Laugardagur 26.03.2011 - 10:22 - 22 ummæli

Illfýsi DV í garð Arnars og Bjarka

Einn af grunnþáttum blaðamennsku á DV er illfýsi. Illfýsin birtist nánast í hverju blaði þar sem yfirleitt er að finna frétt þar sem ætlað er að vekja hneykslan hvort sem grundvöllur er til þess eða ekki.

Aðferðafræðin er oft að birta hálfsannleik til að skapa andrúmsloft tortryggni og reynt að stilla upp stöðu þar sem lesandi dragi sjálfur – oft á tíðum rangar ályktanir á grunni hneykslunar. Ekki endilega vegna þess hvað DV segir beint – heldur frekar þess sem DV gefur í skyn en segir ekki.

Blaðamenn DV eru nokkuð lagnir við þessa blaðamennsku illfýsinnar.

Ágætt dæmi um blaðamennsku illfýsinnar á DV er umfjöllun þeirra um mikilvægt framtak tvíburanna Arnars og Bjarka Gunnlaugssona sem nú eru að leggja tugi milljóna af eigin fé í byggingu leiguíbúða á Þórshöfn – en á Þórshöfn ríkir sár húsnæðisekla.

DV leggur frétt sína upp á þann hátt að lesandi dragi þá ályktun að Langanesbyggð – sem er sveitarfélagið á Þórshöfn og nágrenni – sé á óeðlilegan hátt að færa þeim bræðrum 100 milljónir á 10 árum í vasann. DV segir það ekki beint – en fyrirsögn DV er: „Langanesbyggð tryggir Arnari og Bjarka 100 milljónir“.  Undirfyrirsögnin er: „Leiguverð talsvert hærra en í Reykjavík“.

Undirfyrirsögnin er reyndar röng – eins og fram kemur í fréttinni þar sem segir: “ Leiguverð á hvern fermetra í Reykjavík er á bilinu 1.200 til 2.100 krónur, samkvæmt leiguverðkönnun Neytendasamtakanna.“   Eða með öðrum orðum – leiguverðið er 300 krónum hærra en lægsta leiguverð fyrir gamla hjalla í Reykjavík en 600 krónum lægra en hæsta verð fyrir nýbyggð hús á góðum stað í Reykjavík.  Skólabókadæmi um illfýsi DV í umfjöllun sinni.

Snúum okkur aftur að staðhæfingunni: „Langanesbyggð tryggir Arnari og Bjarka 100 milljónir“.  Það fyrsta sem lesandandum dettur í hug að þeir bræður séu að hagnast um 100 milljónir viðskiptum við Langanesbyggð.  Sem er fjarri lagi. Sveitarfélagið tryggir leigufélagið þeirra bræðra einungis 10 milljónir á ári til að standa undir afborgunum af lánum og öðrum rekstrarkostnaði vegna nýrra leiguíbúða.

Staðan á Þórshöfn er sú að það vantar sárlega leiguhúsnæði. Skortur á húsnæði stendur gróskumiklu byggðalagi þar sem næga vinnu er að fá fyrir þrifum. Sveitarfélagið getur við núverandi ástand ekki útvegað til dæmis nýjum kennurum húsnæði. Því þarf að byggja nýtt.  Það er nefnilega ekki hægt að flytja blokk frá Reyðarfirði á Þórshöfn. Né fleyta menn auðu húsnæði á Raufarhöfn með ströndinni inn á Þórshöfn.

Sveitarfélagið verður því annað hvort að byggja húsnæði sjálft og binda þannig tugi milljóna úr sveitarsjóði auk þess að standa undir rekstri leiguíbúða og afborgunum af lánum eða skapa aðstæður fyrir aðra aðilja að byggja leiguhúsnæði á staðnum.

Sveitarfélagið ákvað að spara fjármagn með því að binda ekki tugmilljónir króna í leiguhúsnæði heldur tryggja leigufélagi eðlilegan rekstrargrundvöll næstu 10 árin með því að ábyrgjast eðlilegar leigugreiðslur fyrir það tímabil.

Ástæðan er ekki góðmennska í garð Arnars og Bjarka. Ástæðan er sú að leigufélag þeirra sem leggur í upphafi og bindur eigið fé fyrir að lágmarki  20% framkvæmdakostnaðar – líklega um 30 milljónir í eigin fé –  verður að sína Íbúðalánasjóði fram á tryggan rekstrargrundvöll leiguíbúðanna til framtíðar svo sjóðurinn veiti þeim leiguíbúðalán fyrir 80% framkvæmdakostnaðar – eins og lög gera ráð fyrir.

Íbúðalánasjóður lánar hreinlega ekki til Þórshafnar nema að rekstragrundvöllur sé tryggður.

Sveitarstjórnin átti því engan annan úrkosta – ef hún vildi á annað borð að byggðar yrðu leiguíbúðir á Þórshöfn – en að tryggja eðlilegar leigugreiðsur til að standa undir afborgunum af lánum Íbúðalánasjóðs, fasteignagjöldum, tryggingum og öðrum rekstrarkostnaði.

Þá skipti engu máli hvort um væri að ræða leigufélag Arnars og Bjarka, sveitarfélagsins sjálfs – sem hefði kallað á að minnsta kosti 30 milljón króna fjárbindingu Langanesbyggðar auk rekstrarkostnaðar – eða annarra leigufélaga.

Þessar staðreyndir skipta illfúsa blaðamenn DV engu máli. Í stað þess sem rétt væri – að hrósa Arnari og Bjarka fyrir að leggja 30 milljónir af eigin fé til að draga úr sárum skorti á íbúðarhúsnæði á Þórshöfn – þá velur DV gamalkunna leið illfýsi og gerir þetta jákvæða framtak í þágu íbúa Þórshafnar að sukki og svínaríi í huga lesenda sinna.

DV svertir því markvisst æru heiðarlegra bræðra í heiðarlegum viðskiptum í von um það selji nokkur eintök af DV í viðbót. Það er sukk og svínarí.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Þetta er algjört kjaftæði í þér. Stöð 2 sagði hálfsagða frétt um byggingu ráðhúsa á Þórshöfn. DV botnaði fréttina og sagði frá því að Langanesbyggð væri að leigja húsin og hvað fermetrinn kostar á mánuði. Auðvitað skiptir það máli hvað sveitarfélagið borgar fyrir þessi hús.

    Ferill þessara bræðra í fasteignaviðskiptum hefur verið þannig að full ástæða er til þess að spyrja spurninga.

    Það er aðeins túlkun þín að þetta sé illkvittni. Það er einfaldlega verið að greina frá staðreyndum og ef þú getur ekki höndlað þær, þá er það þitt vandamál. Slepptu því að saka strangheiðarlegan blaðamann um illkvittni!

  • Hallur Magnússon

    Valgeir.

    Það er EKKI einungis verið að greina frá STAÐREYNDUM.
    Það er VÍSVITANDI verið að halda nauðsynlegum upplýsingum frá lesendum og uppsetning fyrirsagnar miðar að afvegleiða lesandann.

    Þessi framsetning er einkennandi fyrir DV – og langt í frá í flokki þeirra grófustu.

    Það skiptir engu máli hvað varðar frétt DV þótt annar fjölmiðill hafi fjallað um málið.

    Það er reyndar merkilegt að blaðamaðurinn kýs að ræða EKKI við Arnar og Bjarka – enda hefði það getað skemmt fréttina.

    Ég notaði orðið illfýsi en ekki illkvittni – svo það sé á hreinu.

  • Ég ætla ekki að dæma um hvort þetta séu góð eða slæm viðskipti.

    En sagan með svona viðskipti er ekki falleg, Reykjavík hefur gert þetta er nú að sligast undan leigugreiðslum sama með Reykjanessbæ og fleirri bæjarfélög hafa farið mjög illa á þessum samningum.

    Þessir samningar eru svo bundnir við vísitölu og þegar það kemur gott verðbólguskot ríkur leigan upp.

    Sé nær fyrir sveitarfélögin að byggja þetta sjálf og selja, ef það vantar svona gríðarlega húsnæði er örugglega grundvöllur til þess að bvggja.

  • Hallur Magnússon

    Sigþór.

    Leiguíbúðalán Íbúðalánasjóðs eru bundin vísitölu – og því eðlilegt að leigan sem sé það einnig. Annars stendur reksturinn ekki undir sér.

    Ekki gleyma því að eiginfjárframlag leigufélagsins – l

    Einnig að sveitarfélagið er einungis að tryggja leigugreiðslur – það þýðir ekki að sveitarfélagið greiði þessa fjármuni. Það eru leigjendurnir sem greiða leiguna.

    Er það hlutverk sveitarfélaga að byggja íbúðarhúsnæði?

    Það er sjónarmið – en ríkisrekstur/sveitastjórnarrekstur á íbúðarhúsnæði setti byggingarsjóð verkamanna á hausinn sem nemur rúmum 30 milljörðum á núvirði áður en Íbúðalánasjóður var stofnaður.

    Í stað þess að binda eigið fé sveitarfélagins – og nýta það í aðra uppbyggingu – þá leggur leigufæelagið til eigið fé í verkið.

    Það er EKKERT gert úr því í fréttinni.

  • Það er nú eðlilegt að blaðamenn DV hegði sér svona. Ritstjórinn á blaðinu er konungir í hálfsannleik, uppnefnum og ákaflega vondri blaðamennsku. Það vill DV til happs að Jóhann Hauksson skrifar reglulega í það.

    Það er reyndar í hæsta máta óeðlilegt að leiga sé vísitölubundin. Þó að byggingaraðilinn fjármagni sig með verðtryggðu láni þá hefur hann engan sérstakan rétt til að vísitölubinda leiguna. Það er reyndar óeðlilegt að velta þessari áhættu á leigutakann. Það er spurning hvort ekki sé hugmynd að banna vísitölubindingu leigu nema leigusamningurinn sé til a.m.k. 3 ára, svipað og venjan er með lánsfjármögnun. Með því að vísitölubinda leigu í samning sem er kannski bara til eins árs er leigutakinn að taka of stórann hluta af áhættunni af samningnum.

  • Hallur,
    Mér finnst þú skjóta algerlega yfir markið. Það er full ástæða að ræða þetta tæpitungulaust.
    Svona framkvæmd minnir soldið á fasteignafélagið sem Reykjanesbær og Álftanes fóru flatt á.
    Ábyrgðin, ef illa fer, virðist öll hjá skattgreiðendum.
    .
    If it’s too good to be true, it probably is.
    .
    Við höfum vítin til að varast, er það ekki?

  • Hallur Magnússon

    Einsi.

    Það er einmitt ástæða til þess að ræða þetta tæpitungulaust – það er að fara yfir málið eins og það er. Það er ekki gert í frétt DV. Þvert á móti.

    Þetta er ósköp einfalt. Leigufélag leggur fram verulegt eigið fé á móti lánum Íbúðalánasjóðs. Fé sem sveitarfélagið hefði annars þurft að leggja til og binda fast.

    Gjöld leigufélagsins á leiguhúsnæðinu byggir annars á afborgunum lána Íbúðalánasjóðs, tryggingum, opinberum gjöldum. Sá kostnaður er nokkuð þekktur.

    Tekjurnar eru leigutekjur. Sveitarfélagið ábyrgist ákveðnar leigutekjur í 10 ár. Ábyrgð þess er ekki meiri en það. Leigan er hins vegar greidd af leigjendum.

    Það er húsnæðisekla á Þórshöfn – þannig það eru litlar líkur á að húsnæðið standi tómt á næstunni.

    Ábyrgðin ef illa fer er leigufélagsins – þeirra Arnars og Bjarka. Þeir missa þá sitt eigið fé í húsnæðinu. Tugi milljóna. Húsin fara hins vegar ekkert – þau verða á Þórshöfn. Sveitarfélagið tapar engu. Það er rétt að ef illa fer – þá þarf Íbúðalánsjóður mögulega að afskrifa hluta lána sinna. Það er hins vegar ekkert sem bendir til að svo fari.

  • DV er besti fjölmiðillinn sem við höfum í dag. Ef þeim finnst ástæða til að fjalla um bræðurna, þá er ástæða. Sveitarfélög sem stjórnað er að framsóknar eða sjálfstæðismönnum eru dugleg við að koma peningum almennings í hendurnar á einkaaðilum. Sporin hræða.

  • Hallur,
    Hvað eiga húsin að kosta?
    Hve mikið lánar Íbúðalánasjóður og til hve langs tíma?
    Hve mikið eigin fé leggja þeir bræður fram. Eru það raunverulegir peningar?
    .
    Leigan er mjög há. Þarf sveitarfélagið ekki að borga mismun ef það fær ekki leigjendur?
    .
    Held að það sé ekki skrýtið þó að svona samningur veki pínu tortryggni, ekki síst fyrir þá sök að fjárfestarnir eru helst kunnir fyrir draum sinn um að reisa spilavíti.
    Það eru nýjar fréttir ef það er orðið arðbært að reisa íbúðarhúsnæði í íslensku sjávarþorpi, eins sorglegt eins og það nú er.
    Það er ekki óeðlilegt að farið sé fram á skýringar um að skattgreiðendur þurfi ekki að niðurgreiða dæmið.

  • Hallur Magnússon

    Einsi.

    Farðu inn á síðu Íbúðalánasjóðs og sjáðu þar viðmiðunarverð sjóðsins vegna leiguíbúða. Það er hámarksverð sem Íbúðalánasjóður samþykkir á leiguhúsnæði. Byggingarkostnaður er allavega ekki hærri en það – líklega lægri.

    Íbúðalánasjóður lánar 80% – leigufélagið þarf að leggja fram amk. 20%. Já það eru raunverulegir peningar. Lánið er til allt að 50 ára.

    Leigan er ekki mjög há. Hún er í lægri kanntinum miðað við raunverulegt leiguverð í Reykjavík – á sviðuðu róli og leiga í nýju húsnæði víðs vegar um landið.

    Það er reyndar einkennandi – og dálítið í DV stíl – að gera tortryggilega þá skoðun bræðrana um að koma á fót löglegu spilavíti undir eftirliti og að slðikt sé skattlagt – í stað núverandi ástands þar sem fjárhættuspil eru neðanjarðar og án tekna fyrir ríkið. Afstaða bræðrana í því er ábyrg – ekki óabyrg eins og þú vilt gefa í skyn.

    Það er skortur á húsnæði á Þórshöfn. Þú ættir að kynna þér atvinnuástandið þar betur áður en þú geysist á þessum forsendum fram á ritvöllinn. Gott ástand á Þórshöfn er EKKI ný frétt.

    Valur.

    Það er ÖLL sveitarstjórnin sem stendur að samningnum um leiguna – einróma. Þannig það er ekki um flokkspólitík að ræða. Veit reyndar ekki hver er í meirihluta á Þórshöfn – en veit að fjármálaráðherra lýðveldisins er mjög ánægður með þetta framtak. Ekki er hægt að saka hann um að vera framsókn eða sjálfstæðismaður.

    Það er ekkert að því að DV fjalli um málið. Ég geri bara þá kröfu að DV geri það heiðarlega – og komi með ALLAR staðreyndir málsins – en setji það ekki fram með illfýsi.

  • Magnús Ásbjörnsson

    Frábær pistill. Þekki reyndar ekki þetta ákveðna dæmi, en þekki mörg hliðstæð. Það er góður bissness í því að kynda undir reiðina. Það skemmir líka fyrir samfélaginu. Því fyrr sem við hættum nornaveiðunum og að grafa undan náunganum, því fyrr náum við okkur upp á ný. Veit persónulega dæmi þess að fólk er ekki að leggja út í fjárfestingar sem gætu hjálpað til við að koma hagkerfinu af stað vegna þess að það vill forðast nornaveiðarnar.

    Skora svo á fólk að blogga undir fullu nafni.

  • Sigurður R. Kristinsson

    Sæll Hallur. Klippti þessar athugasemdir beint af vef DV og birti líka hér sem athugasemd við þín skrif. Vona að þetta skiljist samt sem áður. Kveðja SRK. Sem íbúi í Langanesbyggð og sveitarstjórnarmaður til margra ára þá get ég ekki annað en gert nokkrar athugasemdir við pistil Halls Magnússonar og ómaklegar árásir hans á blaðamann DV. Ég get engan veginn lesið út úr þessari grein að DV sé að ráðast að æru þeirra bræðra þó að það sé vissulega gert hér í athugasemdum við fréttina. Hinsvegar vekur blaðið athygli á undarlegum vinnubrögðum sveitarstjórnar Langanesbyggðar sem vísvitandi ákveður að auglýsa ekki fund í ágúst 2010 þar sem 104 milljóna fjárskuldbinding er ákveðin og fundargerðin verður sú eina af fundargerðum sveitarstjórnar sem ratar ekki í opinbera birtingu á heimasíðu sveitarfélagsins fyrr en nú í mars. Slík vinnubrögð vekja eðlilega tortryggni íbúa og á DV heiður skilinn fyrir að koma á framfæri staðreyndum sem viðkomandi sveitarstjórn hefði líklega átt að vera búin að kynna fyrir íbúum í ljósi þeirra upphæða sem um er að ræða. Til að setja hlutina í stærðarsamhengi þá jafnast þetta á við að borgarstjórn Reykjavíkur hefði á leynifundi og án útboðs samþykkt 2,8 milljarða leigusamning vegna 1620 nýrra íbúða. Ætli Halli Magnússyni þætti frétt í DV af því tilefni vera rætin tilraun til að selja fleiri eintök blaðsins?
    Hvort að 1500 kr. leiguverð pr.fm. er hærra eða lægra en í Reykjavík skiptir varla höfuðmáli,en það skiptir máli að verðið er 240% hærra en núverandi leiga á íbúðum sveitarfélagsins!
    Mér er kunnugt um að íbúðalánasjóður reynir að leigja út nýjar íbúðir á Egilsstöðum á 1100-1200kr.fm. án árangurs þrátt fyrir fjölbreyttari atvinnutækifæri en í Langanesbyggð. Það er hárrétt athugað hjá Halli að hér hefur atvinnuástand verið með ágætum um langa tíð en húsnæðisskorturinn er ýktur því hann tengist fyrst og fremst árstíðabundum skorpum í uppsjávarfrystingu, kennurum verður líklega auðveldara að koma í hús en oft áður því nokkrar íbúðir eru að koma á markað vegna flutnings aldraðra íbúa á dvalarheimili og í þjónustuíbúðir. Því er ekki hægt að taka undir að sveitarfélagið sé tilneytt í þessar vafasömu aðgerðir. Vafasömu segi ég því það liggur ljóst fyrir að sveitarfélagið þarf að greiða leiguna á hverri íbúð niður um 50þ.á mánuði að lágmarki, það þýðir 36 milljónir úr vasa útsvarsgreiðanda á leigutímabilinu miðað við að allar íbúðir leigist allann tímann. Til samanburðar má nefna að árið 2002 þótti sveitarstjórnarmönnum mjög sárt að þurfa að afskrifa 70 milljóna kröfu á félagslega kerfið vegna tapreksturs til fjölda ára. Þær 70 milljónir voru vegna 37 íbúða,sem betur fer hafa þær flestar verið seldar með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á rekstur sveitarfélagsins, því hlýtur það að teljast fréttnæmt að sama sveitarfélag sé tilbúið að fleygja milljónatugum út um gluggann vegna byggingar sex leiguíbúða.
    Með leiguniðurgreiðslunni er Langanesbyggð líka í vafasömum málum gagnvart einkareknu leigufélagi sem er fyrir á staðnum.
    Einnig ber að geta þess að í október var sveitarstjóra kynnt áform heimamanns um að byggja tvö einbýlishús til sölu eða leigu án aðkomu sveitarfélagsins.Þar sem leigusamningar við félagið V Laugavegur voru ekki frágegnir fyrr en í janúar þá hefði sveitarfélagið að minnsta kosti getað skoðað ódýrari lausnir í húsnæðismálum en því miður var því enginn áhugi sýndur. Þegar viðkomandi heimamaður áttaði sig á hvað sveitarfélagið hyggðist fyrir með niðurgreiðslu á leigu þá hætti hann eðlilega snarlega við.
    Í athugasemdum á eyjunni svarar Hallur því til að sveitarstjórnin hafi öll samþykkt leigusamninginn, því vil ég koma því á framfæri að ég hef verið í veikindaleyfi í sveitarstjórn frá upphafi kjörtímabils þar til í síðustu viku en ég hefði örugglega greitt atkvæði á móti honum og það án „illfýsi“ í garð Arnars og Bjarka eða nokkurra annarra hlutaðeigandi.
    Á eyjunni kemur líka fram hjá Halli að fjármálaráðherra lýðveldisins sé mjög ánægður með framtakið……ég er ekki búinn að gleyma hvað sami fjármálaráðherra var ánægður með „glæsilegan“ Icesavesamning hinn fyrsta, ég vona bara að íbúum Langanesbyggðar gangi jafn vel að koma þessum skuldaklöfum af herðum sér og þjóðinni að hrista það bull af sér , verst að geta ekki skotið málinu til Ólafs Ragnars 🙂

  • Takk fyrir upplýsingarnar, Hallur.

    Mér finnst það ekki beinlínis traustvekjandi að Íbúðalánasjóður fjármagni 80% af dæminu.
    Hvað situr sjóðurinn uppi með margar innleystar íbúðir, sem verða ekki seldar nema með verulegum afföllum, t.d. á Austurlandi.

    Lánveitendur hafa tapað milljörðum á svona leigufélögum, nýverið.
    Ef þetta er félagslegur stuðningur við Þórshöfn, þá á það að vera uppi á borðum.
    Ef þetta er spurning um að einkavæða gróðann og leggja tapið á skattgreiðendur, þá hlýtur að mega fjalla um málið.

  • Hallur Magnússon

    Einsi.
    Það er í samræmi við lög og reglugerðir að ÍLS fjármagni 80%. Viltu semsagt ekki að bætt verði úr sárri húsnæðisþörf á Þórshöfn?

  • Hallur Magnússon

    Sigurður R. Kristinsson.

    Ein einföld spurning áður en ég svara þér.

    Ertu að halda því fram að það sé ekki þörf á húsnæði á Þórshöfn?

    Ef svo er – þá þætt mér vænt um að þú rökstyðjir það.

  • Sigurður R. Kristinsson

    Hallur.
    Að ofan segi ég að húsnæðisskortur sé ýktur, hér er enginn húsnæðislaus, enginn ný hálaunastörf að verða til sem gætu réttlætt þessar framkvæmdir en eitt til tvö einbýlishús myndu líklega seljast eða leigjast án afskipta sveitarfélagsins.
    Áður en þú svara mér þá bið ég þig að rökstyðja eftirtaldar fullyrðingar þínar.

    1. „leigufélag þeirra sem leggur í upphafi og bindur eigið fé fyrir að lágmarki 20% framkvæmdakostnaðar – líklega um 30 milljónir í eigin fé “ Hvernig færðu út 150 milljóna byggingakostnað á tveim parhúsum á Þórshöfn þar sem lóðir eru fríar og engin gatnagerðargjöld í þessu tilfelli ??
    2. „Einnig að sveitarfélagið er einungis að tryggja leigugreiðslur – það þýðir ekki að sveitarfélagið greiði þessa fjármuni. Það eru leigjendurnir sem greiða leiguna.“
    Hefur þú trú á að þessar íbúðir leigist á 1500 kr.pr fermeter þegar leiga á íbúðum sem fyrir eru er 607kr. á fm. ?
    3. „Leigan er ekki mjög há. Hún er í lægri kanntinum miðað við raunverulegt leiguverð í Reykjavík – á sviðuðu róli og leiga í nýju húsnæði víðs vegar um landið.“
    Hvar á landsbyggðinni er húsnæði leigt út á þessu verði?
    Að lokum bið ég þig sem sérfræðing í húsnæðismálum að ráðleggja mér hvernig ég sveitarstjórnarmaðurinn, á að réttlæta það fyrir útsvarsgreiðendum sveitarfélagsins að þeir eigi að niðurgreiða leigu fyrir íbúa þessarra 6 íbúða .

  • Hallur Magnússon

    Af hverju telur öll sveitarstjórnin að það sé þörf á nýju húsnæði? Ertu að segja að allir aðrir en þú sem kjörnir hafa verið hafi rangt fyrri sér og þú rétt fyrir þér?

    Veit þú varst í veikindaleyfi – en einhvern veginn lítur þetta ekki vel út hingað suður heiða – en ég ætla ekki að halda fram að þú hafir rangt fyrir þér og hinir í sveitarstjórninni rétt fyrir sér. Hef ekki forsendur til að meta það héðan að sunnan – en á bágt með að trúa að sveitarstjórnin samþykki leigusamning ef ekki er þörf á húsnæði.

    Minni á að hún er lýðræðislega kjörin í lýðræðislegum kosningum og er hið rétta stjórnvald.

    Ýfir í tölusettu liðina.

    1. Byggingarkostnaður á Þórshöfn er ekki lægri en í Reykjavík. Með því að taka mið af viðmiðunarverðum Íbúðalánasjóðs vegna byggingarkostnaðar þá er getur kostnaður á bilinu 120 – 150 milljónir. Það gera 24 til 30 milljónir.

    Blaðamaður vill ekki að þetta framlag leigufélagsins komi fram – ekki frekar en að leigugreiðslurnar renna ekki í vasa leigufélagsins – heldur til greiðslu afborganna lána, fasteignagjalda, trygginga, annars rekstrarkostnaðar og eðlilega ávöxtun eigin fjár.

    Ekki gleyma að það er leigufélagið – þe. Arnar og Bjarki – sem tapar þessu fé – hvort sem það eru 20 milljónir – 25 eða 30 – ef illa fer. Ekki sveitarfélagið.

    2. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvert leiguverð mun verða. Bendi einungis á að það er EKKI rétt sem blaðamaður segir í undirfyrirsögn að verðið sé hærra en leiguverð í Reykjavík. Viltu vera svo vænn að segja mér hvernig þú færð að markaðsleiga á Þórshöfn sé 607 kr. á m2?

    3. Selfossi, Akureyri, Höfn, Grímsnesinu, Borgarfirðinum – svona sem dæmi.

    Ef sveitarfélagið þarf að niðurgreiða leigu í þessum 6 íbúðum – sem mér reyndar skilst að verði mögulega færri í leigufélaginu – það séu jafnvel kaupendur af einhverjum þeirra – þá er rökstuðningurinn einfaldlega sá að það er hagkvæmara til að tryggja húsnæði í húsnæðiseklu – en að binda 24 – 30 milljónir í eigin fé í leiguhúsnæði á staðnum.

    Ekki gleyma því að það er lagaskylda á sveitarfélaginu að tryggja íbúum sínum húsnæði. Það veistu sem gamall sveitarstjórnarmaður.

  • Hallur,
    það ætti að vera óþarfi að snúa út úr orðum mínum eins og þú nú hefur gert í tvígang.

    Það er mjög gleðilegt hvað atvinnuástandið er gott á Þórshöfn, og að þörf sé á fleiri íbúðum.

    Upplýsingarnar sem hafa komið fram gera mig, hinsvegar, ekki bjartsýnni á fjárhagslegur grundvöllur verkefnisins standist kröfur um eðlilega arðsemi.

    Ég ítreka, að ef þetta er félagslegur stuðningur við Þórshöfn, þá á það að heita því nafni. Engan feluleik, takk.
    .
    Tengist þú málinu sjálfur á einhvern hátt, Hallur?

  • Hallur Magnússon

    Einsi.

    Hvar var ég að snúa út úr orðum þínum? Það hef ég ekki gert. Ég hef hins vegar spurt þig spurninga.

    Hvar sérð þú félagslegan stuðning?

    Ég get tekið undir það að áhætta Arnars og Bjarka er nokkur – og ávöxtunarkrafa þeirra er væntanleg hófleg miðað við að um ákveðna áhættufjárfestingu er að ræða.

    Ég tengist málinu á þann hátt að ég starfaði hjá Íbúðalánasjóði í 8 ár – með 6 mánaða hléi 2003 þegar ég var lánaður í félagsmálaráðuneytið og 8 mánaða hléi 2006 þegar ég var fenginn í sérverkefni hjá norska Húsbankanum.

    Ég hef meðal annars verið að vinna í endurskipulagningu leigufélaga og vinnslu rekstraráætlana vegna þeirra. Þekki því mjög vel þetta umhverfi.

    Verð hins vegar að taka fram að meginástæða pistils mín er að varpa ljósi á sérkennilega blaðamennsku DV og ritstjórnarstefnu þess blaðs – sem því miður meðal annars byggir á ákveðinni illfýsi. Mér hefur – sem gömlum blaðamanni og handhafa blaðamannaskírteinis nr. 126 minnir mig – mislíkað þegar blaðið tekur þá nálgun á fréttir. Sem gerist í amk, einhverri frétt nánast í hverju blaði.

    Það er því tilviljun að fréttaflutningur af „Þórshafnarmálinu“ varð fyrsta dæmið sem ég tek. Ástæðan meðal annars að ég hef ágæta innsýn í það mál – og það blasti svo greinilega við að DV ákvað að taka EKKI fram mikilvægar hliðar málsins – enda hefði það skemmt fréttina.

    Bið þig því að lesa pistilinn minn aftur með þetta í huga.

  • Sigurður R. Kristinsson

    Hallur.
    Þú sakar DV um hálfsannleik og að sleppa staðreyndum en mér þykir þú falla í þá gryfju sjálfur með svörum þínum við tölusettum spurningum sem ég lagði fyrir þig.
    Við skulum renna yfir þær aftur.

    1. Hér fullyrðir þú að byggingakostnaður sé ekki lægri á Þórshöfn en í Reykjavík þrátt fyrir að ég hafi bent þér á fríar lóðir og engin gatnagerðargjöld á Þórshöfn.
    Ertu að gleyma staðreyndum?

    2.Hér segist þú ekki taka afstöðu til þess hvert leiguverðið muni verða, samt ertu búinn að því tvisvar samanber eftirfarandi;
    „Einnig að sveitarfélagið er einungis að tryggja leigugreiðslur – það þýðir ekki að sveitarfélagið greiði þessa fjármuni. Það eru leigjendurnir sem greiða leiguna.“
    „Tekjurnar eru leigutekjur. Sveitarfélagið ábyrgist ákveðnar leigutekjur í 10 ár. Ábyrgð þess er ekki meiri en það. Leigan er hins vegar greidd af leigjendum.“

    Leiguverð á Þórshöfn er hér að finna…http://www.langanesbyggd.is/article.php?id=2372

    3. Því miður er þetta ekki rétt hjá þér. Hér sérðu raunverulegt dæmi um leiguverð í nýjum íbúðum. http://meira.is/hus/nordurbakki_25
    Bryggjuhverfið í Hafnarfirði 1375kr á fm. Sýndu mér endilega verðdæmi frá stöðunum sem þú taldir upp.

    Ég hef engu gleymt varðandi lagaskyldu sveitarfélaga, í þessu samhengi eru stjórnsýslu og samkeppnislög mér ofar í huga.

    Ánægjulegt að heyra að einhverjar íbúðir séu þegar seldar, væri fróðlegt að heyra á hvaða verði?
    Enn fróðlegra væri að heyra hvers vegna þú ert betur upplýstur um samning og samskipti V laugavegs og Langanesbyggðar en velflestir íbúar sveitarfélagsins?

  • Hallur Magnússon

    1. Byggingarkostnaður er ekki lægri á Þórshöfn en í Reykjavík. En ef gefin eru eftir gatnagerðargjöld þá vegur það upp kostnað vegna flutninga aðfanga og fleira – hugsanlega gott betur.

    Á meðan byggingarkostnaður vegna verkefnisins liggur ekki fyrir opinberlega – þá er viðmið Íbúðalánasjóðs eðlilegt viðmið um byggingarkostnað.

    2. Leiga á félagslegu húsnæði sem byggt er með niðurgreiddu fjármagni frá Íbúðalánasjóði er ekki markaðsleiga. Til þess að njóra þeirra kjara þarftu að vera undir ákveðnum tekju og eignamörkum.

    Þess vegna spyr ég aftur. Hver er markaðsleiga á Þórshöfn?

    3. Þetta er víst rétt hjá mér. Hef verið að ganga frá leigu hjá leigufélögum á Völlunum í Hafnarfirði. Veit starfs míns vegnahver leigufjárhæð er hjá leigufélögum annars staðar. Hef ekki heimild til að leggja þau gögn fram – en mögulega er hægt að grafa það upp hjá sýslumanni.

    Fermetraverð leigu á stærra húsnæði er hlutfallslega lægra en á minna húsnæði. Það get ég líka sagt þér.

    Hvað áttu við með að ég sé betur upplýstur um samning og samskipti V Laugavegs og langanesbyggðar en velflestir íbúðar sveitarfélagsins. Lesa þeir ekki DV?

  • Sigurður R. Kristinsson

    Þetta verða mín lokaorð um málið og vil ég þakka þér og DV fyrir tækifærið til að koma efasemdum mínum opinberlega á framfæri .
    Í sömu númeraröð.

    1. Einn af traustari byggingaverktökum höfuðborgarsvæðisins
    metur byggingakostnað á íbúð 13-14 milljónir ef ekki þarf að greiða fyrir lóðir og gatnagerðargjöld. Ef það er rétt þá er raunverulegt eiginfjárframlag ekkert, eða hvað?

    2. Í leiguíbúðum sveitarfélagsins er enginn á félagslegum forsendum. Einkarekna leigufélagið sem ég hef áður nefnt leigir á sömu krónutölu svo þetta er markaðsverð.

    3. Hér er farið að bjóða þessar nýju íbúðir á innan við 1000kr. á fermeter og það er kjarni málsins að mínu mati. Hef alltaf staðið í þeirri meiningu að ekki mætti niðurgreiða húsaleigu nema fyrir þá sem eru undir tekju og eignamörkum.

    Þú virðist vera betur upplýstur því að færri íbúðir í leigufélaginu vegna sölu einhverra þeirra kemur ekki fram í DV.
    Gleðifréttir fyrir mig persónulega því ef einhver er að kaupa nýja 93fm. íbúð á verði sem dekkar 22-23 milljóna byggingakostnað þá hlýtur einbýlishúsið mitt að nálgast 40 milljónir í verði í stað þeirra 12 m. sem ég hef getað selt það á.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur