Laugardagur 10.10.2009 - 20:58 - 1 ummæli

Fáanlegt um allt land – ha?

Fréttablaðið hefur aldrei verið borið í hús í mínu sveitarfélagi Ísafjarðarbæ. Það liggur frammi (stundum) í innkaupakörfu framan við Bónus. Ég sé það tvisvar í mánuði.

Ég heyrði að nú yrði Fréttablaðið fáanlegt um allt land. Mér fannst það ágætis fréttir því þetta er fríblað með auglýsingum sem væntanlega eiga að ná til allra landsmanna. Svo auglýsir blaðið að það sé mest lesna blaðið.

Við nánari skoðun kom í ljós að blaðið verður fáanlegt gegn greiðslu. Það er þá sums staðar fríblað. Ekki í Ísafjarðarbæ né heldur víðast um landið utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég hefði alveg viljað að fréttin hefði verið rétt og blaðið færi að berast til okkar í Ísafjarðarbæ, skrif Þorsteins Pálssonar eru a.m.k. áhugaverð og oft fleira í blaðinu. Þó maður hafi aðgang að þessu á vefnum notar maður blaðið ekki mikið þar.

En Morgunblaðið berst daglega inn um lúguna. Það hefur ekki breyst og verður vonandi áfram um ókomna tíð.

Talandi um Morgunblaðið. Sumir segja að áskrifendum hafi fækkað þar en aðrir að þeim hafi fjölgað. Ég veit af mörgum sem hafa gerst áskrifendur en bara af einum sem hætti áskrift en er mikið að velta fyrir sér að gerast áskrifandi aftur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Eins og bent hefur verið á getur hver sem er skoðað blaðið á netinu alveg eins og það er prentað. Samkvæmt Hagstofu Íslands er 90% heimila með nettengingu svo nánast hver sem er getur lesið Fréttablaðið frítt. Ég er staddur á togara á Hampiðjutorginu og get lesið Fréttablaðið daglega, ekki Morgunblaðið.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur