Fimmtudagur 10.01.2013 - 13:21 - Rita ummæli

Ógn af gróðureldum

Þó oft sé erfitt að vekja athygli á því sem ber að varast og undirbúa sig undir með fyrirvara þá ber okkur skylda til þess.

Mörg munum við áreiðanlega eftir sinueldunum á Mýrum í Borgarfirði árið 2006. Þá brunnu um 70 ferkílómetrar lands. Eldarnir og reykurinn svo miklir að gervihnattamyndir birtust af hamförunum.

Við vorum minnt á þetta sumarið 2012 þegar eldur kviknaði í gróðri í Laugardal við Ísafjarðardjúp og reyndist erfitt að slökkva vegna óhagstæðs veðurs og ónógs tækjabúnaðar.

Þeir sem best þekkja til segja að það sé bara spurning um hvenær, en ekki hvort, gróðureldar á Íslandi leggi undir sig húsaþyrpingar á borð við sumarbústaðabyggðir og aðra mannabústaði. Þá er um leið hætta á manntjóni.

Við erum ekki nógu vel undirbúin undir slíkar hamfarir. Þetta ætlum við að ræða á málþingi um gróðurelda sem stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur ákveðið að halda í Borgarnesi 17. janúar nk. í samstarfi við fjölda fagaðila og stofnana sem eiga aðkomu að þessum málum. Málþingið hefst kl. 10:00 og stendur til kl. 16:00

Þar er ætlunin að ræða og miðla upplýsingum um leiðir til að auka viðbúnaðargetu slökkviliða með samstarfi sveitarfélaga og stofnana og skilgreina ábyrgð sveitarfélaga og annarra stjórnvalda.

Fjallað verður um reynsluna af baráttu við gróðurelda, lagt mat á möguleika slökkviliða til að ráða niðurlögum þeirra og rætt um hvaða úrbóta er þörf hvað varðar mönnun slökkviliða, búnað þeirra og fjárhagslega áhættu sveitarfélaga af völdum gróðurelda.

Einnig verður fjallað um aðgerðir til forvarna og áhrif gróðurelda á náttúruna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur