Fimmtudagur 31.03.2011 - 19:30 - 14 ummæli

Skilur Gnarr íslensku?

Í hugum flestra Íslendingar sem á annað borð skilja íslensku þá þýðir orðatiltækið  „að fara á hausinn“ það að verða gjaldþrota. Nema í huga Jóns Gnarr borgarstjóra. Hann neitaði því að hafa sagt að Orkuveita Reykjavíkur væri gjaldþrota.  En sannanlega sagði hann að Orkuveitan væri „á hausnum“.

Það liggur fyrir að ef Orkuveitan myndi nota hagnað sinn til að greiða niður ALLAR skuldir sínar – þá tæki það vel innan við 20 ár að gera Orkuveituna skuldlausa með öllu.

Það liggur fyrir að ef Orkuveitan hefði ekki greitt eigendum sínum arð frá stofnun 1999  – þá hefði Orkuveitan verið skuldlaus um mitt ár 2006 – þegar Alfreð Þorsteinsson hætti sem stjórnarformaður.

Það liggur fyrir að á árunum 2006-2008 var farið í gálausar fjárfestingar miðað við efnahagsástand – og stofnað til stuttra skulda – sem greiða þarf af í ár og á næstu tveimur árum. Það var væntanlega gert í trausti þess að eðlileg endurfjármögnun fengist.  Sem ekki varð vegna efnahagshrunsins.

Það liggur fyrir að meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn – þau Inga Birna og Óskar Bergs – sáu blikur á lofti í rekstri Orkuveitunnar og lögðu þvi til hliðar í varasjóð – sem nú er verið að grípa til – 12 milljarða vegna Orkuveitunnar.

Það liggur fyrir að Orkuveitan fékk afgreidd lán allan þann tíma sem Guðlaugur Sverrisson var stjórnarformaður Orkuveitunnar.

Það liggur fyrir að lánadrottnar Orkuveitunnar unnu með stjórnendum Orkuveitunnar að endurskipulagningu og endurfjármögnun Orkuveitunnar allt fram að stjórnarskiptum í janúar 2010.

Það liggur fyrir að nýir stjórnendur hættu samstarfi við lánadrottna og tóku til við að reka lykilfólk sem unnið hafði með lánadrottnum og óðu eins um eins og fílar í postulínsbúð á nokkrar vikur – á meðan lánadrottnar horfðu á aðfarirnar með forundrun – þangað til nýju stjórnendurnir föttuðuð að þeir þyrftu að vinna með lánadrottnum en gætu ekki hent þeim út í hafsauga eins og „gamla liðinu“ í OR.

Það liggur fyrir að það skapaðist aldrei traust á milli nýju stjórnendanna og lánadrottna.

Það liggur fyrir og er Detginum ljósara að lánadrottnar treystu ekki Jóni Gnarr og liðsins á þeirra vegum og enduuðu með því að loka á Orkuveituna.

Þegar það lá fyrir reynir Gnarrinn að vísa á fyrri stjórnendur vegna eigin klúðurs – og kemur í kjölfarið og nánast lýgur að alþjóð. Segist ekki hafa sagt að Orkuveitan væri gjaldþrota. Sem er rétt hjá honum. Hann sagði bara að Orkuveitan væri á hausnum.

Það skyldu lánadrottnar – þátt þeir ættu að skilja minna í íslensku en Jón Gnarr!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • reynir sigurðsson

    Já búin að ná þessu Jón Gnarr er sá sem rústaði orkuveituni .

    Og svona í framhjáhlaupi ég er búin að vera á kúpunni í áratugi en hef samt aldrei orðið gjaldþrota.

  • Hallur Magnússon

    Reynir.

    Nei, Jón Gnarr rústaði ekki Orkuveitunni. Það hef ég aldrei sagt. En hann hjálpaði smá til.

  • Eiríkur Rögnvaldsson

    Í þessu samhengi er ekki úr vegi að líta á skýringar Íslenskrar orðabókar. Þar stendur:

    fara á hausinn
    2 ‘verða gjaldþrota’

    vera kominn á hausinn
    ‘vera gjaldþrota’

    vera á hausnum
    2 ‘vera illa stæður, jafnvel gjaldþrota’

    Þetta er lykilatriði. Þótt „fara á hausinn“ merki ‘verða gjaldþrota’ getur „vera á hausnum“ merkt ‘illa stæður’ en þarf ekki að merkja ‘gjaldþrota’ – þótt það geti gert það. Tæpast er hægt að neita því að Orkuveitan sé illa stæð.

    Og af því að þér er greinilega í mun að fría Framsóknarflokkinn af vandanum þá er rétt að hafa í huga að Framsókn átti aðild að meirihluta borgarstjórnar allt síðasta kjörtímabil að undanskildum sjö mánuðum – 85% kjörtímabilsins.

  • Hallur Magnússon

    Eiríkur
    Mér er ekki í mun að fría Framsóknarflokkinn.
    Rétt skal hins vera rétt.

    Í fyrri pistlum mínum hef ég einmitt farið yfir þátt Framsóknarflokksins – ekki hvað síst mistök sem gerð voru á árunum 2006-2008.

  • Eiríkur Rögnvaldsson

    En það er samt varla tilviljun að þú nefnir Framsóknarflokkinn í tengslum við það sem þér finnst jákvætt en ekki í tengslum við „gálausar fjárfestingar“ á árunum 2006-2008 – þegar flokkurinn var líka í meirihluta í rúmlega hálft annað ár.

  • Sumir eins og ER seilast langt í orðskýringum til þess að réttlæta málstaðinn. Aðrir myndu kalla þetta orðhengilshátt en einmitt það er landlægur kvilli í íslenskri pólitík. Jón Gnarr er enginn stjórnvitringur og það veit hann sjálfur. Flestir vita að honum er stjórnað eins og brúðu í leikhúsi og ferst stjórnandanum oftast óhönduglega. Það skynja líka flestir, að enginn mun fagna brottför Jóns úr borgarstjórastólnum meir en hann sjálfur. Hann veit að pólitíkin er að stórskaða það sem hann metur mest en það er ferill hans í leiklistinni. Trúverðugleiki trúðsins er ekki samur og áður og svipbrigðin sem menn dáðu og elskuðu hafa misst glóðina og neistann.
    Svo eru til menn sem hafa Framsókn alltaf tiltæka ef eitthvað dúkkar upp sem miður er. En þá er rétt að minna á, að R-listinn var við völd í Reykjavík árin 1994 til 2006 þ.e. félagshyggjuflokkarnir Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Framsókn og Kvennalistinn og lengst af undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Kannski kemur þessi upprifjun sér illa fyrir suma en þá er að leita í Orðabók Menningarsjóðs og finna orðskýringar við hæfi.

  • „Það liggur fyrir að ef Orkuveitan myndi nota hagnað sinn til að greiða niður ALLAR skuldir sínar – þá tæki það vel innan við 20 ár að gera Orkuveituna skuldlausa með öllu.“

    Þetta er einhver stórskrítinn útreikningur. Hvernig í ósköpunum á að borga niður 240 milljarða skuldir + vexti á 20 árum með rekstararhagnaði upp á 5-6 milljarða á ári?

    Er þetta einhver framsóknarstærðfræði?

  • Eiríkur Rögnvaldsson

    Menn mega alveg saka mig um orðhengilshátt ef þeir vilja, en þegar verið er að væna menn um lygi þarf að gæta þess að fara rétt með og þá skiptir merkingamunur orða máli – jafnvel þótt einhverjum geti fundist hann smávægilegur. Ég var bara að benda á það sem ég hélt að flestir Íslendingar vissu – ekki bara Jón Gnarr: Að „vera á hausnum“ hefur miklu almennari merkingu en „vera gjaldþrota“ og merkir mjög oft (líklega oftast) „illa stæður“. Þetta geta menn auðveldlega séð með því að gúgla sambandið „er á hausnum“. Menn geta alveg gagnrýnt Jón Gnarr fyrir að tala óvarlega um fjárhag Orkuveitunnar, en það er óþarfi að væna hann um að ljúga þegar hann segist ekki hafa sagt að hún væri gjaldþrota. Það sagði hann ekki.

  • Hallur Magnússon

    @Sjóður

    „…Þetta þýðir að óbreyttum rekstrarskilyrðum á næstu árum að fyrirtækið mun geta greitt allar langtímaskuldir ínsar á 20 árum að því gefnu að ekki sé fjárfest…

    …Kjarni málsins er sá að erlendir fjárfestar hafa engu tapað á Orkuveitunni og munu engu tapa, jafnvel þótt engar breytingar væru gerðar á núverandi rekstri…

    …Það gengur ekki láta að því liggja að reksturinn sé vandamálið; það eru ósannindi. Tölur fyrirtækisins í ársreikningi segja aðra sögu …“

    Úr grein Stefáns Svavarssonar endurskoðanda „Er verið að segja okkur satt um Orkuveituna?“ Mbl. 31. mars 2011, bls. 19

  • Hallur Magnússon

    Er verið að segja okkur satt um Orkuveituna?
    Eftir Stefán Svavarsson

    Eftir Stefán Svavarsson: „Það gengur ekki að láta að því liggja að reksturinn sé vandamálið; það eru ósannindi.“

    Því er nú haldið fram af forráðamönnum Orkuveitunnar að hún sé á vonarvöl og við það að fara á hliðina. Hvað gengur mönnum til með tali af þessu tagi, sérstaklega í ljósi þess að það er í engu samræmi við þann fróðleik sem nýsamþykktur ársreikningur fyrirtækisins fyrir árið 2010 veitir? Þar má að vísu sjá einhverjar blikur á lofti í lausafjárstöðu fyrirtækisins, en það er hvergi nærri svo að sú staða ætti að leiða til þess að fyrirtækið standi frammi fyrir gjaldþroti og grípa þurfi í óðagoti til sérstakra ráðstafana. Það skyldi þó ekki vera að sú óheillakráka sem pólitíkin er spili hér einhverja rullu? Samkvæmt rekstrarreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2010 nam rekstrarhagnaður án afskrifta (ebitda) 14 milljörðum króna. Þá kemur ennfremur fram að vaxtagjöld hafi numið 4 milljörðum króna. Það þýðir að fé úr rekstri nam 10 milljörðum króna til að standa undir greiðslu afborgana og fjárfestingar en nam 7 milljörðum króna árið á undan. Sama niðurstaða birtist í yfirliti um sjóðstreymi en það sýnir að reksturinn skilaði handbæru fé að fjárhæð 11 milljarðar króna en 8 milljörðum króna fyrir árið á undan. Þetta þýðir að óbreyttum rekstrarskilyrðum á næstu árum að fyrirtækið mun geta greitt allar langtímaskuldir á rúmlega 20 árum að því gefnu að ekki sé fjárfest (það er að vísu óraunhæf forsenda því einhver viðhaldsfjárfesting er nauðsynleg en falla mætti frá nýfjárfestingu um sinn). Varla er það slæm staða fyrir fyrirtæki sem er í langtímarekstri.
    Tilkynnt hefur verið að fyrirtækinu verði því aðeins bjargað að eigendur leggi fram 12 milljarða króna, hafin verði eignasala (vonandi ekki á tekjuaflandi eignum) og gjaldskrá fyrirtækisins verði hækkuð svo um munar. Þá er ótalið að nú þegar er búið að ráðast í lækkun á rekstrarkostnaði með því að segja upp starfsfólki í stórum stíl og ef til vill stendur meira til í þeim efnum. Auðvitað er það gott og gilt að reyna að lækka rekstrarkostnað, ef það er hægt, og ef til vill er það svo að ekki sé komin fram öll sú hagræðing sem að var stefnt við sameiningu veitufyrirtækja borgarinnar á sínum tíma. Það er jú gömul og ný saga, sérstaklega í opinbera geiranum, að hagræði af sameiningu getur tekið langan tíma að hirða.

    Hins vegar er aldeilis fráleitt að sú rekstrarmynd sem dregin var upp hér að framan kalli á þessar aðgerðir.

    Samkvæmt efnahagsreikningi nema langtímaskuldir fyrirtækisins um 225 milljörðum kr. sem felur í sér hækkun fyrir áhrifum gengisbreytinga þannig að lánin hafa nærfellt tvöfaldast í krónum talið frá því ráðist var í þær fjárfestingar sem lánin tengjast og forsendur því allt aðrar en miðað var við í upphafi. Vissulega eru þetta miklar skuldir en því fer víðs fjarri að núverandi rekstur að óbreyttu geti ekki borið þær. Það má vel vera að nú um stundir eigi fyrirtækið í erfiðleikum með að endurfjármagna afborganir (17 milljarðar króna skv.

    samningum á árinu 2011), sem falla til á næstu mánuðum en það þýðir ekki að fyrirtækið sé gjaldþrota eða að það hafi siglt í strand. Málið er, að þeir erfiðleikar lúta ekki að grunnstoðum í fyrirtækinu sjálfu; þær eru styrkar. Þess í stað stafa þeir erfiðleikar fyrst og fremst af ástandi mála almennt á Íslandi í framhaldi af hruni bankanna á árinu 2008 og afleiðingum þess. Allir erlendir bankar eru á varðbergi gagnvart íslenskum aðilum. Hvernig á annað að vera, þegar til þess er litið að þeir hafa tapað mörg þúsund milljörðum króna á samskiptum við landið? Lái þeim hver sem vill þó að þeir fari varlega í samskiptum við íslensk fyrirtæki.

    Kjarni málsins er sá, að erlendir kröfuhafar hafa engu tapað á Orkuveitunni og munu engu tapa, jafnvel þótt engar breytingar væru gerðar á núverandi rekstri. En nú á að grípa til róttækra aðgerða, væntanlega að kröfu erlendra aðila, til þess að skipa rekstrinum og fjármögnun fyrirtækisins þannig að lágmarka áhættu þeirra. Nýtt eigið fé, sala eigna og gjaldskrárhækkun er lausnin. En nú er spurt: Hefur stefna verið mótuð um það hvernig rekstrarhættir verða í framhaldinu með hliðsjón af endurgreiðslum af lánum? Um hvað á að semja? Er nýjan stefnan sú, að stefnt verði að því að tekjuafgangur verði svo myndarlegur að unnt verði að greiða öll lán til baka á næstu 5-10 árum? Frá þessu þarf að skýra.

    Rannsóknarnefnd Alþingis lagði áherslu á að bæta þyrfti samskipti borgaranna við stjórnvöld og gagnsæi í þeim samskiptum ætti að vera meginviðmiðið. Er það í anda hinnar nýju gagnsæisstefnu að bera það ekki undir borgarbúa að þeir eigi nú að borga orkureikninga sem rugla svo um munar kynslóðajöfnuðinn sem þarf að vera í greiðslu fyrir orku? Það skiptir máli að borgaryfirvöld skýri satt og rétt frá stöðu Orkuveitunnar og hver vandinn er sem við er að etja og af hverju hann stafar. Það gengur ekki að láta að því liggja að reksturinn sé vandamálið; það eru ósannindi. Tölur fyrirtækisins í ársreikningi segja aðra sögu og hryllingssögur (var það kannski grínsaga?) um yfirvofandi gjaldþrot eru uppspuni og vaknar þá spurning um hvort þær séu settar fram af annarlegum hvötum. Sannleikurinn er auðvitað sá að engum alvöru bankamanni dytti í hug að krefjast gjaldþrots vegna hnökra í endurfjármögnun, enda væri það vísasta leiðin til að tapa miklu fé og að ástæðulausu, þegar til þess er litið hversu traustur reksturinn er í raun skv. síðasta ársreikningi.

    Höfundur er endurskoðandi

  • stefán benediktsson

    Nafni minn er bara að segja það sem Gnarrinn er að segja:“að nú um stundir eigi fyrirtækið í erfiðleikum með að endurfjármagna afborganir (17 milljarðar króna skv.
    samningum á árinu 2011), sem falla til á næstu mánuðum en það þýðir ekki að fyrirtækið sé gjaldþrota eða að það hafi siglt í strand. Málið er, að þeir erfiðleikar lúta ekki að grunnstoðum í fyrirtækinu sjálfu“ ÞAÐ HEFUR HELDUR ENGINN SAGT; „þær eru styrkar.“ ALLIR SAMMÁLA , EFTIR FIMM ÁR ERUM VIÐ Á GÓÐRI SIGLIGU Á LYGNUM SJÓ, VERÐUM BARA ALLTAF AÐ PASSA ARÐSEMINA.
    „stafa þeir erfiðleikar fyrst og fremst af ástandi mála almennt á Íslandi í framhaldi af hruni bankanna á árinu 2008 og afleiðingum þess. Allir erlendir bankar eru á varðbergi gagnvart íslenskum aðilum. Hvernig á annað að vera, þegar til þess er litið að þeir hafa tapað mörg þúsund milljörðum króna á samskiptum við landið? Lái þeim hver sem vill þó að þeir fari varlega í samskiptum við íslensk fyrirtæki.“ EINKUM VIÐ FYRIRTÆKI SEM ÞEIR GREINILEGA ÞEKKTU BETUR EN FYRRI FLTR. EIGENDA. ANNARS HEFÐU LÁNIN VERIÐ LÖNGU KOMIN OG OR HEFÐI EKKI ÞURFT AÐ LIFA Á OFURDÝRRI LÁNALÍNU LANDSBANKANS.

  • Stefán A

    Að vera kominn á þann stað að vera gjaldþrota þíðir að öll sund eru lokuð. Allt búið, ekki meira gert.

    Orkuveitan selur mér heitt vatn og rafmagn. Það er afar erfitt að komast hjá því að versla við fyrirtækið. Þetta er ekki eins og að fara út búð og velja kók eða pepsi. OR hefur neytendur í hendi sér og getur hækkað gjaldskrána töluvert mikið án þess að gera annað en að valda neytendum nokkrum pirringi. Hún er því ekki gjaldþroti í þeim skilningi að öll sund séu lokuð en hún er á hausnum í augnablikinu uns búið er að grípa til viðeigandi ráðstafana. Gnarrinn hitti naglann á höfuðið. 🙂

  • Mr. Crane

    EBITDA Orkuveitunnar er 14 milljarðar. Skuldir ca 220. Þetta þýðir að OR skuldar 15 falda EBITDA. Enginn heilvita banki lánar fyrirtæki sem skuldar svona mikið. Yfirleitt setja bankar skilyrði um að skuldir fari ekki umfram 4-5 falda EBITDA.

    Það er leitt að segja það en Stefán Svavarsson er út á þekju í þessu máli. Hann hefur skrifað álíka vitleysu um Landsvirkjun sem er líka yfirgengilega skuldsett fyrirtæki. Þar er vandamálið jafnvel erfiðara þar sem ávöxtunarkrafan sem gerð hefur verið á framkvæmdir er allt of lág og orkuverðin þegar föst. Það sem gæti reddað LV er að álverð haldist áfram eins hátt og það hefur verið.

    Það eru tvær leiðir mögulegar hjá Orkuveitunni. Annað hvort þarf að minnka skuldirnar með samningum við lánardrottna eða auka EBITDA fyrirtækisins. Fyrri möguleikinn er líklega algjörlega ófær þar sem lánveitendur munu kalla inn ábyrgðina frá sveitarfélögunum ef á þarf að halda. Þá er leiðin sem Gnarr og co er að fara eftir. Hún snýst um að auka rekstrarhagnað fyrirtækisins og það verður bara gert með kostnaðaraðhaldi og gjaldskrárhækkunum.

    Stjórnmálaflokkarnir bera allir ábyrgð á OR. Framsókn kannski mesta þar sem Alfreð Þorsteinsson skildi fyrirtækið eftir útbólgið í allskonar rugli.

  • Sigþór

    „Nei, Jón Gnarr rústaði ekki Orkuveitunni. Það hef ég aldrei sagt. En hann hjálpaði smá til.“

    Það mætti halda að þú værir 5 ára. Því ertu að eyða orku þinni í að skrifa um þann sem á bara smá hlut að fallinu? Því skrifar þú ekki um þá sem raunverulega settu þetta fyrirtæki á hausinn?

    Reykvíkingar gætu raunverulega tapað þessu gulleggi sínu og þú ert að rausa um tækniatriði í staðin fyrir að ræða raunveruleikan???

    Þú ert alveg glær hallur, það er engin að kaupa þetta raus í þér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur