Fimmtudagur 25.11.2010 - 07:30 - Rita ummæli

Eflum landsbyggðina!

Landsbyggðin á Íslandi verður að dafna og blómstra ef við ætlum að halda stöðu okkar sem öflug þjóð í einu landi. Það hefur hallað á landsbyggðina á meðan borgríkið Reykjavík hefur þanist út og lengst af eflst til mikilla muna. Það verður að vera heilbrigt jafnvægi milli landsbyggðarinnar og borgríkisins á suðvesturhorninu.

Það hefur hallað á landsbyggðina á undanförnum áratugum á flestum sviðum nema í atkvæðavægi til Alþingiskosninga. Ástæðan er margþætt.

Mikilvægur þáttur er sú miðstýring ríkisvaldsins og embættismannakerfisins í Reykjavík sem tók í raun yfir Kaupmannahafnarvaldið 1904 og kom því aldrei áfram til þjóðarinnar.

Einnig sú staðreynd að lunginn úr skatttekjum landsbyggðarinnar renna til Ríkissjóðs í Reykjavík þar sem aðeins hluti þeirra er aftur dreift til fólksins í landinu og það á forsendum Reykjavíkurvaldsins. Þá hefur engu skipt hvort fjármálaráðherrar hafi komið úr Þingholtunum eða Þistilfirði eða heilbrigðisráðherrar af Seltjarnarnesi eða af Skaganum.

Það þarf því færa völd, verkefni og skatttekjur á lýðræðislegan hátt heim í héruðin og nær fólkinu. Líka nær fólkinu í borgríkinu á suðvesturhorninu. Borgríkið á höfuðborgarsvæðinu er nefnilega hérað í sjálfu sér.

Því eigum við að leggja niður núverandi sveitarfélög og setja þess í stað á fót nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi 6 – 8 öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsþinga og héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga hver í sínu héraði.

Ekki gleyma að höfuðborgarsvæðið yrði hérað með sitt héraðsþing og með aukið vægi gagnvart ríkisvaldinu og Alþingi.

Hinar nýju lýðræðislegu héraðsstjórnir eiga að sjái um stærsta hluta skattheimtunnar, ráðstafi henni til verkefna heima fyrir á grundvelli ákvarðanna héraðsþinga, en greiði eins konar útsvar til ríkisins til reksturs þess.

Til að tryggja virkt lýðræði og aðhald bæði í kosningum til héraðsþinga og til Alþingis verður að festa ákvæði um persónukjör í stjórnarskrá. Það þarf einnig að tryggja jafnt vægi atkvæða hvort sem um kosningar til héraðsþinga eða Alþingis er að ræða.

Reynslan sýnir að ójafnt vægi atkvæða hefur ekki verið landsbyggðinni til framdráttar. Því er engin ástæða fyrir landsbyggðina að vinna gegn því að Ísland verði eitt kjördæmi vegna Alþingiskosninga. Það þarf bara jafnframt að tryggja að persónukjör verði viðhaft í slíkum kosningum. Slíkt tryggir eðlilega dreifingu þingmanna yfir landið.

Hallur Magnússon minnir á stjórnlagaþingsnúmerið #9541.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur