Þriðjudagur 30.11.2010 - 19:04 - 1 ummæli

Óþarfa 33 milljarðar til ÍLS?

Það er algjör óþarfi hjá ríkinu að leggja Íbúðalánasjóði til 33 milljarða á fjáraukalögum til að hífa eiginfjárhlutfall sjóðsins yfir 5 í CAD. Sérstaklega þegar ríkið er í blóðugum niðurskurði og nánast að leggja heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni í rúst. Væri nær að veita þessum peningum í þarfari verkefni.
 
Auðvitað er sjóðurinn miklu betur settur með þess 33 milljarða í eigið fé til viðbótar þeim 8,4 milljörðum sem sjóðurinn hafði í eigið fé 30. júní síðastliðinn. Þessir 33 milljarðar eru reyndar rúmum 10 milljörðum hærri fjárhæð í eigin fé en eigið fé sjóðsins var hæst fyrir hrun.
 
Mér sýnist þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar vera pólitískur hráskinnaleikur til að láta svo líta út að Íbúðalánasjóður hafi ekki staðið af sér efnahagshrunið einn stóru fjármálastofnanna á Íslandi, en eins og alþjóð veit fóru allir stóru bankarnir á hausinn og Seðlabankinn varð tæknilega gjaldþrota.
Íbúðalánasjóður er hins vegar ekki tæknilega gjaldþrota þótt því hafi verið haldið fram á opinverum vettvangi – væntanlega líka í pólitískum tilgangi.
 
Reyndar er talan 33 milljarðar svolítið skemmtileg í sögulegu samhengi því tæknilegt gjaldþrot og neikvætt eigið fé Byggingarsjóðs var að núvirði kring um 33 milljarðar í ársbyrjun 1999 þegar Íbúðalánasjóður var settur á fót. En Íbúðalánasjóður þurfti 1. janúar 1999 að taka það 33 milljarða tap á sig án aðkomu skattgreiðenda.
Reyndar var eigið fé sjóðsins um mitt árið 2010 var 8,4 milljarðar eða 1,5 milljörðum hærra en við stofnun Íbúðalánasjóðs.

 

Þótt reglugerð um fjárstýringu Íbúðalánasjóðs geri ráð fyrir að langtímamarkmið sjóðsins sé að eiginfjárhlutfall sé 5 CAD, þá er engin sérstök fjárhagsleg ástæða til þess að halda því marki. Reglugerðin kveður á um að CAD hlutfall sé tvisvar sinnum hærra en sérfræðingar Deutsche Bank töldu að þyrfti þegar breytingar voru gerðar á fjármögnunarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs árið 2004.

Deutsche Bank taldi æskilegt að eiginfjárhlutfallið væri 2,5% CAD til lengri tíma, en að kröfu fjármálaráðuneytisins var langtímamarkmið í reglugerð haft 5% CAD til að minnka líkurnar á að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til fé til að standa undir skuldbindingum sínum.

Því skýtur það skökku við nú þegar við þurfum að velta hverri krónu fyrir okkur að fjármálaráðuneytið vilji leggja til tugi milljarða úr ríkissjóði til að ná markmiði um CAD hlutfall sem sett var til að koma í veg fyrir að það þyrfti að leggja sjóðnum til fé úr ríkissjóði!

Við skulum hafa í huga að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs var 2,1% CAD við 6 mánaða uppgjör í sumar – örlítið lægra en ráðlegging Deutsche Bank.

Reynar er sjálfu sér ekkert sem krefst þess að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs sé jákvætt meðan sjóðurinn nýtur ríkisábyrgðar, þótt staða og kjör sjóðsins styrkist eftir því sem eiginfjárhlutfall er hærra. Það eina sem þarf að tryggja er að sjóðurinn geti staðið undir afborgunum af fjármögnunarbréfum sínum. Ekkert bendir til þess að greiðslufall sé framundan hjá Íbúðalánasjóði.

Því er óskiljanlegt að ríkissjóður skuli leggja til á fjáraukalögum að bæta skuli 33 milljörðum í eigið fé sjóðsins þegar ekki þarf í sjálfu sér að leggja til sjóðnum aukið fé. Ef stjórnvöld vilja styrkja stöðu sjóðsins í fegurðarskyni þá hefðu 10 milljarðar verið mikið meira en nóg.

… nema stjórnvöld séu að auka eigið fé í 8 CAD svo unnt sé að afnema ríkisábyrgð og einkavæða sjóðinn!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Þessi upphæð 33 milljarðar er líka áhugaverð út frá því, að þetta er sama upphæð og lífeyrissjóðirnir fengu gefins frá ríkissjóði, þegar þeir keyptu íbúðabréf ÍLS af ríki og Seðlabanka sl. vor. Kannski var það líka liður í því að lífeyrissjóðirnir eigi að taka ÍLS yfir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur