Laugardagur 24.12.2011 - 02:54 - Rita ummæli

Þekkja skaltu knattspyrnulögin

„Hver sá, sem ætlar sér að verða þátttakandi í knattspyrnuleik, verður fyrst af öllu að læra til hlítar knattspyrnulögin. Þetta tek eg fram enn þá einu sinni vegna  þess, að þetta er svo vanrækt, hjá þeim, sem leggja stund á þessa íþrótt. „ segir Bennó í merkum greinaflokki sínum um knattspyrnu sem birtist í nokkrum heftum Skinfaxa árið 1916 og ég hef birt á blogginu undanfarið.

Bennó fjallar áfram um gagnsemi þess að iðkendur tileinki sér „knattspyrnulögin“:

„Þráfaldlega kemur það fyrir hér í Reykjavík (og víðar býst ég við), að keppendurnir vegna  þekkingarleysis á knattsp.lögum, gera knattsp.flokk sínum mikinn óleik, með því  að kunna ekki til hlítar knattsp.lögin. 

Það bitnar svo sem ekki eingöngu á manninum sjálfum, heldur oftast á öllum flokknum, og er því þetta mjög  athugavert fyrir öll knattsp.félög að herða á félögum sínum að læra lögin. Besta ráðið væri að félögin héldu fundi,  þar sem knattspyrnureglurnar og skýringar þeirra væru aðallega til umræðu. Ef svo væri, þá spái eg því að knattspyrnan mundi taka miklum framförum.

Verður þá klaufinn síður eftirbátur félaga sinna, ef hann vildi hugsa meir um lög og leikreglur knattspyrnu, því það er svo með allar íþróttir, að leikreglur og tamning þeirra verður fullkomlega að lærast, ef að nokkru verulegu gagni á að verða, og er fróðlegt að vita, að oftast er það í knattleiknum sem sigrinum veldur, einmitt það að kunna vel allar leikreglur og brögð og vera fljótur að hugsa, álykta og framkvœma.

Reyndar getur flokksforinginn mikið hjálpað óæfðum mönnum með tilsögn sinni, þegar hann er nœrstaddur, en það er hann sjaldnast, þegar mest á reynir. Best er að allur flokkurinn (sveitin) sé jafnvígur til leika.

Þó skaðar það ekki, að einn eða tveir menn í flokknum, séu afbragð sinna manna, ef hinir í flokknum eru vel samtaka og þeim hjálplegir, en sé svo ekki, stoðar það lítt, ef þeir hafa ekki aðstoð félaga sinna.

Þó ótrúlegt sé, þá er það svo í knattspyrnuleiknum, að afbragðsmaðurinn fær litlu áorkað, þó duglegur sé, ef hann hefir ekki að baki sér óskiftan flokkinn í samhuga verki. Sigurinn í knattspyrnu er kominn undir því, að hver keppandi sé á sínum stað og flokkurinn um leið samstiltur (skilji vel hlutverk sín) eins og eg hefi áður í þessari grein bent á.

Deilunni er nú loksins lokið, um gagnsemi, hollustu -og nauðsyn íþrótta fyrir hvert þjóðfélag, því um það eru allir sammála, en deilan stendur ennþá yfir, hvernig æfa á íþróttir og temja sér þær, bæði til gagns, gleði og afreks.

Þó vita menn það, að mjög er hættulegt óhörðnuðum og óreyndum unglingum, að ætla sér að taka þátt í erfiðri kappraun, óundirbúnir. Hefir mörgum orðið hált á því, en þetta er það sem svo oft hefir átt sér stað, þó ekki enn þá svo tilfinnanlega hér á landi og eyðilagt góða framtíð íþróttamannsins. Hann hefir ofreynt sig, hjartað bilað (ofþensla í lungum, o. s. frv., sem sagt er að sumir af okkar fáliðuðu íþróttasveit hafi).

Að mínu áliti ætti enginn að fá að taka þátt í útiíþróttum, nema hann hafi áður ítarlega kynt sér íþróttareglurnar, og hvernig ber að æfa þá íþrótt, sem hann velur sér til þess að hafa sem allra mest gagn af.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur