Fimmtudagur 07.01.2010 - 16:53 - 2 ummæli

Framleiðsla á andstöðu við mál

Núverandi ríkisstjórn tók við á tímum þegar forgangsmál var að takast á við afleiðingar bankahrunsins hér á landi. Henni fylgdu góðar óskir landsmanna og vonir um að vel tækist til.

Samstarf Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. sveitarfélaganna í landinu hefur verið ágætt við þessa ríkisstjórn eins og fyrri ríkisstjórnir. Samráðsfundir hafa verið tíðir og upplýsingagjöf þokkaleg þó oft hafi verið gagnrýnt að upplýsingar kæmu seint fram. Ýmsar áherslur ríkis og sveitarfélaga fara vel saman og mikilvægt er að samstarf um stýringu opinberra fjármála sé sem allra best.

En mér finnst ríkisstjórnin fara í of mörg mál sem vinna gegn þeim markmiðum hennar sjálfrar að auka verðmætasköpun, draga úr atvinnuleysi og bæta stöðu fyrirtækja og heimila.

Dæmi um það er hækkun á virðisaukaskatti í 25,5%, breyting á einföldu og góðu skattkerfi með þrepaskiptingu og óþörfum flækjustigum. Einnig boðun fyrningarleiðar í sjávarútvegi gagnvart fyrirtækjum sem eru þar starfandi. Það hefur aukið verulega á óvissu í þeirri grein með þeim áhrifum að greinin bíður eftir niðurstöðu og framkvæmir bara það nauðsynlegasta. Það hefur aftur áhrif á fyrirtækin sem byggja tilvist sína á þjónustu við sjávarútveginn. Það hefur þau áhrif að störfum fækkar að óþörfu.

Svo er skipuð nefnd um mögulegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu en hann er varla byrjaður á vinnu sinni þegar hamrað er á því að fyrning aflaheimilda hefjist 1. september 2010.

Með þessu er ríkisstjórnin að framleiða mál til að skapa andstöðu. Þannig fara kraftar til spillis þegar við þurfum á eins samstilltu átaki að halda og mögulegt er meðal þjóðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

  • lydurarnason

    Sammála þínum síðustu orðum að eintómir viðhlæjendur er vont fylgineyti. En æi hvert skiptir þegar sjálfstæðismaður í forystusveit opnar munninn glittir í silfur og orðræðan virðist keypt. Er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að endurgreiða hina óhóflegu styrki viðskiptalífsins?

  • Pólitískt viðrini

    Ég er hjartanlega sammála, í vetur sem leið hefði auðvitað átt að mynda þjóðstjórn, sleppa því að kjósa, fá utanaðkomandi óháðan aðila sem forsætisráðherra. Síðan hefðum við átt að ráða alvöru fólk til að semja við hrægammana í Hollandi og Bretlandi. Held að útkoman hefði orðið önnur. Þegar ég segi óháðan er ég ekki að meina sjálfstæðismann, ekki heldur krata eða framsóknarmann, því síður VG.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur