Mánudagur 21.04.2014 - 19:14 - Rita ummæli

Málefni XD

Málefnaskrá okkar Sjálfstæðisfólks í Reykjavík er metnaðarfull enda viljum við leggja okkar af mörkum við að bæta aðstöðu borgarbúa. Hér á eftir fer ég í stuttu máli yfir nokkur helstu stefnumál okkar í borginni. Meira efni og kynningamyndbönd eru á vefsíðu framboðs okkar Sjálfstæðisfólks. Það er kominn tími til breytinga í borginni þar sem vinstri flokkarnir hafa verið í meirihluta síðan árið 1994 fyrir utan síðasta kjörtímabil en þar voru vinstri flokkarnir líka hluta kjörtímabilsins.

Þjónustutrygging
Við viljum að foreldrar hafi frelsi til að velja það sem börnunum er fyrir bestu hvort sem það er dagforeldri, ungbarnaleikskóli eða t.d. nærfjölskylda. Í þeim tilgangi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að koma á þjónustutryggingu til að dekka tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst á leikskóla. Með þessari aðferð er hægt að bæta stöðu fjölskyldna sem eru á biðlista strax. Minni bið, meiri þjónusta.

Fé fylgi þörf fyrir þjónustu
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að bæta þjónustu við eldri borgara. Aldraðir eiga að geta valið um hvar þeir sækja þjónustu, þegar fé er látið fylgja þörf geta einstaklingar haft meira um það að sjálfir. Bæta þarf heimaþjónustu með því að bjóða hana út og sníða hana betur að þörfum hvers og eins. Sama gildir um heimsendan mat. Með því að samnýta þjónustu veitta af borginni og einkaaðilum eykst sveigjanleiki og þjónusta batnar.

Lækkum skatta
Reykjavík er langstærsta sveitarfélag landsins sem á að njóta hagkvæmni stærðarinnar í rekstri. Betri rekstur skapar svigrúm til lækkunar skatta sem skilar sér í auknu ráðstöfunarfé fjölskyldna. Við ætlum að lækka skatta á borgarbúa enda skilar það sér til allra og er mesta kjarabótin fyrir fjölskyldurnar.

Skólamál – nemandinn í fyrsta sæti
Nýja hugsun þarf í skólamálum til að styðja betur við nemendur og kennara grunnskólans. Ungt fólk í Reykjavík á að hafa tækifæri til að skara fram úr og öðlast þá hæfni og getu sem þarf í nútímasamfélagi. Við eigum ekki að sætta okkur við að allt of hátt hlutfall barna geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að stuðla að því að fjölga valkostum í menntun reykvískra barna. Við viljum efla samkeppni og fjölbreytni með sjálfstæðari skólum og fleiri sjálfstætt starfandi skólum.
• Fjárframlag fylgi nemenda til að tryggja að foreldrar geti valið skóla fyrir börnin sín.
• Við viljum stuðla að auknu sjálfstæði grunnskólana og draga úr miðstýringu.
• Við viljum endurmeta skóla án aðgreiningar og fjölga valkostum fyrir foreldra og börn þeirra í samræmi við óskir foreldra.
• Tryggja að skólarnir hafi samræmd og mælanleg markmið svo hægt sé að fylgjast með árangri þeirra.

Húsnæðismál
Úthlutun á lóðum í Reykjavík hefur á undanförnum árum ekki dugað til að svara eftirspurn. Þessu vill Sjálfstæðisflokkurinn breyta strax með því að bjóða hagstæðari lóða- og gatnagerðargjöld en gert er í dag. Sjálfstæðisflokkurinn vill gefa fólki val um hvort það kaupir eða leigir. Reykjavíkurborg á að tryggja að grundvöllur skapist fyrir öflugan leigumarkað og að einkaaðilar sjái hag sinn í því að byggja upp góðan og traustan leigumarkað í borginni.

Reykjavíkurflugvöllur
Flugvöllurinn er í Vatnsmýri og verður þar um fyrirsjáanlega framtíð. Nefnd um staðarval er að störfum og mun skila af sér á þessu ári. Sjálfstæðisflokkurinn stendur fastur á því að innanlandsflug fari ekki til Keflavíkur. Virkja ber íbúalýðræðið miklu meira í stórum málum og mun Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík berjast fyrir því að borgarbúar komi að endanlegri ákvarðanatöku um flugvöllinn í íbúakosningum. Fulltrúar okkar í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar greiddu atkvæði gegn nýju deiliskipulagi flugvallarins vegna þess að við teljum að ekki eigi að hreyfa við flugvellinum og starfsemi sem honum tengist fyrr en ný staðsetning sem sátt er um liggur fyrir. Höfuðborgin sinnir mestallri miðlægri þjónustu við landsbyggðina og þarf því að vera vel tengd henni með allar samgöngur. Innanlandsflugið er því gríðarlega mikilvægt og mun ekki fara til Keflavíkur höfum við Sjálfstæðisfólk eitthvað um það mál að segja.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur