Föstudagur 23.09.2011 - 07:51 - 4 ummæli

Rétt hjá ríkisstjórninni

Það er rétt leið og hagkvæm hjá ríkisstjórninni að fjármagna byggingu hjúkrunarheimila með lánum frá Íbúðalánasjóði hvað sem ríkisendurskoðandi segir.  Sú leið tryggir lægstu mögulega vexti vegna byggingar hjúkrunarheimila, styrkir skuldabréfasafn Íbúðalánasjóðs og skilar sér í lægri vöxtum húsnæðislána til almennings í landinu.

Því ríkistryggður Íbúðalánasjóður með stórt og öflugt lánasafn sem veðsett er „kollektívt“ í stórum hluta íbúðarhúsnæðis og í húsnæði hjúkrunarheimila víðs vegar um landið er tryggari lánveitandi en ríkið eitt og sér – svo einkennilega sem það hljómar í fyrstu.

Þá einfaldar þessi leið breytingu á rekstrar og eignarformi hjúkrunarheimila ef menn vilja breyta því í framtíðinni. Það er ekkert sem segir að ríkið vilji ekki flytja reksturinn til sveitarfélaga, samvinnufélaga, sjálfseignarfélaga eða einkaaðilja í framtíðinni.

Möguleikinn á lánveitingu úr Íbúðalánasjóði gerir slíkum aðiljum sem vilja reka hjúkrunarheimili utan ríkisrekstrarins kleift að byggja upp hjúkrunarheimili sem mikill skortur er á – og þannig hraðað nauðsynlegri uppbyggingu sem við verðum að fara í hvort sem okkur líkar betur eða verr. Því þjóðin mun halda áfram að eldast og þarfnast hagkvæmt rekinna hjúkrunarheimila.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Það getur vel verið að fjármögnunarleiðin sé í lagi en það sem Ríkisendurskoðun er að gagnrýna er að ekki er farið með þetta eins og aðrar ríkisfjárfestingar. Þ.e. í stað þess að færa þetta í ríkisreikninginn í samræmi við útstreymi fjár í verkefnið er gjaldfærslunni frestað þangað til síðar. Þannig stundar ríkisstjórnin bókhaldsfiff og fegrar þannig ríkisreikninginn. Það er eins og mig minni að einhverjir í ríkisstjórninni hafi sakað bankana fyrir hrun að stunda álíka vinnubrögð…

    Fjármögnunarleiðin er reyndar arfavitlaus, ef maður hugsar aðeins um það. Kjör ÍLS á markaði hafa ekkert með eignasafnið að gera. Þau stjórnast af kjörum ríkisins sjálfs. Því er þetta líklega bara rétt hjá Ríkisendurskoðun. Eina ástæðan fyrir því að ÍLS er að fjármagna er líklegast til að fegra afkomu Ríkissjóðs.

  • Hallur Magnússon

    Dude.

    Víst hafa kjör ÍLS með skuldabréfasafnið að gera. Annars vegar ríkisábyrgðin og hins vegar allsherjarveð í greiðsluflæði allra lána Íbúðalánasjóðs sem eru veðsett í lunganum af íbúðarhúsnæði landsins og til viðbótar hjúkrunarheimilunum – gera íbúðabréfin vænlegri fjárfestingarkost en hrein ríkisskuldabréf.

    Greiðslufall ríkisins hefur ekki áhrif á greiðsluflæði Íbúðalánasjóðs til eigenda íbúðabréfa en verður til þess að eigendur ríkisskuldabréfa fá ekki greitt.

    Stöðvun greiðsluflæðis til Íbúðalánasjóðs frá lántakendum stöðvar ekki greiðsluflæði til eigenda íbúðabréfanna þar sem ríkið tryggir greiðslur með ríkisábyrgðinni.

    Það er semsagt tvöföld trygging á íbúðabréfunum – en einföld á ríkisskuldabréfunum.

    Til viðbótar verður að hafa í huga að skipulag ríkisútgáfu er þannig að ríkið sjálft sér um útgáfu á styttri endanum – en ríkisfyrirtækið Íbúðalánasjóður á lengri endanum. Það var meðvitað gert.

    Þá er stórhættulegt að líta á uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila sem eingöngu ríkisframkvæmd.

  • @ færsla Halls nr 2 hér að framan. Afar athyglisvert að lesa þetta með að HFF ríkistryggð skuldabréf Íbúðalánasjóðs eru með tvöfaldri ábyrgð eins og Hallur segir. Fyrst er ábyrgðin fólgin í veði og greiðsluflæði frá nánast öllu íbúðarhúsnæði á landinu en síðan er ríkisábyrgð þar ofan á.
    Maður skilur ekki þegar þetta er langt svona niður fyrir manni að þessi HFF bréf séu ekki öll löngu uppseld eða eru þau það e.t.v. ?

  • Hallur Magnússon

    Þau eru löngu uppseld 🙂

    Ganga reyndar kaupum og sölum á eftirmarkaði – enda tryggustu skuldabréf sem þú getur fengið á Íslandi. Tala nú ekki um í verðbólgu!

    Það hefur aldrei verið vandamál að selja þau – þrátt fyrir efnahagserfiðleikana – en það er alltaf spurning með ávöxtunarkröfuna. Ef hætta hefði verið á greiðslufalli Íbúðalánasjóðs – sem ekki var – þá hefði sjóðurinn geta gefið út íbúðabréf til að styrkja lausafjárstöðun. „Framlag“ ríkissins til Íbúðalánasjóðs – sem fyrst og fremst var vegna ákvörðunar um 110% leiðina – var óþarft. En fínt fyrir sjóðinn að fá slíkt beint ríkisframlag – og styrkir hann enn frekar gagnvart fjárfestum sem sjá að ríkið mun standa við ríkisábyrgðina!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur