Miðvikudagur 27.01.2010 - 20:57 - 6 ummæli

Efling sveitarstjórnarstigsins

Því miður falla flest mál í skuggann af Icesave og skyldum málum. Það er samt verið að vinna í fjöldamörgum málum þó þau fái eðlilega ekki sömu athygli og vandræðamálin sem við erum að fást við hér á landi.

Það sem kemur hér á eftir er úr ræðu sem ég flutti á Ísafirði á fundi um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Um það eru skiptar skoðanir. Mín skoðun er sú að við eigum að efla sveitarstjórnarstigið verulega og flytja þangað fleiri verkefni. Sumir telja að við eigum að hafa hlutina eins og þeir eru í dag.Hvað sem verður þá hef ég ávallt tekið fram að ég vil að íbúarnir eigi síðasta orðið í atkvæðagreiðslu. Við erum að tala um að auka völd kjósenda og vera oftar með atkvæðagreiðslu um umdeild mál. Því ættum við þá að lögþvinga sameiningar?

En þetta sagði ég á fundinum um eflingu sveitarstjórnarstigsins:

Það eru tímamót þegar ríkisvaldið og sveitarfélögin í landinu taka höndum saman og efna til átaks til að efla sveitarstjórnarstigið.

Skoðanir um eflingu sveitarstjórnarstigsins eru misjafnar. Sumir sem tjá sig um þau mál telja að ekki eigi að gera breytingar, sveitarstjórnarstigið eigi að vera eins og það er, ekki eigi að flytja fleiri verkefni til sveitarfélaga o.s.frv. Flestir telja þó að framþróun verði að eiga sér stað á sveitarstjórnarstiginu sem annars staðar. Mikilvægur þáttur í því að færa verkefni til sveitarstjórnarstigsins er nærþjónustuþátturinn, meiri áhrif til sveitarfélaganna og þar með út á land og minni miðstýring.

Það verður ávallt að nálgast átaksverkefni sem þessi með opnum huga og með bjartsýni en því má halda fram með góðum rökum að þörfin fyrir að efla sveitarstjórnarstigið hafi sjaldan verið meiri en nú.

Í undirbúningi er að færa viðamikla málaflokka frá ríki til sveitarfélaga og þegar slíkt er í bígerð þarf að tryggja að sveitarstjórnarstigið verði sem best í stakk búið til að taka við málaflokkunum. Sóknaráætlun fyrir landshlutana er einnig í mótun og ef við ætlum að efla alla hluta landsins með markvissum hætti verður að hyggja að stöðu sveitarfélaganna sem hljóta að verða grunneiningar þegar kemur að því að samþætta opinbera starfsemi og byggja upp öfluga svæðasamvinnu.

Nú sem fyrr er flestum ljóst að einn mikilvægasti þátturinn í eflingu sveitarstjórnarstigsins felst í sameiningu sveitarfélaga. Stundum vill það gleymast að samtök sveitarstjórnarmanna hafa lengi stutt þá stefnu að efla sveitarstjórnarstigið með sameiningu sveitarfélaga. Þegar á árinu 1950 samþykkti landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga áskorun til ríkisstjórnarinnar um að fram færi rannsókn á því hvort ekki væri tímabært að stækka sveitarfélög landsins með því að sameina þau. Þegar þetta var samþykkt voru sveitarfélögin í landinu 229 talsins.

Árið 1966 samþykkti Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi tillögu sem fól í sér stuðning við sameiningu sveitarfélaga á stofnfundi sambandsins það ár.

Eftir þetta hefur Samband íslenskra sveitarfélaga, og landshlutasamtök sveitarfélaga margítrekað þessa afstöðu en líklega hefur aldrei jafnróttæk ályktun um þetta efni verið samþykkt og ályktunin um það að kannaður verði sá kostur að allir Vestfirðir og allir Austfirðir verði eitt sveitarfélag. Slíkar ályktanir voru samþykktar á aðalfundum beggja landshlutasamtaka sl. haust.

Hugmyndir um eflingu sveitarstjórnarstigsins ná miklu lengra aftur í tímann en til ársins 1966 því um 1945 voru settar fram hugmyndir um þriðja stjórnsýslustigið, eins konar fylki á Íslandi. Þetta var rætt fram og til baka í fjöldamörg ár en ekki varð til þriðja stjórnsýslustigið. Reyndar má segja að sýslurnar hafi á sínum tíma verið vísbending í átt að slíku stjórnsýslustigi.

Sveitarstjórnarmenn komust að þeirri niðurstöðu að besta leiðin væri að sameina frekar sveitarfélög en byggja upp þriðja stjórnsýslustigið. Sú sameining hefur tekið tíma, sveitarfélögum hefur fækkað en sveitarstjórnarstigið sem slíkt hefur ekki breyst eins mikið og vænta mætti þegar litið er á þessa miklu fækkun. Ástæðan er sú að ennþá eru mjög lítil sveitarfélög sem eiga skiljanlega erfitt með að taka við stórum verkefnum.

Af þeim ástæðum samþykkti landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2006 að fara í viðamikla verkefnaflutninga og að sveitarfélögin yrðu að leysa það sjálf hvernig þau tækju við verkefnum. Þau gætu unnið saman eða sameinast. Ekki yrði beðið lengur eftir frekari sameiningum.

Síðasta sameiginlega átak ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga til eflingar sveitarstjórnarstigsins fór fram á árunum 2003-2005. Átakið endaði með viðamiklum sameiningarkosningum sem fram fóru í október 2005. Alls var kosið um sameiningu í 62 sveitarfélögum víðs vegar um landið en úrslitin ollu vonbrigðum; sameining var einungis samþykkt á einu svæði en felld alls staðar annars staðar. Sameining var semsagt einungis samþykkt í Fjarðabyggð en þetta átak hrinti af stað sameiningarviðræðum á nokkrum stöðum sem síðar leiddu til sameiningar sveitarfélaga.

Nú eru sveitarfélögin í landinu 77 að tölu og enn eru í þeim hópi mörg fámenn og veik sveitarfélög sem gera það að verkum að erfitt getur reynst að efla sveitarstjórnarstigið með því að flytja til þess verkefni frá ríkinu.

En hvers vegna ber að efla sveitarstjórnarstigið með sameiningu sveitarfélaga?

Nefnum nokkur rök sem mæla með því með ótvíræðum hætti:

–        Æskilegt er að hvert sveitarfélag geti staðið faglega að stjórnsýslu, félagsþjónustu og fleiri þáttum sem mynda grunn þjónustu í sveitarfélaginu

–        Ákvarðanataka er nær íbúunum í sveitarfélögunum en hjá ríkinu þannig að efling sveitarfélaga býður upp á möguleika til að auka lýðræði

–        Öflugri sveitarfélög eiga meiri möguleika á að nýta sér nútímatækni í þjónustu við íbúana auk þess sem þau eiga auðveldara með að fylgjast með alþjóðavæðingu og taka þátt í henni

–        Öflug sveitarfélög eiga almennt meiri möguleika á að takast á við stór og áhrifarík verkefni sem geta komið upp auk þess sem þau eiga oft kost á betri viðskiptakjörum en smærri sveitarfélög.

Látum þetta duga sem upptalningu á rökum en mörg fleiri má nefna.

Aðkoma Sambands íslenskra sveitarfélaga að átaki í sameiningu hefur ávallt verið á þeim forsendum að sveitarstjórnarmenn sjálfir hafa mótað þá stefnu á landsþingum sambandsins að sameina skuli sveitarfélög. Jafnframt hefur alltaf verið sú stefna að sameining sveitarfélaga skuli vera borin undir íbúa sveitarfélaganna í kosningum. Þeirri stefnu hefur ekki verið breytt af hálfu sambandsins.

Á þeim forsendum er aðkoma sambandsins að því samstarfsverkefni sem hér er kynnt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (6)

  • Skítlegt eðli

    SjálfgræðgisFLokkinn á að banna.

  • Hvernig væri nú að stokka upp kerfið?
    Nærri útilokað er fyrir einstaklinga og samtök utan hefðbundinna stjórnmálasamtaka að komast til áhrifa í sveitarstjórnum og ríkir því fákeppni í sveitarstjórnarmálum og fáveldi í stjórnunarháttum sveitarstjórna (oligarkí, einhvers staðar á milli einræðis og lýðræðis).

    http://www.svipan.is/?p=1425

  • Ásgeir Gunnarsson

    þinglýsa kosningarloforðum/stefnuskrá reglur á þingmenn og aðra þjóna . eins og amviskan bíður kjaftæði er það ekki of reint og úrelt aðhald ? það var uppúr 1700 sem sá fyrsti í Efrópu ígildi þingmans/ráðhrra sagði af sér til að reina að sleppa við aftöku á Bretlandi

  • Ásgeir Gunnarsson

    matfisk Islendinga utan kvota auðvita

  • lydur arnason

    Sæl, Halldór. Mat þitt er rétt, firningarleiðin var ekki meginmál kosninganna. Henni verður líka snúið við þegar næsta ríkisstjórn sjálfstæðisflokks sér dagsins ljós.

  • Það væri gaman að sjá þig bera þessar hugmyndir undir vefsamfélagið á http://skuggathing.is – Margar góðar hugmyndir þar í gangi en tiltölulega lítið talað um sveitarstjórnarstigið.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur