Sunnudagur 10.01.2010 - 19:13 - 12 ummæli

Betra að það sé sagt á útlensku

Fólk keppist við að hrósa sjónvarpsþættinum Silfri Egils vegna þess sem þar kom fram frá erlendum viðmælendum Egils Helgasonar. Mér finnst ástæða til að taka undir að þátturinn var upplýsandi.

Hins vegar eru viðbrögð þjóðarinnar í samræmi við umræðuhefðina hér á landi. Það sem kom fram í dag hefur komið fram áður og það margoft í leiðurum Morgunblaðsins í fleiri vikur. Og a.m.k. hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið því fram í umræðum á þingi að lagaumhverfi ESB varðandi innistæðutryggingar reikni ekki með bankahruni og þar af leiðandi þurfi að fara með þessi mál fyrir dóm.

En nú kemur þessi skoðun að utan, hún er sögð á útlensku og þá sperrum við eyrun. Það er fínt og verður vonandi til þess að hægt verði að bæta stöðu okkar í Icesave málinu en í samræmi við það að upphefðin þarf yfirleitt að koma að utan.

Svo er að sjá hvort ríkisstjórnin getur náð nýjum samningum eða hvort þjóðin hafnar þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu og málið fer í biðstöðu. Umræðan núna hefur vonandi þau áhrif að alþjóðlegar stofnanir á borð við AGS aðstoði okkur við að vinna okkur út úr vandanum frekar en að taka þátt í að rukka þjóðina.

Skrýtin staða að vera sammála niðurstöðu forseta Íslands um að vísa þessu máli til þjóðarinnar en vera á móti því að sá réttur sé hjá forsetanum. Það verður að endurskoða stjórnarskrána hvað þetta varðar og færa þennan rétt til þjóðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (12)

  • En er hægt að halda fram þessari túlkun á lögunum eftir að ríkið greip fram fyrir hendur TIF. Skapaði ríkið ekki fordæmi fyrir ríkisábyrgð með því að ábyrgjast öll innlán íslendinga. Ekki bara að lágmarki, heldur að fullu!

    Staða ríkisins væri mun sterkari ef allir, íslendingar sem útlendingar stæðu uppi með verðlausar kröfur á TIF.

  • Guðmundur

    Þetta er algjört bull úr Birni Val Gíslasyni – ríksstjórn Íslands ábyrgðist ekki innistæður fyrr en þegar Geir Haarde lýsti því eftir eftir setningu neyðarlaga að innistæður á Íslandi væru tryggðar.

    Og ESA, eftirlitsstofnun EFTA fjallaði fyrir jólin um neyðarlögin og tala ekkert annað hafa komið til greina fyrir Ísland en setningu þeirra. Það var mikill sigur sem of lítið hefur verið gert úr.

  • @Guðmundur

    En þeir tóku sérstaklega fram að ekki væri tekin afstaða til hugsanlegrar mismununar.

  • Björgvin Þór

    Nei, það er ekki útlenskan sem slík heldur trúverðugleiki þeirra sem tala. Fólk bara treystir M. Hudson og Evu Joly. Trúverðugleiki Morgunblaðsins er eitthvað minni.

  • Er hægt að áfellast þann sem ekki tekur FLokkinn trúanlegan?

  • Á hvaða tungumáli boðskapurinn er boðaður er ekki málið, heldur hve trúverðugur sá er sem hann flytur. AfneitunarFLokkurinn er einfaldlega ekki trúverðugur.

  • Sem betur fer sjá margir gegnum þessa smjörklípu þína Halldór. Það er einmitt trúverðugleiki þess sem málið flytur sem skiptir máli. DO og Sjálfstæðisflokkurinn hafa bara ekki svo mikinn trúverðugleika og þal lítil áhrif á umræðuna í reynd.

  • Þetta snýst ekkert um trúverðuleika Sjálfstæðisflokksins, Moggans eða einu sinni Davíðs. Þetta snýst um blint hatur vinstrimanna á Sjálfstæðisflokknum og öllu sem er hægt að tengja (sama hversu óljósar tengingar það eru) við hann. Þetta vinstralið var tilbúið að selja þjóðina í þrældóm frekar en að sætta sig við að sjallarnir gæti haft rétt fyrir sér í einhverju máli.

  • siguróli kristjánsson

    halldór, ertu ekki að gleyma þætti Sigmundar Davíðs?
    og indefence?

  • Andrés Böðvarsson

    Helgi, það er bara svo erfitt að vita hvaða skoðun forysta Sjálfstæðisflokksins hefur hverju sinni og hvort hún byggist á þjóðarhagsmunum, sérhagsmunum eða flokkshagsmunum. Flokkurinn hefur bæði verið með og á móti dómstólaleið, með og á móti samingum, með og á móti þjóðaratkvæðagreiðslu. Er furða að menn séu ringlaðir?

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Haukur. Er ástæða fyrir EFTA að taka sérstaka afstöðu um einstök mál og gefa yfirlýsingar þegar þeir vilja meina að heildaraðgerðin sjálf hafi staðist lög?

    Að aðgerðin standist lög, væntanlega nær það yfir öll vafaatriði sem hefðu getað verið þess valdandi að hún væri ólögleg.

    Ekki fullyrðing, heldur hugleiðing.

  • Halldóra

    „En nú kemur þessi skoðun að utan, hún er sögð á útlensku og þá sperrum við eyrun.“ Nei – en trúverðugleiki Moggans er með öllu horfinn.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur