Sunnudagur 27.03.2011 - 12:21 - 4 ummæli

Landbúnaðarstofnun í Skagafjörð

Íslendingar þurfa að breyta stjórnsýslu landbúnaðarins óháð því hvort Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki. Ríkisendurskoðun hefur enn og aftur úrskurðað að núverandi fyrirkomulag gengur ekki. Því vil ég enn og aftur ítreka þá skoðun mína að opinberri landbúnaðarstofnun verði komið á fót og henni fundinn staður í Skagafirði.

Bændasamtökin geta þá einbeitt sér að framgangi íslensks landbúnaðar. Þess er þörf í aðildarviðræðum að Evrópusambandinu – og áfram þegar þeim er lokið – hvort sem þjóðin ákveður að ganga í Evrópusambandið eða ekki.

Ríkisendurskoðun segir eftirfarandi í skýrslu sinni:

„Alþingi og stjórnvöld hafa falið Bændasamtökum Íslands, sem eru hagsmunasamtök bænda, framkvæmd margvíslegra stjórnsýsluverkefna á sviði landbúnaðarmála og eftirlit með henni. Meðal annars taka samtökin ákvarðanir um opinberar greiðslur til bænda, annast útreikning þeirra og afgreiðslu. Einnig sinna samtökin ráðgjöf við stjórnvöld og fulltrúar þeirra sitja í nefndum sem taka ákvarðanir um landbúnaðarmál. Þá annast samtökin áætlana- og hagskýrslugerð um landbúnað…“ 

„Hingað til hefur ráðuneytið nýtt gögn og þekkingu um landbúnað sem Bændasamtökin búa yfir. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf ráðuneytið að tryggja að það hafi ávallt greiðan aðgang að upplýsingum um landbúnaðarmál, t.d. með því að stofnun á þess vegum afli og vinni úr slíkum upplýsingum. Þá telur Ríkisendurskoðun óæskilegt að samtökunum sé falið að gera hagskýrslur um landbúnað enda verði óhlutdrægni slíkra skýrslna að vera hafin yfir vafa…“

Núverandi fyrirkomulag gengur semsagt ekki. Það er engin ástæða til þess að halda þessari stjórnsýslu á malbikinu í Reykjavík – þá bera að flytja hana út á land – og þar er Skagafjörður rétti staðurinn.

Skagfirðingar hafa reynslu í rekstri opinberra stofnanna.  Stór hluti starfsemi Íbúðalánasjóðs fer fram á Sauðárkróki og gengið afar vel.  Þá er Byggðastofnun á Sauðárkróki – en ástæða slæmrar stöðu hennar er ekki staðsetningin – heldur efnahagslegt umhverfi.

Þá er mikil þekking og reynsla samanakomin í Landbúnaðarháskólanum á Hólum.

Ég treysti því að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra styðji þessa tillögu mína.

Fleiri pistlar um málið:

Landbúnaðarstofnun á Sauðárkrók

„ESB“ stofnun í Skagafjörðin

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Er ekki alveg eins gott að sameina hana KS, leyfa þeim bara að stinga skattpeningunum milliliðalaust í vasann.

    Langbest væri að leggja þessa stofnun niður ásamt öllu þessu spillingarkerfi sem Framsóknarmenn hafa barist svo hart til að viðhalda og svína þannig á íslenskum neytendum.

    Slæmt árferði er ekki ástæða þess að Byggðastofnun er á hausnum. Hún hefur alltaf verið á hausnum og það er rétt að staðsetningin skiptir ekki máli. Hugmyndafræðin á bak við hana er álíka vond og hugmyndafræðin á bak við landbúnaðarkerfið og Íbúðalánasjóð.

    Sambandið, Gift, landbúnaðarkerfið, Íbúðalánasjóður og Byðggðastofnun eru allt stofnanir / fyrirtæki sem hafa byggst á því að Framsóknarmenn eru að höndla með annarra manna peninga án þess að bera ábyrgð á nokkru. Allar þessar stofnanir eru gjaldþrota, sumar marggjaldþrota. Tilviljun?

  • Hallur Magnússon

    Dude.

    Verð að benda þér á að formaður Bændasamtakanna er Sjálfstæðismaður, landbúnaðarráðherran Vinstri grænn.

    Sambandið er ekki gjaldþrota – það er ennþá til. Íbúðalánasjóður er ekki gjaldþrota – en þarf verulegt framlag vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að færa íbúðalán niður í 110%.

    Gift fór illa í hruninu eins og tugir ef ekki hundruð annarra eignarhaldsfélaga.

    Byggðastofnun er eins og hún er.

  • Ég er alveg sammála þessari hugmynd og sé fyrir mér þær „win-win“ aðstæður til að hún verði að veruleika. En þá er það Blönduós í stað Skagafjarðar sem mun sjá um að greiða styrkina út.

    Svínavatnsleið er hagsmunamál fyrir norðlendinga sem vilja spara bensínpeninga. Húnvetningar og skagfirðingar hafa aftur á móti engan hag að því að leyfa þessa leið. Hér þarf því að brúa bilið og tilfærsla i landbúnaðargeiranum er kjörið mál til þess. Svínavatnsleiðin er fín gulrót til að vinna málið áfram.

  • Hvað með Hvanneyri, hvar Landbúnaðarháskólinn er? Það fyndist mér alveg kjörið, sé fyrir mér þétta samvinnu milli tveggja nátengdra stofnanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur