Föstudagur 28.10.2011 - 11:57 - 12 ummæli

Stórstjörnuhrap!

Íslendingar hafa horft upp á algert stjörnuhrap virtra álitsgjafa um efnahagsmál undanfarna daga. Menn sem við höfum tekið mark á. Ég geri ekki athugasemdir við skoðanir þeirra – en er afar hugsi að menn geti komið í skjóli frægðar sinnar og haldið fram einu og öðru um íslenskt efnahagslíf – án þess að hafa kynnt sér sérstöðu íslensks fjármálakerfis ofan í kjölinn.

Mennirnir virðast ekki gera sér grein fyrir því hvernig íslenska verðtryggingin virkar. Þeir virðast ekki átta sig á því að 80% allra langtímalána heimilanna eru verðtryggð.  Þeir virðast ekki átta sig á að breytingar í gengi erlends gjaldeyris kemur fram í íslensku verðlagi og verðtryggingu að 40% næstu 18 mánuði.  Þeir virðast hafa gleymt hlut íslensku krónunnar í íslensku bankaþenslunni og hruninu.

Þetta kemur sossum ekkert mjög á óvart eftirá að hyggja.

Ég hitti árlega í nokkur ár fulltrúa AGS sem höfðu á vörunum þá möntru að það ætti að einkavæða Íbúðalánasjóðs. Af því bara.  Á hverju ári þurfti ég að rifja það upp fyrir þessu ágæta fólki að það væri verðtrygging á Íslandi. Að 80% íslenskra heimila væru með skuldbindingar sínar í verðtryggðum lánum. Hvernig „pass through effect“ gjaldmiðlabreytinga hefðu áhrif á skuldastöðu heimilanna vegna mikilla áhrifa þeirra á neysluvísitöluna.

Þeim fannst þetta alltaf jafn merkilegt. En virtust búin að gleyma því á næsta ári. 

Enda skiptir ekki öllu að vita mikið um litla krúttlega Ísland til þess að láta frægðarsól sína þar skína. Þetta skrítna land þar sem fasistar skipa ríkisstjórn sem sýnir erlendum fjárfestum löngutöngina og er með þess krúttlegu krónu sem væri eftirsjá af í alþjóðlegri myntflóru. Hvort sem hún gerir gagn eða ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Þórhallur Halldórsson

    Vel mælt Hallur.

  • Þessi pistill virkar á mig eins og þegar menn voru að blása á aðvaranir sérfræðinga danska seðlabankans. Þá voru þeir bara gamaldags náungar í stofnun sem vissi ekkert um Ísland eða Íslendinga.

    Halda menn virkilega að hagfræðingar sem hafa jafnvel unnið til Nóbelsverðlauna í hagfræði, og eru með her fólks í vinnu við að safna fyrir sig gögnum, svo þeir verði ekki gataðir í fyrirlestrum og á panelum viti ekki um verðtryggingu? Ok. kannski ekki verðtryggingu, en breytilega vexti, það er sami hluturinn. Fólk fær nefninlega nákvæmlega það sama út úr breytilegum vöxtum og verðtryggingu. Það er svona svipað og þegar Samfylking þorir ekki að tala um að skattleggja eittthvað og fer að tala um „rentu“. þá er það bara annað orð yfir skattlagningu.

    Þessir náungar vita líklega meira um íslenskt efnahagslíf en bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra til samans, enda þarf nú ekki mjög mikið til.

    Ætli það sé ekki fleirum en erlendum fjárfestum sem yfirvöld séu að sýni fingurinn þessa dagana? Hvað eru miklar innlendar fjárfestingar í gangi? Maður hefði nú haldið að byrjunin hefði verið að ná þessu gríðarlega fjármagni sem er geymt í bankahólfum, undir koddum landsmanna og inni á bankareikningum út og í vinnslu. Það er líklega mun auðveldara en að laða hingað erlent fjármagn. Ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni getu að ná í íslenska fjármagnið, hvernig dettur mönnum þá í hug að þetta lið sé til þess hæft að ná í erlent fjármagn?

    No hope með þetta lið í landstjórninni.

  • Um hverja ertu að tala? Gott væri að fá samhengi.

  • Ásdís Jónsdóttir

    Alveg sammála þér Hallur, að því leyti að álit hagfræðinga eru oft ærið misvísandi og virðast ekki alltaf á rökum reist heldur á kenningum sem þeir trúa á eins og sanntrúaðir múslimar, en hvað verðtrygginguna varðar virðist vandamálið vera óstöðugur og varla nothæfur gjaldmiðill sem getur valdið stöðugum sveiflum og verðbólgu sem aftur hefur þessi óæskilegu áhrif á verðlag og verðtryggingu.

  • Björn Kristinsson

    „Íslendingar hafa horft upp á algert stjörnuhrap virtra álitsgjafa um efnahagsmál undanfarna daga. “

    Mér finnst ég hafa heyrt svipuð rök áður !

    T.d. 2007 „…endurmenntun“ ?

    Við vitum allt best það er alveg ljóst !

  • Með 70 miljarða misnotkun á almannafé var sjóðurinn í raun og veru einkavæddur. þþ

  • Mikið til í þessu hjá þér Hallur. Kveðja Heiða

  • Leifur Björnsson

    Sammála þér Hallur virtust margir ekki hafa unnið heimavinnuna eða skilja verðtrygginguna.

  • fyndið hvað menn stökkva upp á nef sér í séríslenskri umræðu og hjóla í manninn án þess að færa ein einustu rök gegn málinu sem hann flutti.
    Hverju svara menn t.a.m. þessu:
    http://krugman.blogs.nytimes.com/2011/10/28/dont-blame-the-krona/

    Líklega bara því að Krugman, Buiter, Johnson, Wolf og fleiri, viti bara ekki neitt um þetta 300 þúsund manna kaupfélag…

    Lars Christiansen??? Einhver ???

  • Sæll Hallur, voðalega ertu eitthvað spælingarlegur.

    Ég held að „stjörnuhrapið“ sem þú talar hér um , sé einmitt það að með viðvörunum þekktra alþjóðlegra sérfræðinga og 2ja nóbelsverðlaunahafa í hagfræði á því að við tækjum upp Evru eða gengjum í ESB hafi gert það að verkum að gulu stjörnurnar í bláfána ESB Stjórnsýsluapparatsins hafi allar hrunið af og brotnað í þúsund mola.

    Von að ESB/EVRU stjörnublikið í augunum á þér og fleirum hafi fölnað !

  • Jón Jón Jónsson

    Þessi blinda ofsatrú Halls er bara ekki í lagi.

    Lifi samt Hallur og krónan líka, en skulda-leiðréttum fyrst
    og afnemum svo verðtrygginguna fyrr en síðar.

  • Pétur Örn Björnsson

    Hér er hlekkur á fróðlega grein eftir Ólaf Margeirsson:

    http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/kronan-og-verdtryggingin?Pressandate=20090416+and+user%3d0+and+1%3d1%2fleggjumst-oll-a-eitt%2fleggjumst-oll-a%2fleggjumst-o%2fleggjumst-ol

    Lokaorð Ólafs í þessari grein frá í ágúst 2011, eru:

    „Verðtryggingin er vandamálið

    Íslenska krónan og verðtrygging fjárskuldbindinga eru fjarri því óaðskiljanleg. Þau voru það fyrir 1986 en a.m.k. síðustu 20 ár hefur verðtrygging gert mun meira illt en gott. Krónan myndi spjara sig mun betur en hún hefur gert síðustu 20 ár væri verðtrygging húsnæðislána afnumin. Það fullyrði ég!

    Það er verðtryggingunni að kenna að bankarnir gátu hagað sér eins og kjánar því þeir vissu að þótt útlánaþensla þeirra ylli verðbólgu þá þyrftu þeir sjálfir ekki að bera kostnaðinn af slíku. Raunar græddu þeir á því ef eitthvað var því mun meira af eignum þeirra er verðtryggðar m.v. skuldir. Og þar sem neysluverðsvísitölur mæla verðbólgu almennt hærri en hún í raun er (a.m.k. 0.3% á ári á Íslandi samkvæmt þessari rannsókn) er það augljóslega hagur útlánafyrirtækja að þenja út verðtryggð útlánasöfn sín sem allra hraðast. Og það er of hröð útlánaþensla lánakerfisins sem er meginvaldur langtíma verðbólgu og veikingar krónunnar. Meðal annars út af þessu atriði er það verðtryggingin sem veldur veikingu krónunnar en ekki krónan sem veldur verðtryggingunni. Það hljómar vitanlega snælduvitlaust í eyrum margra en ég skal einhvern tímann útskýra ferlið betur þegar ég man eftir því.

    Ég hef áður sagt það að verðtrygging í sjálfu sér er fjarri því af hinu illa sé henni beitt rétt. Verðtryggð lífeyrisréttindi eru mjög jákvæð og hið sama gildir um skuldabréf ríkissjóðs og bankastofnana. En að verðtryggja húsnæðis- og neytendaskuldir er ekki aðeins ósanngjarnt, m.a. vegna innbyggðs bjaga verðbólgumælinga upp á við, heldur efnahagslega fráleitt. Dettur einhverjum heilvita hagfræðingi í hug að peningamálastefna Seðlabankans hafi teljandi áhrif við núverandi framkvæmd verðtryggingar?“

    Skyldi Jóhanna muna sín eigin orð gegn verðtryggingu … frá því á 9. áratug 20. aldarinnar, eða þurrkaðist minni hennar út við milennium skiptin?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur