagan dytti út en fundarmenn felldu það. Ég vil meina að það hefði verið fellt á röngum forsendum. Gamall farmaður kom í pontu og vildi endurvekja farmannastéttina þar sem allir farmenn væru skráðir í Færeyjum í dag. Hviss bang búmm, tillagan samþykkt.

    Annars held ég draumur KLM um Ríkisskip sé vonandi ekki að rætast með hinu nýja „eignaumsýslufélagi ríkisins“, ríkið er tæknilega séð eigandi Eimskipa í dag í gegnum Landsbankann.
    Það er mikil afturför að hefja skuli strandflutninga á nýju. Stórfarmar líkt og fullt skip af áburði, salti, olíu og sementi er í lagi að flytja á sjó en kröfur markaðarins eru meiri. Það er hraðinn í flutningum sem fyrirtæki sækjast eftir. AFtur á móti eru flutningafyrirtæki skattpínd með þungaskatti og olíugjaldi. Það er hreinn skattur á landsbyggðina. Með því að afnema þungaskattinn, jú hann var settur í ólíuna 2005 þá væri hægt að lækka þungaskatt.

  • Síðast átti að vera, landsbyggðarskattinn en ekki þungaskattinn!

  • Það verður fróðlegt að heyra svar samgönguráðherra við fyrirspurn sem Birkir Jón hefur lagt fram um hvernig standi á því að 100 millj. kr. sem ætlaðar voru til lækkunar á flutningskostnaði á landsbyggðinni í fjárlögum ársins 2008 voru ekki nýttar til þess?

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur