Miðvikudagur 26.10.2011 - 08:01 - 19 ummæli

Pólitísk lögregla?

Það hafa margir fagnað beinum afskiptum hápólitískra Alþingismanna af því sem lög gera ráð fyrir að vera fagleg stjórn og réttilega skipuð af framkvæmdavaldinu sem vann vinnuna sína í samræmi við lög og reglur.

Þessi óeðlilegu afskipti hápólitískra Alþingismanna sem þoldu ekki að hæfur einstaklingur sem hafði sér það eitt til sakar unnið að vera úr öðrum stjórnmálaflokkin en þeir sjálfir er að mínu mati pólitísk spilling – en því miður pólitísk spilling sem allt of margir fagna – enda líklega ekki búnir að hugsa málið til enda. Gera sér ekki grein fyrir alvarleika þessara beinu afskipta pólitískra Alþingismanna.

Um þetta fjallaði ég í síðasta pistli mínum „Nýtt tákn pólitískrar spillingar“ .

Sumir reyna að gera gagnrýni mína tortryggilega með því að benda á að ég hafi eitt sinn verið í sama stjórnmálaflokki og sá maður sem hrakinn hefur verið úr starfi sínu sem hann hafði verið ráðinn í á málefnalegan og lögmætan hátt af þar til bærri stjórn.  En málið snýst ekki um það heldur lýðræði, þrískiptingu valds og því að fram að þessu hefur þjóðin viljað stöðva pólitísk afskipti af faglegum ráðningum innan ríkisfyrirtækja.

Það er nefnilega enginn eðlismunur á beinum pólitískum afskiptum alþingismanna af opinberri ráðningu sem fellur ekki undir valdsvið þeirra en beinum pólitískum afskiptum alþingismanna af starfi lögreglunnar.

Viljum við að pólitískir alþingismenn hafi afskipti af daglegri starfsemi lögreglunnar og beiti henni fyrir sér í pólitískum tilgangi? Jafnvel til að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína?

Hélt ekki!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Guðmundur Hörður Guðmundsson

    Hver voru þessi ,,beinu“ afskipti stjórnmálamanna af málinu? Flokkast gagnrýni sem kemur fram í umræðu á Alþingi undir bein afskipti? Miðað við þessa röksemdafærslu þína þá mega alþingismenn ekki fjalla á gagnrýninn hátt um störf lögreglunnar.
    Svo eru gagnrýnendur þessarar ráðningar ekki sammála þessum orðum þínum: ,,sem vann vinnuna sína í samræmi við lög og reglur.“ Um það er einmitt deilt – var farið að lögum og reglum – t.d. hæfisskilyrðum laga um Bankasýsluna og eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

  • Æ vá Hallur, get a grip!

    Mér er skítsama hvað Helgi Hjörvar segir, og að væla út í hann og pólitísk afskipti er útúrsnúningur, hvort sem þú hefur vit til að átta þig á því eða ekki.

    Páll Magnússon var aðstoðarmaður ráðherra sem sá um einkavinavæðingu bankana, og í starfi forstjóra bankasýslunnar væri hans hlutverk að selja ríkisbankann og hlutafé í öðrum!!

    Þarf að lemja þig í hausinn eða löðrunga þig til að þú vaknir?

    Ekki hafði ég mikið álit á þér áður, en nú er það komið í mínus.

    Hættu þessu væli, maður. Þetta snýst ekki um pólitísk afskipti eða þennan Helga Hjörvar-trúð, sama hvað þú vælir mikið.

  • Óðinn Þórisson

    Hallur – held í fyrsta sinn þá er ég sammála þér.

  • Eða átti þessi bankasýsla að vera óháð hruninu, einkavinavæðingunni og bara öllum raunveruleikanum eins og hann leggur sig?

    Maður spyr sig.

    The Untouchables!!

  • Mér finnst þú oft klár og skemmtilegur penni (aðallega auðvitað þegar þú ert sammála mér.

    En þú ættir að fá einhver spunaverðlaun fyrir orðasambandið „HÁpólitískir alþingismenn“. (leturbreyting mín).

  • Ásmundur

    Ráðning Páls var hneyksli.

    Mest hefur verið lögð áhersla á að hann var aðstoðarmaður Valgerðar þegar bankarnir voru einkavæddir. Það var þó ekki það versta. Verra var að hann uppfyllti ekki skilyrðin fyrir ráðningunni. Um það er enginn vafi að hann hafði ekki reynslu af störfum við banka og fjármálafyrirtæki.

    Einnig er mjög óheppilegt að í slíka stöðu veljist stjónmálamaður í fremstu röð síns flokks í ljósi þess að það stendur fyrir dyrum að selja hlut ríkisins í bönkunum. Þessi ráðning var svo ótrúleg að það hljóta að vakna upp grunsemdir um samsæri af hálfu framsóknarmanna um að ná undir sig banka á nýjan leik.

    Í því sambandi er rétt að hafa í huga samstarf Þorsteins Þorsteinssonar við einn valdamesta framsóknarmanninn, Þórólf Gíslason kaupfélagsstjóra á Sauðárkróki. Þorsteinn fór fyrir undirbúningi, hönnun og byggingaframkvæmdum vegna Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Ég held einnig að hann hafi verið fyrsti forstjóri hennar.

    Í ljósi alls þessa er ekkert athugavert við að Helgi láti þá skoðun sína í ljós að ráðning Páls hafi verið hneyksli. Það teljast pólitísk afskipti að misnota pólitískt vald. Það gerði Helgi ekki.

    Stjórnmálamenn hafa málfrelsi eins og aðrir.

  • Það hefur lítið upp á sig að munnhöggvast við Hall þegar hann hefur á annað borð myndað sér skoðun á einhverju málefni.
    Sjálfur hef ég ekki séð ráðningarferli vegna Bankasýslu ríkisins, en eins og margir er á því að þar sé mikilvæga brotalöm að finna. Fljótt á litið virðast hlutirnir hafa verið gerðir rétt, en sú spurning vaknar við frekari eftirgrennslan hvort réttu hlutirnir hafi verið gerðir?
    Nú þegar stjórn og verðandi forstjóri hafa axlað sín skinn með ramakvein um pólitísk afskipti, bakraddað af fólki eins og Halli, þá fæst væntanlega aldrei úr því skorið hvort ráðningin hafi brotið gegn stjórnsýslulögum. Það þykir mér miður því mikilvægan lærdóm mætti draga af niðurstöðu dómsmáls vegna þess. Það skal þó engan undra þótt almennt sé fólk komið með upp í kok af þeim vinnubrögðum sem virðast hafa viðgengist í þessu máli. Það má alla vega undrun sæta ef þátttakendur í þessu máli héldu að þessi ráðning myndi renna snurðulaust í gegn.

  • Sæll Hallur,

    í seinasta pistli þínum segir þú:

    „Pólitísk spilling og vinaráðningar gamla íhaldsins og gömlu Framsóknar var innan gildandi laga og reglna. „

    Heiðarlegur vitnisburður manns sem var í innsta hring þessa flokks í aldarfjórðung. En hvað varð um þessa „gömlu Framsókn“? Er hún gufuð upp? Hvenær hætti „pólitíska spillingin“? Er hún alveg hætt?

    Hvað með þá sem unnu í pólitískri maskínu þessara flokka á þeim tíma þegar pólitíska spillingin – sem þú viðurkennir – var enn við lýði? Eigum við öll að trúa því og treysta að allir þeir séu hættir slíkir meðvirkni og „cronyisma“ – klíkuræði ?

    Forvitnilegt væri að heyra jafn heiðarlegan vitnisburð þíns fyrrum flokksfélaga, Páls Magnússonar, um sína tvo áratugi í náðarfaðmi flokksmaskínu Framsóknar. Hver er t.d. hans sýn – svona eftirá – á einkavæðingu bankanna, sem fyrrum yfirmaður hans og flokkssystir þín fyrrverandi viðurkenndi í Kastljósviðtali í apríl 2010 að hefði verið pólitískt stjórnað.

    Meira hér: Hvenær hætti spillingin?

  • S. Guðmunds

    Hættið að úthúða Halli, hann er góður og málefnalegur bloggari.

  • „hápólitískir Alþingismenn“, nema hvað?
    og svo þetta um að beita löggunni fyrir sig gegn pólitískum andstæðingum, enn og aftur – trist!

    newsflash hallur: lífið er hápólitískt, bankasýslubatteríið er hápólitískt, og ráðning PM er hápólitísk.

  • og svo ég svari titlinum:

    pólitísk lögregla? já, mjög mikið svo.

  • Ásmundur

    “Pólitísk spilling og vinaráðningar gamla íhaldsins og gömlu Framsóknar var innan gildandi laga og reglna. “

    Hallur, þessi ummæli þín í seinasta pistli þínum eru einfaldlega röng. Nokkrum sinnum var látið á það reyna fyrir dómi. Þá féll dómur á þann veg að um lögbrot var að ræða.

    Svo máttu gjarnan færa rök fyrir því hvernig ráðning Páls getur verið lögleg í ljósi þess að lögum samkvæmt á forstjóri Bankasýslunnar að hafa reynslu af rekstri banka og fjármálafyrirtækja.

  • Auglýst er eftir svæfingarlækni. Skv lögum þarf viðkomandi að hafa læknapróf og sérþekkingu í svæfingum. Stöðunefnd spítalans telur Pál Magnússon guðfræðing hæfan til starfsins því hann hefur unnið á launadeild spítalans og er búinn að fara á skyndihjálparnámskeið. Hann er því ráðinn.

    Mundir þú láta Pál svæfa þig Hallur?

  • Hallur Magnússon

    @Ólafur

    Auglýst er eftir svæfingarlækni.

    Hæfnisnefnd lækna á Landspítalanum metur Jón svæfingartækni hæfastan og ræður hann í stöðuna í samræmi við hæfnisreglur Landspítalans. Jón er með 6 ára reynslu í svæfingum.

    Jón er því miður í Bezta flokknum.

    Helgi Hjörvar alþingismaður vill ekki Beztaflokksmenn í stöðuna.

    Grípur því inní og og beitir pólitískum þrýstingi á að Jón verði ekki ráðinn. Frekar skulu sjúklingarnir vera vakandi í skurðaðgerðum en að Beztaflokksmaður svæfi þá. Þótt hann hafi kunnáttu og getu amk. til jafns við aðra sem sóttu um til að svæfa þá!

    Hvor á að ráð ráðnigunni – Helgi Hjörvar eða læknaráð?

  • Það eru illar hvatir og eiginhagsmunapot sem auðvitað stýra orðum og gjörðum Mr. Hjörvar. Hann á að þegja og ekki að skipta sér af. Og það Þó hann vissi að lærifaðir Jóns hafi með ógáti, eða ókunnáttu, valdið dauða fjölda sjúklinga. Þar sem ekki er vitað til að Jón hafi gert slíkt á þessum 6 árum á hann að fá starfið, og það þó menn viti ekki alveg hvort Jón noti áfram sömu lyf og lærifaðirinn gerði.

    🙂

  • Hallur Magnússon

    @Ólafur

    Finnst þér virkilega samlíking þín með svæfingarlæknin eðlileg og við hæfi?

    Ef svo – vinsamlega rökstuddu það.

  • Hallur, í #14 gleymir þú að tiltaka að Jón hefur hvorki læknismenntun eða reynslu af því að svæfa fólk.

    Þá fyrst gengur dæmisagan upp.

    Einu gildir þótt hann gæti lesið sig til um eiginleika hláturgass eða reiknað út hvað 90 kg þungur maður þarf marga ml af Propofol á klukkustund til að viðhalda svæfingu.

  • Sæll Hallur

    Þó þetta tiltekna mál sem hefur verið til umræðu sé komið aðeins af forsíðunum í bili þá er samt áhugavert að skoða þetta almennt. Meginmálið hér er auðvitað ráðningarferli í stöður hjá hinu opinbera og hvernig þau eru í framkvæmd. Mitt fyrsta dæmi var kannski tilraun til að sýna hvernig mál Bankasýslu Ríkisins blasir við mér í fjölmiðlum. Ég tók mér því það leyfi að gera þennan samanburð hér á blogginu þínu. Við ráðningu læknis eru kröfur væntanlega nokkuð skýrar, læknispróf og framhaldsmenntun er nokkuð vel skilgreint og frekar auðvelt að bera saman og meta. Öðru máli gegnir kannski við ráðningu í önnur störf hjá stofnunum ríkisins. Ég get skilið að það geti verið strembið að skrifa auglýsingu fyrir forstjórastöðu BR. Ef gerðar eru of miklar kröfur eru kannski bara örfáir hæfir í okkar litla landi. Það getur svo vakið gagnrýni um að auglýsingin sé sniðin fyrir einhverja persónu. Ef kröfurnar eru almennt orðaðar og loðnar býður það upp á að þeir sem ráða í stöðuna eiga auðveldar með að koma sínum manni í embættið þó hann sé ekki heppilegastur. Vandamálið er hversu fá við erum. Kannski of fá til að geta gert þetta almennilega. En við þurfum að reyna okkar besta og þess vegna er nauðsynlegt að hafa ferlið gegnsætt og getað rökrætt um það. Það er aðalmálið, ekki hvernig ég færi í stílinn í uppdiktuðu dæmi. Hafðu þakkir fyrir þína pistla.

  • Páll Magnússon HEFUR EKKI reynslu eða sérþekkingu á bankamálum og fjármálum. Hann VAR EKKI hæfasti umsækjandinn. Hann UPPFYLLTI EKKI lágmarksskilyrði laga um forstjóra Bankasýslunnar.

    Þessi skelfilega pólitíska blinda þín, Hallur, sem knýr þig til að verja hið óverjanlega þegar um flokksbróður þinn er að ræða, er sorgleg. Verulega sorgleg.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur