Þriðjudagur 27.05.2014 - 11:43 - Rita ummæli

Góð stefnumál Sjálfstæðisflokksins

Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík höfum á undanförnum vikum kynnt fyrir borgarbúum okkar stefnumál. Þar er einkunnarorðið valfrelsi, ábyrgð í rekstri og minni álögur á borgarbúa. Við leggjum áherslu á útboð verkefna og aukið samstarf við sjálfstætt starfandi aðila í þjónustu við borgarbúa. Þannig náum við fram betri þjónustu fyrir minna fé.

Í húsnæðismálum boðum við aðgerðir sem byggja á því að auka lóðaframboð og breyta gjaldskrám fyrir gatnagerðargjöld til að markaðurinn taki við sér og lögmálið um framboð og eftirspurn virki. Meirihluti vinstri manna hefur verið meira og minna við völd frá árinu 1994 og hefur ástundað lóðaskortsstefnu. Það þýðir hækkað verð á markaði umfram það sem eðlilegt getur talist. Lausnir okkar í Sjálfstæðisflokknum ganga út á að virkja heilbrigðan markað.

Í okkar stefnu snýr valfrelsið að þjónustu við barnafjölskyldur þar sem fé fylgir þörf þannig að bilið frá fæðingarorlofi að leikskóla er brúað. Þá nýtast greiðslur til foreldra til að lækka kostnað hjá dagforeldrum eða til að skiptast á að vera heima til að geta verið úti á vinnumarkaði.

Í málefnum aldraðra erum við líka að tala um að fé fylgi þörf þannig að aldraðir geti valið um form þjónustunnar og hvaðan hún kemur. Við munum beita okkur fyrir því að fjármagn fáist frá ríkinu til byggingar hjúkrunarheimilis og við ætlum að bæta heimaþjónustuna og tómstundastarfið.

Valfrelsið snýr líka að skipulags- og umferðarmálum. Við leggjum áherslu á að fólk hafi raunverulegt val um samgöngumáta. Sama hvort um er að ræða bílinn, strætó eða hjólreiðar. Í öllu þessu viljum við hafa val og fögnum fjölbreytni í þessum málum.

Hér er vefsíðan okkar. Þar er fjöldi myndbanda, stefnuskráin í heild sinni sem og brotin niður á málaflokka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur