Laugardagur 27.11.2010 - 13:16 - 3 ummæli

Ég legg hugsjónir mínar í þjóðardóm

Ég er stoltur af því að vera einn hinna rúmlega 500 Íslendinga sem voru reiðubúnir að leggja sig, stefnumál sín og framtíðarsýn í dóm þjóðarinnar með því að bjóða sig fram til stjórnlagaþings.

Ég er ánægður yfir því hve fjölbreyttur hópurinn er og sérstaklega hve stór hluti frambjóðendanna eru venjulegt fólk víðs vegar úr samfélaginu og af öllum stéttum.

Það er nefnilega meira en að segja það að leggja sig, hugðarefni sín og vonir í dóm þjóðarinnar. Því það að vilja taka þátt í sköpun nýrrar stjórnarskrár er að leggja vonir sínar um framtíð Íslands og Íslendinga sem þjóðar í dóm þjóðarinnar.

Ég gleðst yfir því hve kosningabaráttan hefur verið hófsöm, jákvæð og uppbyggjandi. Þvert á kosningahefð þjóðarinnar þar sem átök, neikvæðni og niðurrif hefur verið fyrirferðarmeiri en jákvæðni og uppbyggjandi umræða.

Mér líður vel í því frelsi sem felst í því að bjóða mig fram alfarið á mínum eigin forsendum, með mínar skoðanir og stefnumál ómenguð. Sú upplifun treystir enn þá trú mína að viðhafa skuli persónukjör í kosningum á Íslandi.

Þótt ég berjist af alefli fyrir mínum hugsjónum og vil veg þeirra sem mestan þá finnst mér mikilvægt að á stjórnlagaþing verði kjörnir fulltrúar mismunandi sjónarmiða og mismunandi hugsjóna. Því stjórnlagaþing á að vera stjórnlagaþing þjóðarinnar en ekki stjórnlagaþing einstakra hugmynda og hópa.

Stjórnlagaþing þjóðarinnar verður stjórnlagaþing þjóðarinnar með því að fulltrúar með mismundandi bakgrunn og mismunandi hugmyndir takist á í uppbyggilegum umræðum og komi sér saman um meginreglur stjórnskipunar Íslands í tillögu til nýrrar, sterkrar stjórnarskrár. Traustri stjórnarskrá sem þjóðin geti í þjóðaratkvæðagreiðslu sammælst um að geti orðið leiðarljós þjóðarinnar á 21. öldinni.

Ég legg mínar hugsjónir, mínar áherslur og mína krafta í dóm þjóðarinnar undir auðkenninu #9541 í kosningum til stjórnlagaþings þjóðarinnar.

Kveðja

Hallur Magnússon

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Þetta eru allt mjög göfug og jákvæð ummæli Hallur. Staðreyndin er hins vegar sú, að fólk hefur engan áhuga á þessum kosningum. Líklega verður þátttakan ekki mikið yfir 50%, sem þýðir að alþingi er ekki á nokkurn hátt bundið að fara eftir einu eða neinu sem þessi hálfs milljarðs uppákoma hefur kostað fólkið í landinu þegar upp verður staðið.

  • Hallur Magnússon

    Ef svo er – þá er það synd!

  • Hafði rangt fyrir mér, líklega verður þátttakan rétt yfir 30%. Það þýðir í raun að þessir málfundir, kosning og stjórnlagaþing er dæmt til þess að hafa ekkert vægi. Sá sem er kosinn inn á þetta stjórnlagaþing með ca. 250 – 350 atkvæði (ef atkvæði fara að dreifast mikið á frambjóðendur) hefur varla mikið umboð til að breyta stjórnarskránni? Alþingi er ekki á nokkurn hátt bundið að fara eftir niðurstöðum Alþingis.

    Miðað við allan þann áróður sem nokkrir stærstu fjölmiðlar landsins beittu við að fá fólk á kjörstað, þá er það með ólíkindum hversu fáir mæta og kjósa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur