Þriðjudagur 28.12.2010 - 13:59 - 20 ummæli

90% misskilningur þjóðarinnar

90% þjóðarinnar virðist haldinn misskilningi um að svokölluð 90% almenn lán Íbúðalánasjóðs hafi átt 90% hlut í þenslu á fasteignamarkaði árin 2004 – 2006 og þannig verið ein ástæða efnahagshrunsins. 

Hið rétt er að 90% almenn lán Íbúðalánasjóðs hafa ekkert með fasteignabóluna að gera.

Staðreyndin er nefnilega sú að sjaldan í sögunni hafði Íbúðalánasjóður veitt hlutfallslega færri 90% lán en seinni part ársins 2004.  Þá voru árið 2005  eiginleg almenn 90% lán Íbúðalánasjóðs á höfuðborgarsvæðinu einungis 40 stykki – og enn færri á árinu 2006! 

Þrátt fyrir þetta hafa útrásarvíkingar í forystu bankanna,  fjölmiðlar og ýmsir stjórnmálamenn komið þeirri ranghugmynd fyrir hjá 90% þjóðarinnar að 90% almenn lán Íbúðalánasjóðs hafi verið aðalástæða þenslunnar síðari hluta árs 2004 og misserin þar á eftir. Rannsóknarnefnd Alþingis – sem reyndar rannsakaði ekki aðdraganda breytinga á lánum Íbúðalánasjóðs 2004 – fellur einnig í sömu gryfju. 

Þá telja margir að 90% lán hafi komið til árið 2004 – þegar hið rétta er að Íbúðalánasjóður og forveri hans hafa lánað 90% lán allt frá árinu 1986. 

Áður en lengra er haldið er ástæða til að skoða yfirlit sem sýnir árlegt hlutfall 90% lána í útlánum Íbúðalánasjóðs og áður Húsnæðisstofnunar tímablið 1986 til 2004. 

Hlutfall 90% lána í útlánum Íbúðalánasjóðs og Húsnæðisstofnunar

Eins og sjá má á myndinni þá varð breyting á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 til þess að DRAGA VERULEGA ÚR 90% LÁNUM ÍBÚÐALÁNASJÓÐS!  Hlutfallið hrapaði úr 48% lána fyrir breytingar í 16% lána eftir breytingar. 

Þess má geta að flest 90% lánin síðari hluta ársins 2004 voru leiguíbúðalán sem fyrst og fremst fóru út á land.

Því er það deginum ljósara að 90% lán Íbúðalánsjóðs hafa ekkert með snarhækkað húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu haustið 2004 að gera.  SÖKIN LIGGUR ALFARIÐ HJÁ BÖNKUNUM sem hófu hömlulaus útlán á fasteignatryggðum lánum í september 2004. 

Bankarnir lánuðu samtals 10 stykki íbúðalán í ágústmánuði 2004 að fjárhæð 90 milljónir – en fóru í tæpa 30 MILLJARÐA í september og höfðu lánað 115 MILLJARÐA tímabilið september – desember 2004. 

Þennsluáhrif þessarar aðgerðar bankanna var og er augljós – enda var Greiningardeild Kaupþings með ástæður hennar á hreinu í greiningu sinni í desember 2004 eins og eftirfarandi tilvitnun í frétt á Stöð 2 staðfestir: 

„Fasteignaverð hefur aldrei hækkað jafnhratt á höfuðborgarsvæðinu og undanfarna þrjá mánuði. Verðið hefði hins vegar lækkað eða staðið í stað ef íbúðalán bankanna hefðu ekki komið til, að mati greiningardeildar KB-banka…“

Reynt hefur verið að halda því fram að áætlanir stjórnvalda um innleiðingu almennra 90% lána til kaupa á hóflegu húsnæði hefðu ýtt bönkunum út á íbúðalánamarkaðinn.  Þessi skýring kom reyndar fyrst fram á vordögum 2005 – eftirá – þegar einn bankastjóranna var að verjast ásökunum um að bankarnir hefðu ollið mikilli þenslu með óábyrgri lánastarfsemi sinni á undangengnum mánuðum. 

Í kjölfarið fóru bankarnir og þeir sem þá studdu í öfluga áróðursherferð í fjölmiðlum þar sem reynt var að festa þessa eftirá söguskoðun í sessi.  Það tókst .

Væntanlega hefur bankastjórinn verið með smá óbragð í munninum – því hann og aðrir bankastjórar vissu að stjórnvöld hyggðust fresta innleiðingu almennra 90% lána vegna stöðu í efnahagsmálum fram á árin 2006 og 2007.  Þeim skilaboðum hafði ítrekað verið komið til þeirra.

Alþjóð hefði einnig átt að vera ljóst í upphafi árs 2004 að ákvörðun um innleiðingu 90% lána yrði ekki tekin fyrir en á síðari hluta ársins 2004 þar sem sú ákvörðun kom skýrt fram í fréttatilkynningu Félagsmálaráðherra á gamlársdag 2003:
 
„Frekari ákvörðun um hámarkslán og innleiðingu hækkunar hámarkslána í 90% verður tekin í kjölfar þess að niðurstaða ESA vegna málsins liggur fyrir á vormánuðum.“
 
 Félagsmálaráðuneytið.  Fréttatilkynning 31. desember 2003
 
 Niðurstaða ESA kom reyndar ekki fyrr en í ágústmánuði 2004 – nokkrum dögum áður en bankarnir hófu að lána íbúðalán á lágum vöxtum.  Enda heimilaði Alþingi ekki almenn 90% lán fyrr en í desember 2004 – þegar bankarnir höfðu þegar sprengt upp fasteignverð á höfuðborgarsvæðinu og kynt illilega undir þenslu.

Þess má geta að á sama tíma horfði Seðlabankinn á bankana kynda verðbólgubálið án þess að grípa til aðgerða og hækka bindiskyldu til að draga úr útlánaþenslunni.

 

 Meira um máli í skýrslunni: 

 
 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Ég heyrði þig útskýra þetta ágætlega í útvarpi og hef aðeins reynt að benda á þetta, en fólk vill frekar heyra hina útgáfuna.

  • Ekki þreytist Hallur. Er ekki rétt að gefa stórasannleik út í bókarformi?

  • Svartálfur

    Hmmmm……..

    Er ekki gagnrýnin á Íbúðarlánasjóð sú að uppgreidd lán hjá ÍL fóru beina leið til bankanna sem lánuðu til að greiða upp lán ÍL sem lánaði þá aftur til bankana sem lánuðu til að greiða upp lán ÍL sem lánaði aftur til bankana sem lánuðu………..o.s.frv.?

  • flott hjá þér.
    byrjar á
    „90% þjóðarinnar virðist haldinn misskilningi um að svokölluð 90% almenn lán Íbúðalánasjóðs hafi átt 90% hlut í þenslu á fasteignamarkaði árin 2004 – 2006 og þannig verið ein ástæða efnahagshrunsins.“
    sem ég held að enginn trúi, og afsannar það með bravör.

    værirðu ekki til í að taka setninguna:
    „90% lán til einstaklinga er sennilega það besta sem íbúðalánajóður og þessi ríkisstjórn getur gert fyrir þegna landsins og framtíðar efnahagsstjórn“
    og leiða hana út.

    gætir líka tekið:
    „Ísland verður fíkniefnalaust land árið 2000“
    sem 10% þjóðarinnar trúði. sömu prósentin og trúa á framsókn hvað sem á dynur.

  • Hallur Magnússon

    Toggi.

    Hvað kemur „Fíkniefnalaust Ísland“ þessu málið við?

  • Ómar Harðarson

    Þér hefur yfirsést, nema misskilningur þinn sé vísvitandi, að gagnrýnin beinist ekki að því að Íbúðalánasjóður hafi tekið upp á því að veita 90% lán á árinu 2004.

    Gagnrýnin snýst að því að Framsóknarflokkurinn gerði 90% lán að kosningaloforði í aðdraganda kosninganna 2003 og að það var síðan gert að samkomulagsatriði í stjórnarsáttmála endurnýjaðrar ríkisstjórnar SjálfstæðisFLokks og Framsóknarflokks. (Sjá t.d. ummæli Geirs Haarde um þennan þátt í Rannsóknarskýrslunni, en þar viðurkennir hann að Sjálfstæðismenn hafi vitað hvað það hefði í för með sér, en talið það þess virði að setja landið á hausinn til að halda í valdastólana [ekki bein tilvitnun]).

    Með þessum hætti kyntu stjórnvöld undir algerlega óábyrgar væntingar um lánveitingar til fólks sem hafði lítið sem ekkert eigið fé og átti því ekki að standa í húsnæðiskaupum. Bankarnir tóku þátt í þessum væntingaleik og hófu að veita 100% lán – en líklega var strategía þeirra önnur og sú að ná til sín húsnæðislánum að öllu leyti.

    Ábyrgðin er þvi Framsóknarflokksins (og Sjálfstæðisflokks sem samstarfsflokks) og árið er því 2003. Með því að hamra á ÍLS og árinu 2004 ertu að villa um fyrir lesendum þínum. Það er ljótt.

  • ég á við að þú ert að taka hluti úr samhengi. þú velur eina fullyrðingu sem auðvelt er að hrekja og leggur út frá henni í stærri sannleik sem ég kaupi ekki hjá þér.

  • Hallur Magnússon

    Toggi.

    Skil hvað þú ert að fara.

    En ég er ekki að taka hluti úr samhengi – þvert á móti er ég að setja þá í samhengi.

    Þetta er einungis einn þátturinn – byggður á tölulegum staðreyndum – þar sem sýnt er fram á ríkjandi skoðun er röng og byggist á röngum upplýsingum.

    Tölurnar sem þú sérð í grafinu eru réttar.

    Kom það þér ekki á óvart?

    Hélstu ekki miðað við ríkjandi umræðu að þetta væri allt öðruvísi?

    Getur þú fært rök fyrir því af hverju þú kaupir ekki stærri sannleik?

    Getur þú bent á eitthvað rangt semkemur fram í þessu bloggi – eða síðasta bloggi mínu um málið:

    „Þegar bankarnir stálu jólunum!“

    http://blog.eyjan.is/hallurm/2010/12/20/thegar-bankarnir-stalu-jolunum/

  • Hallur Magnússon

    Ómar.

    Bendi þér á að lesa bæði rannsóknarrskýrsluna – og skýrslu ÍLS
    „Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004 Greinargerð vegna Rannsóknarskýrslu Alþingis“ á slóðinni
    http://blog.eyjan.is/hallurm/2010/12/20/thegar-bankarnir-stalu-jolunum/

    betur.

    Ummæli Geirs í viðtalið við Rannsóknarnefndina byggja reyndar á misminni um tímaröð og tímalínu – og ber að skoða í því ljósi að sambærileg ummæli komu fram á landsfundi 2006 þegar ráðist var að Geir vegna efnahagslegra áhrifa skattalækkana Sjálfstæðisflokksins.

    Staðreyndin er nefnilega sú að þessi skýring kom fyrst fram á vordögum 2005 – eftirá – þegar einn bankastjóranna var að verjast ásökunum um að bankarnir hefðu ollið mikilli þenslu með óábyrgri lánastarfsemi sinni á undangengnum mánuðum.

    Í kjölfarið fóru bankarnir og þeir sem þá studdu í öfluga áróðursherferð í fjölmiðlum þar sem reynt var að festa þessa eftirá söguskoðun í sessi. Það tókst .

    Væntanlega hefur bankastjórinn verið með smá óbragð í munninum – því hann og aðrir bankastjórar vissu að stjórnvöld hyggðust fresta innleiðingu almennra 90% lána vegna stöðu í efnahagsmálum fram á árin 2006 og 2007. Þeim skilaboðum hafði ítrekað verið komið til þeirra.

    Alþjóð hefði einnig átt að vera ljóst í upphafi árs 2004 að ákvörðun um innleiðingu 90% lána yrði ekki tekin fyrir en á síðari hluta ársins 2004 þar sem sú ákvörðun kom skýrt fram í fréttatilkynningu Félagsmálaráðherra á gamlársdag 2003:

    „Frekari ákvörðun um hámarkslán og innleiðingu hækkunar hámarkslána í 90% verður tekin í kjölfar þess að niðurstaða ESA vegna málsins liggur fyrir á vormánuðum.“

    Félagsmálaráðuneytið. Fréttatilkynning 31. desember 2003

    Niðurstaða ESA kom reyndar ekki fyrr en í ágústmánuði 2004 – nokkrum dögum áður en bankarnir hófu að lána íbúðalán á lágum vöxtum. Enda heimilaði Alþingi ekki almenn 90% lán fyrr en í desember 2004 – þegar bankarnir höfðu þegar sprengt upp fasteignverð á höfuðborgarsvæðinu og kynt illilega undir þenslu.

  • Ómar Harðarson

    Þú meinar. Framsóknarmenn lofuðu sem sagt ekki 90% lánum í kosningunum 2003? Þetta var ekki tekið upp í samstarfssamninginn 2003?

    Það sem gerðist var að væntingar voru vaktar. Það hafði áhrif. Það breytir engu hvort reynt hafi verið að lina áhrifin með því að fresta gildistöku. Frestunin hafði þau helstu áhrif að bankarnir gátu komið með 100% lán á undan ÍLS í þeim tilgangi að grafa undan sjóðnum. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu hins vegar gefið upp boltann. 90% og 100% lánin eru undirmálslán sem hafa sett húsnæðiskerfið á hliðina hér á landi.

    Ég hef lesið Rannsóknarskýrsluna. Skýrslu ÍLS (sem að fréttum að dæma virðist vera hvítþvottur fyrir stjórnunarhætti Guðmundar Bjarnasonar) ætla ég ekki að lesa að sinni, heldur bíða þess að rannsóknarnefnd Alþingis sem ályktað var um fyrir jól skili sinni.

  • Hallur Magnússon

    Ómar.

    Finnst þér það málstað þínum til framdráttar að þú viljir ekki kynna þér tölulegar staðreyndir í skýrslu ÍLS?

    Gengisfellir þig með þessu. Ekki unnt að taka mark á málflutningi þínum í kjölfarið.

    Nei, ég hef aldrei sagt að Framsóknarflokkurinn hafi ekki lofað almennum 90% lánum til kaupa á hóflegu húsnæði með 15,9 milljón króna hámarksláni – innleiddu í þrepum í takt við efnahagsástand og tækju að fullu gildi vorið 2007.

    Um það fjallaði samstarfssamningurinn.

    Þessi lán eru engin undirmálslán. Enda ekki tap á þeim. Lágt hámarkslán ÍLS tryggði slíkt.

    Undirmálslánin eru ófjármögnuð tugmilljónkróna lán bankanna.

    Bið þig að endurskoða ákvörðun þína um að kynna þér ekki tölulegar staðreyndir í skýrslu ÍLS – svo unnt sé að ræða við þig á málefnalegum grundvelli.

  • Anna María Sverrisdóttir

    Það sem kom fasteignabrjálæðinu af stað var auðvitað upphaflega ákvörðun Halldórs Ásgrímssonar um hámarkslán íbúðalánasjóðs Hallur, bankarnir gripu svo boltann á lofti og gáfu ærlega í. En hvað var það sem kveikti þetta? Jú það var auðvitað ákvörðunin um 90% lánin sem svo urðu að 100%+ í bönkunum sem vildu yfirbjóða og helst yfirtaka íbúðalánasjóð. Til allrar hamingju tókst það ekki.
    Það er ekki málefnalegt að tala svona Hallur þó þú viljir verja Framsóknarflokkinn, ég svosem skil hvötina og hef fundið hjá mér þörf fyrir að finna einhverjar far out leiðir til að útskýra gerðir þeirra sem ég vil styðja. En við skulum vera raunsæ. Þetta voru skelfileg mistök sem höfðu afleiðingar.

  • Hallur Magnússon

    Anna María.

    Áður en ég svara þér.

    Hvað áttu nákvæmlega við með „upphaflega ákvörðun Halldórs Ásgrímssonar um hámarkslán íbúðalánasjóðs“?

  • Anna María Sverrisdóttir

    Hallur minn, það veist þú sjálfur. Viltu að ég reki þá framvindu nákvæmlega. Það er hægt að finna fína hlekki á þau mál öll og ég held þú og þeir sem hér skrifa viti alveg um hvað ég er að tala. Ég skal ekki reyna að hrekja það að háu lánin voru fyrst og fremst veitt af bönkunum en það var fordæmi Íbúðalánasjóðs sem hratt þessu öllu af stað.

  • Fín grein hjá þér Hallur og fróðleg. Ég skil ekki rök Önnu Maríu og Ómars þess efnis að af því Framsóknarfl setti fram hugmynd um 90% íbúðalán þá hafi sú hugmynd orðið til þess að viðskiptabankarnir hófu hömlulaus útlán til íbúðakaupenda. þau Anna María og Ómar virðast svo einföld að halda að bankarnir hafi þurft að fá lánaðar hugmyndir frá stjórnmálaflokkum til að taka upp nýjar lánalínur. Ég á við, er ekki öllum ljóst að bankarnir þurftu enga aðstoð við að láta sér detta í hug leiðir til að moka út lánsfé ? Hitt er svo annað mál að ég skil ekki heldur að kratar sem stöðugt tala um „norræna velferðarstjórn“ séu að setja sig gegn því að á Íslandi sé hægt að fá sama lánshlutfall við íbúðalán og er á Norðurlöndum ?
    En sem sagt mjög fróðleg lesning hjá þér Hallur

  • Hallur Magnússon

    Anna María.

    Það er rangt hjá þér.

    Innkoma bankanna á fasteignamarkað hafa ekkert með 90% lán Íbúðalánasjóðs að gera.

    Innkoman var rökrétt afleiðing þess að bankarnir höfðu verið einkavæddir. Meðan bankarnir voru í ríkiseigu var ekki mikill hvati fyrir þá að koma inn á markað þar sem Íbúðalánasjóður ríkisrekinn var fyrir.

    Það var nefnilega ákveðin verkaskipting í gangi – enda gátu bankarnir ekki fjármagnað sig á eins góðum kjörum og ÍLS.

    Þegar nýir eigendur taka við bönkunum – þá fara þeir að horfa á fasteignalánamarkaðinn. Undirbúningur að innkomu bankanna á markaðinn var hafinn fyrri part árs 2003 – allavega hvað Kaupþing varðar. Það kom á daginn síðar.

    Innkoma bankana á markaðinn hefði átt að vera kærkomin. Líka fyrir Íbúðalánasjóð.

    Vandamálið var að Kaupþing kom af þvílíkum krafti inn á markaðinn – á einni nóttu – og óheft. Kaupþing reiknaði ekki með að hinir bankarnir kæmu strax inn á þennan markað með niðurgreidd lán.

    Kaupþing ætlaði að ná stórri markaðshlutdeild af Sparisjóðunum og veikja Íbúðalánasjóð. Einnig að stækka efnahagsreikning sinn eins hratt og unnt var – til að styrkja útrás sína. Gera það hratt.

    Þannig höfðu forsvarsmenn bankans alltaf unnið.

    Það er sannleikurinn í málinu.

    Hreiðar Már sagði við mig og félaga minn í lok október 2003.

    „Ég er búinn að segja mínu fólki að Kaupþing eigi að ná að minnsta kosti 40% af fasteignamarkaðnum. Mér er alveg sama hvernig það verður gert“.

    Það hafði ekkert með 90% lán Íbúðalánasjóðs að gera. Né Íbúðalánasjóð yfir höfuð. Það var bara markmið stjórnenda Kaupþings að ná þessum hluta. Hvað sem það kostaði.

    Vandamálið var að Kaupþing var ekkert að hugsa um efnahagsmál. Ef innkoma bankanna á fasteignamarkað hefði verið eðlileg – þá hefði þenslan aldrei orðið.

    Það var alveg ljóst að 90% lán með hámarkslán 15,9 milljónir vorið 2007 ógnaði ekki innkomu bankanna. Þvert á móti – þá gerði aðferðafræði sem lagt var upp með það að verkum að bankarnir fengu aukið og betra svigrúm til lána á millistórum og stærri eignum.

    Það var barta ekki það sem Kaupþing var að sækjast eftir.

    Ítreka enn og aftur:
    Reynt hefur verið að halda því fram að áætlanir stjórnvalda um innleiðingu almennra 90% lána til kaupa á hóflegu húsnæði hefðu ýtt bönkunum út á íbúðalánamarkaðinn. Þessi skýring kom reyndar fyrst fram á vordögum 2005 – eftirá – þegar einn bankastjóranna var að verjast ásökunum um að bankarnir hefðu ollið mikilli þenslu með óábyrgri lánastarfsemi sinni á undangengnum mánuðum.

    Í kjölfarið fóru bankarnir og þeir sem þá studdu í öfluga áróðursherferð í fjölmiðlum þar sem reynt var að festa þessa eftirá söguskoðun í sessi. Það tókst .

    Væntanlega hefur bankastjórinn verið með smá óbragð í munninum – því hann og aðrir bankastjórar vissu að stjórnvöld hyggðust fresta innleiðingu almennra 90% lána vegna stöðu í efnahagsmálum fram á árin 2006 og 2007. Þeim skilaboðum hafði ítrekað verið komið til þeirra.

  • Þetta eru glæsilegt hjá þér, en eftir stendur að það var Íbúðalánasjóður sem fjármagnaði banka í þessu brjálaði. Og það hefur komið fram að það var Árni Páll sem gaf lögfræðilegt GO á þetta.

  • Hallur Magnússon

    Gunni.

    Það er rangt að ÍLS hafi fjármagnað bankana í þetta.

    115 milljarðar fóru út úr bönkunum september – desember 2004 – áður en ÍLS keypti þegar lánuð lánasöfn af Landsbanka og Sparisjóðum.

    Alls lánuðu bankarnir 500 milljarða. ÍLS keypti þegar lánuð lánasöfn fyrir 100 milljarða í heildina. Út af standa 400 milljarðar.

    Þá eru ótalin gjaldeyrislán bankanna!

    Enn einu sinni – hin leiðin hefði verið að leggja penngana inn í Seðlabankann – þar sem peningarnir hefðu farið beint út í bankakerfið – en ÍLS tapað 15 milljörðum í vaxtatekjur.

  • Einar Jón

    Svo að maður taki nú upp þráðinn af togga:
    Eru ekki allir sammála að bankarnir reyndu að yfirbjóða ÍLS með öllum tiltækum ráðum?
    Og að 100% lánin þýddu að margir keyptu bara á hvaða verði sem er þar sem milljón í viðbót var bara örfáir þúsundkallar í greiðslubyrði – í stað einhverra hundraðþúsundkalla í útborgun.

    Þar sem ÍLS bauð 90% þurfti að toppa það – semsagt 10% betur. Ef ÍLS hefði verið í t.d. 70% hámarki hefðu bankarnir jafnvel ekki farið hærra en 80-85%.
    Þá hefði fólk þurft að eyða alvöru peningum í fasteignakaup í stað þess að fá allt á afborgunum, og jafnvel pælt aðeins í verðinu.
    Sem hefði sennilega endað í minni bólu.

    Eru ekki eitthvað til í þeirri pælingu – óháð því hvað ÍLS lánaði mikið af 90% lánum?

  • Ólafur I Hrólfsson

    Hallur – Þakka þér umfjöllunina og svörin –

    Eins og formaður Framsóknarflokksins hefur bent á hafa fjölmiðlar afflutt þetta mál. Því miður er það ekkert nýtt – RÚV hefur gengið erinda Samfylkingar lengi og helstjórnin nýtur þess líka – Sama gildir um Baugsmiðlana.

    Það væri ekki úr vegi að koma samantekt þinni – og allri umfjölluninni hér á undan – til RÚV ráðenda sem og annara fjölmiðla. Fylgja því síðan eftir þannig að þetta komist til skila.

    Enn og aftur – bestu þakkir til þín.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur