Miðvikudagur 20.07.2011 - 13:22 - 5 ummæli

Samvinnufélög lausn í húsnæðismálum

Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við fyrirkomulag leiguíbúðalána Íbúðalánasjóðs. Stjórnvöld hafa 6 vikur að bregðast við athugasemdunum. Stjórnvöld hafa lausnin í höndum og hafa haft hana í höndum rúmt ár – en lausnin kemur fram í skýrslu vinnuhóps „Húsnæði fyrir alla“.
Þar er ekki lögð til leið sértæks félagslegs húsnæðis eins og því miður virðist vera nánast trúarbrögð margra innan ríkisstjórnarflokkana.
 
Af þessu tilefni endurbirti ég pistil um húsnæðismál sem ég ritað fyrr í vetur – og á vel við nú þegar ESA hefur tekið stjórnvöld á beinið:
Leið sértæks félagslegs leiguhúsnæðis er óþörf.  Þörfinni er unnt að mæta innan húsnæðissamvinnufélaganna.
 
Búseti, Búmenn og fleiri húsnæðissamvinnufélög hafa fest sig í sessi á Íslandi með búseturéttarfyrirkomulagi sínu. Húsnæðissamvinnufélögin hafa verið mikilvægur hlekkur í húsnæðismálum á Íslandi og gætu orðið lykillinn að farsælli framtíðarlausn.
 
Húsnæðissamvinnufélög sem reka bæði búseturéttarhúsnæði og leiguhúsnæði gætu orðið kjarninn í húsnæðisstefnu stjórnvalda á næstu árum. Þannig hefðu landsmenn val um þrjár raunhæfar leiðir í húsnæðismálum, hefðbundna leið eigin húsnæðis, búseturéttarleið og leiguleið.
 
Krafa ESA um takmörkun á íbúðalánum með ríkisábyrgð

Ljóst er að breytingar þarf að gera á núverandi fyrirkomulagi lánveitinga Íbúðalánasjóðs vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Eftirlitsstofnun EFTA – ESA – hefur gert athugasemdir við að Íbúðalánasjóður veiti öllum búsettum á Íslandi ríkistryggt grunnlán til íbúðakaupa óháð efnahag og stærð húsnæðis. ESA hefur kallað eftir takmörkunum. ESA leggur íslenskum stjórnvöldum ekki til regluverk – heldur kallar eftir tillögum Íslendinga.

Lán til húsnæðissamvinnufélaga gjaldgeng

Íslenskum stjórnvöldum er heimilt samkvæmt EES samningi að veita húsnæðissamvinnufélögum íbúðalán með ríkisábyrgð og veita húsnæðissamvinnufélögum sértæka ívilnun. Því gætu stjórnvöld einskorðað sérstækan stuðning í húsnæðismálum við húsnæðissamvinnuformið. Þar með talin lán með ríkisábyrgð.

Stuðningur við eignarformið og við almenn leigufélög verði almennur í formi húsnæðisbóta sem taki mið af stöðu hvers og eins, efnahagslegri og eftir fjölskyldustærð.

Leiguleið innan húsnæðissamvinnufélaga

Markmiði stjórnvalda um eflingu leigumarkaðar er einfalt að ná innan vébanda húsnæðissamvinnufélaga. Ekkert er því til fyrirstöðu að húsnæðissamvinnufélög bjóði upp á leiguhúsnæði samhliða búseturéttarhúsnæði. Sértækur stuðningur ríkisins til uppbyggingar leiguhúsnæðis verði þá til húsnæðissamvinnufélaga en ekki almennra leigufélaga.

Félagslegar lausnir innan húsnæðissamvinnufélaga

Stjórnvöldum er í lófa lagið að ná fram félagslegum lausnum í húsnæðismálum innan húsnæðissamvinnufélaganna. Sveitarfélög geta lagt félagslegt húsnæði sitt inn í húsnæðissamvinnufélög og öðlast yfirráð yfir búseturétti í takt við framlag sitt. Sama máli gegnir um félagasamtök eins og Öryrkjabandalagið.

Sveitarfélög og félagasamtök geta einnig átt þátt í uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaganna og bætt við sig búseturéttum sem skjólstæðingar sveitarfélaganna geta fengið leigt á félagslegum kjörum og síðan keypt þegar þeirra félagslegu aðstæður breytast til batnaðar.

Leið sértæks félagslegs leiguhúsnæðis er óþörf.  Þörfinni er unnt að mæta innan húsnæðissamvinnufélaganna.
Félagslegar kvaðir á húsnæðissamvinnufélaga

Á grundvelli sértæks stuðnings stjórnvalda við húsnæðissamvinnufélögin geta stjórnvöld sett ákveðnar félagslegar kvaðir á húsnæðissamvinnufélögin. Til að mynda að ákveðið hlutfall húsnæðis taki mið af þörfum hreyfihamlaðs fólks. Það hefur húsnæðissamvinnufélagið Búmenn reyndar alltaf haft að leiðarljósi.

Stórheimili húsnæðissamvinnufélaga

Lausnir á borð við stórheimili Búmanna í Vogum henta vel víða um land. Stjórnvöld og sveitarfélög geta stutt við uppbyggingu slíkra stórheimila með sértækum aðgerðum. Hugmyndin byggir á því að tengja saman íbúðaálmur við þjónustukjarna. Íbúar og sveitarfélög eiga búseturétt og greiða rekstrarkostnað tengdum sínum eignum.

Húsnæðissamvinnufélög sem úrlausn í skuldamálum

Húsnæðissamvinnufélög geta hæglega orðið mikilvægur hlekkur í úrlausn í skuldamálum heimilanna. Æskilegt er að gefa þeim heimilum sem það kjósa að í kjölfar skuldaniðurfærslu í 110% að leggja húsnæði sitt inn í húsnæðissamvinnufélög og eignast búseturétt. Einnig að húsnæðissamvinnufélögin taki yfir húsnæði sem Íbúðalánasjóður eignast. Útfærsla á slíku fyrirkomulagið liggur fyrir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hallur !

    ramsóknarflokkurinn er búin að stýra ÍLS í mörg ár. Niðurstaðan af því er gjaldþrot ÍLS. Komin tími að þú farir að sætta þig við það. Þetta Framsóknar hjal þitt er broslegt svo ekki sé nú meira sagt.

  • Framasóknarflokkurinn á að standa þarna í upphafi ….

  • a.b@simnet.is

    Hallur

    Allar hugmyndir eru góðar og blessaðar, svo langt sem þær ná.
    En, því miður er athugasemd Blogga, alveg rétt.
    Helsta vandamál húsnæðismarkaðarins er ekki skortur á lausnum.
    Helsta vandamálið er að húsnæðismarkaðurinn hefur alltaf verið eyðilagður með aðgerðum „hagsmunahópa“ og núna í seinni tíð (og líklega alltaf), bankanna.
    Fjársterkir aðilar hafa hér, alltof mikil völd og áhrif, þannig að eðlilegur markaður sem byggist á framboði og eftirspurn, hefur aldrei (og mun líklega aldrei), fengið að þróast á Íslandi.
    Þetta á reyndar við um svo margt annað hér á landi að það er í reynd skelfilegt að hugsa til þess að hér eyddi maður bestu árum ævinnar.

  • Jón Ólafs.

    Gaman væri að vita hvað þurfi að borga fyrir 3. herbergja íbúð hjá Búseta og Búmönnum, húsnæði fyrir alla er nokkuð sem allir geta tekið undir, nema ef vera skyldi einhver hluti Alþingismanna.

  • Hallur Magnússon

    Bloggi.

    Takk fyrir færsluna. Gefur mér tækifæri til að leiðrétta misskilning. ÍLS var eina alvöru fjármálafyrirtækið sem fór EKKI í hausinn við hrunið. Bara alls ekki!

    Meira að segja Seðlabandkinn – sem á stóran þátt í hruninu -fór á hausinn.

    Ákvörðun ríkisstjórnarinnar að dæla peningum inn í ÍLS til að standa undir 110% niðurfærslunni er allt annað mál – og kemur gjaldþroti ekkert við,.

    Eini opinberi íbúðalánasjóðurinn sem hefur farið á hausinn var gæluverkefni Jóhönnu Sig. – Byggingarsjóður verkamanna – en hann var gjaldþrota árið 1998 sem nemur hátt í 40 milljarðarða á núvirði.

    Byggingarsjóður verkamanna fjármagnaði félagslegt húsnæði landsmanna – en það er sú leið sem J’ohanna og fleiri vilja fara núna. Aftur 40 milljarða eða hærra gjaldþrot í boði Jóhönnu á kostnað skattgreiðenda eftir nokkur ár?

    Ekki gleyma því að ein meginástæða þess að Íbúðalánasjóður var settur á fót – en Húsnæðisstofnun ekki endurskipulögð – var einmitt að að óbreyttu hefði Húsnæðisstofnun verið komin á hausinn árið 2001 – vegna Byggingarsjóðs verkamanna.

    a.b.

    Nokkuð til í þessu með skemmdarverk hagsmunasamtaka.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur