Fimmtudagur 20.10.2011 - 22:48 - 10 ummæli

Hin heilögu hreindýr

Ég fann verulega til með hreindýratörfunum tveimur sem hanga saman á hornunum í víraflækju austur í Flatey á Mýrum. Sá þá berjast hatrammlega á mánudagskvöldið þegar við félagarnir vorum að undirbúa gæsaveiðar í rokinu á gullnum ökrunum undir björtum skriðjöklunum við Hornafjörð. Við höfðum samband við hreindýraeftirlitsmanninn og létum vita – en fengum þau svör að tarfarnir hefðu verið hangandi saman í víraflækjunni „í einhverja daga“.

Eftir árangursríka gæsaveiði á þriðjudeginum litum við á hreindýrahjörðina sem var á friðsamri beit á sléttunum við Flatey og fundum hreindýrstarfana tvo – ennþá hangandi saman á hornunum – hættir að slást en reyndu máttfarnir að bíta gras með ekkert allt of góðum árangri.

Ákváðum nú að síma til Umhverfisstofnunnar. Takmörkuð viðbrögð. Tarfarnir skyldu áfram hanga saman á hornunum.

Okkur var ekki alveg sama – en héldum þó með gæsafenginn upp að Smyrlabjörgum þar sem við höfðum gist við góðan kost.

Ég fattaði svo í morgun af hverju enginn á Hornafirði vill nálgast hreindýrin tvö. Las nefnilega um ríkissaksóknara sem hefur ákært lögregluþjón á Hornafirði fyrir að hafa fellt skaddað hreindýr sem sat fast í girðingu austur í Lóni.

Lögregluþjónninn batt endi á þjáningar dýrsins þótt hann væri á frívakt – enda búið að skera fjárframlög og vinnu lögreglunar niður við trog – með skotvopni í eigu lögregluembættisins – og það sem verra var í augum ríkissaksóknara – ók á lögreglubifreið austur yfir Almannaskarð og það á frívakt! 

Ofan í kaupið þá gróf lögreglumaðurinn ekki hræið af hreindýrinu í jörðu með húð og hári – heldur ákvað – fyrst það varð að aflífa dýrið – að taka með sér hryggvöðva sem annars hefðu rotnað í jörðu í lögreglunnar nafni!

Fyrir þennan stórglæp hefur ríkissaksóknari dregið lögreglumanninn á frívaktinni fyrir dóm.

Á meðan þorir enginn Hornfirðingur að snerta tvo hreindýrstarfana tvo sem berjst fyrir lífi sínu hangandi saman á víraflækju.

Mér sýnist að óbreyttu að tarfarnir tveir muni veslast upp af hungri – í boði ríkissaksóknara.

Hreindýrstarfar fastir saman í víraflækju á hornunum. Mikil átök.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Leifur A. Benediktsson

    Ég myndi nú halda Hallur, að dýralæknir með rænu gæti skotist og fengið góða skyttu til að skjóta svæfingarlyfi í tarfana tvo og losað þá við flækjuna.

    Hvað er málið? Eru allir sofandi þarna fyrir austan?
    Er báknið steinsofandi?

  • Siggeir F. Ævarsson

    Ertu vitlaus maður? Veistu hvað slík aðgerð myndi kosta! Það fæst aldrei fjárlagaheimild fyrir svona bruðli.

  • Sveinn H Friðriksson

    Fóstur faðir minn tók sér þetta bessaleyfi hér á höfn að skjóta hreindýr sem var illa sært og átti bara eftir að drepast , en þar sem einn hreindýra eftirlitsmaðurinn vissi af dýrinu og vissi að það var sært og gerði hann ekkert í því heldur kærði hann fósturfaðir minn fyrir verknaðin, og hann fékk líka kæruna á sig og byssan tekin af honnum , þannig að það er dýrt spaug að reyna að vera góðhjartaður í sér til að aflífa dýr sem bíður eftir því að drepast og sértaklega ef það er hreindýr

  • Einar Jörundsson

    Þetta hljómar ekki vel. Í fyrsta lagi finnst mér í meira lagi undarlegt ef hreindýraeftirlitsmaður bregst fálega við tilkynningu um dýr í sjálfheldu. Í öðru lagi hlýtur að vera misskilningur að ekki megi aflífa dýr við þessar aðstæður og í þriðja lagi veit ég sem dýralæknir og dýravinur að peningar eru ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar fréttir berast af dýrum sem standa bjargarlaus og dauðans matur.

    Hinsvegar er auðvitað undarleg stjórnsýsla ef fárast er yfir því að góðhjartað fólk aflífi dýr við slíkar aðstæður. Það hefið nú einhvern tíman þótt glæpsamlegt að nýta ekki kjöt af skepnum sem aflífa verður sökum sjálfheldu eða slysa.

    Að lokum má nefna að dýraverndarmál eru í dag á hendi Umhverfisstofnunar en opinberir dýralæknar heyra undir ráðuneyti Jóns Bjarnasonar. Slíkt fyrirkomulag gerir stjórnsýsluna sannarlega ekki auðveldari viðfangs.

    Takk fyrir að koma þessu í umræðu – sannarlega nauðsynlegt.

  • Það er skömm að þessu að enginn komi þeim til bjargar. Fær ekki hreindýraeftirlitsmaður greitt fyrir titillinn eða hvað er hans hlutverk?

  • Árni Stefán Árnason

    Sæll Einar. Ég fékk tilkynningu um þetta mál í gær og hafði samstundis samband við umhverfisráðherra, Dýraverndarsambandið og héraðsdýralækninn. Engin viðbrögð.

    Skv. 9. gr. dýraverndarlaga er heimilt að koma bjargarlausum dýrum til hjálpar, eflaust má finna fleiri heimildir í lögum sem eru úrræði fyrir hreindýrin. Vonlaust er hins vegar að fá uppl. um málið en lögreglan á Hornafirði svarar ekki símanum.

    Auðvitað ættu dýraverndarsinnar/dýralæknar og jafnvel skotveiðimenn að láta sig svona atvik varða og koma dýrunum til hjálpar burtséð frá því hvað felst í slíkri hjálp. Ég hef gert tilraun til þess en fæ engar uppl. um hvort þessi dýr séu ennþá í sama vanda.

    Málefni dýraverndar á Íslandi eru í slæmum farvegi þegar upp koma svona vandamál

  • Einar jörundsson

    Sæll Árni.
    Gott að heyra að þú skulir hafa gengið í þetta mál. Verra þykir mér hve undirtektir eru yfirvalda eru dræmar og ákvörðun UST að bíða hornfellingar er fráleit. Annað hvort verður að fella dýrin (og nýta kjötið) eða slæva þau og leysa úr prísundinni.

    Dýraverndunarmál eru sannarlega ekki í góðum höndum ef þetta er dæmigert fyrir viðbrögð UST.

  • Enn og aftur er það spurningin um ráðherraábyrgð,
    Steingrímur varðandi Bankasýslu og Svandís varðandi tarfana:

    http://www.dv.is/frettir/2011/10/23/thetta-er-bara-haegur-dauddagi/

    Þau eru bæði gjörsamlega getulaus í ráðuneytum sínum.

  • Kristinn Haukur Skarphéðinsson

    Skv girðingalögum eiga landeigendur að hirða ónýtar eða aflagðar girðingar. Ef þeir vanrækja þessar skyldur getur sveitarfélagið gert það á kostnað landeiganda. Hreindýr hafa flækst áður í þessum girðingaræfli við Flatey á Mýrum. Það veit Lögreglan á Höfn, landeigandi, Umhverfisstofnun og viðkomandi hreindýraeftirlitsmenn.

  • Hlynur Þór Magnússon

    Athafnaleysið í þessu máli er refsivert. Og viðurlögin allmiklu þyngri en í máli lögreglumannsins sem líknaði sig – á frívakt í sparnaðarskyni fyrir ríkið – yfir skaddað dýr í girðingarflækju. Ekki verður það til refsilækkunar fyrir hreindýraeftirlitsmenn og yfirboðara þeirra að hér er bersýnilega um samantekin ráð um svívirðilega meðferð á dýrum að ræða. Þessi mál eru einhver þau furðulegustu sem frést hefur af lengi. Og núna þegar í óefni er komið er snúist til nauðvarnar með því að segja að á endanum felli dýrin hornin!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur