Laugardagur 11.08.2012 - 10:20 - 4 ummæli

Tryggt trúfrelsi og þjóðkirkja

Tvö meginstef trúmála í stjórnarskrá eiga að vera tryggt trúfrelsi og sjálfstæð þjóðkirkja sem reglulega sækir umboð sitt sem sérstök þjóðkirkja til þjóðarinnar. Það eru skiptar skoðanir meðal þjóðarinnar hvort þjóðkirkja Íslands eigi að hafa sérstakan sess umfram önnur trúfélög í stjórnarskránni. Það er eðlilegt.

Ég hef lengi verið talsmaður algers aðskilnaðar ríkis og kirkju. Ég hef talið að með slíkum aðskilnaði gæti staða kirkjunnar styrkst meðal þjóðarinnar. Það má reyndar ekki gleyma því að kring um aldamótin síðustu var að mörgu leiti skilið á milli þjóðkirkjunnar og ríkisins. Kirkjan er ekki lengur hrein ríkiskirkja heldur sjálfstæð þjóðkirkja með sérstaka stöðu og styrk frá ríkinu.

En það er ekki mitt að ákveða. Það er þjóðarinnar.

Nú líður að kosningu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Í tillögum ráðsins er gert ráð fyrir að hugtakið „þjóðkirkja“ verði afnumið úr stjórnarskrá. Með því telja margir stjórnlagaráðsmenn að lagaleg forréttindi þjóðkirkjunnar séu í raun afnumin.

Stjórnlagaráð tekur hins vegar ekki beina afstöðu til þess hvort afnema eigi núverandi stöðu þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu heldur felur Alþingi að taka afstöðu til þess. Stjórnlagaráð tryggir hins vegar í tillögum sínum að slík breyting á skipan þjóðkirkjunnar – sem reyndar er ekki lengur skilgreind sem þjóðkirkja í stjórnarskrá – skuli lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er réttmætt og reyndar í takt við ákvæði núverandi stjórnarskrár.

Tillaga stjórnlagaráðs um kirkjuskipan er eftirfarandi:

„Í lögum má kveða á um kirkjusipan ríkisins. Nú samþykkir Alþingi breytingar á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar“.

Ég held að þessi lending stjórnlagaráðs sé farsæl og eðlileg. Alþingi getur lagt til breytingar á stöðu þjóðkirkjunnar en þjóðin verður að samþykkja þá breytingu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þótt staða kirkjunnar sé sett í hendur Alþingis á þennan hátt þá kemur það ekki í veg fyrir það að breytingar verði gerðar á kirkjuskipan án frumkvæðis Alþingis. Þjóðin getur farið fram á breytingar á stöðu þjóðkirkjunnar. Þá leið tryggir stjórnlagaráð í tillögu að afar mikilvægu, lýðræðislegu stjórnarskrárákvæði sem stóreykur rétt almennings til að hafa áhrif á lagasetningu.

Ákvæðið hljóðar svo:

„Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi. Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi. Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.“

Þetta ákvæði tryggir að 10% þjóðarinnar getur knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu þjóðkirkjunnar. Ég er viss um að það verði gert.

Stjórnlagaráð tryggir jafnframt áframhaldandi virkt trúfrelsi á Íslandi:

„Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi.Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.“

Ég er því afar sáttur við þá lausn sem stjórnlagaráð náði um trúfrelsi og stöðu þjóðkirkjunnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Halldór L.

    Mér býður við því hversu tilbúið fólk er að henda fyrir róða trúfrelsi hérna og styðja við ríkiskirkju. Eruð þið ekki að fatta hversu óréttlátt þetta er að láta ríkið styðja eitt trúfélag fram yfir önnur?!

  • Rétt hjá Halli; góð millilausn. Þá er þetta ákvæði 1. mgr. 62. gr. stjskr. afnumið en það mismunar trúfélögum, þjóðkirkjunni í hag: „skal ríkisvaldið að því leyti styðja [þjóðkirkjuna] og vernda.“ Þá lítur kirkjan svo á að „styrkur“ frá ríkinu sé endurgjald fyrir eignir hennar sem ríkið gerði upptækar bótalaust við siðbot 1550.

  • Hallur Magnússon

    Siðaskipti – ekki siðbót Gísli!!!

    En fyrst Gísli Tryggvason er farinn að kommentera hjá mér – þá vil ég beina því til þeirra sem virkilega hafa áhuga á að kynna sér þær breytingar sem stjórnlagaráð leggur til á stjórnarskrá – að lesa pistal Gísla. Gísli skrifaði skýringar – eins nálægt mannamáli og lögfræðingar geta – um hverja og eina grein tillögu ráðsins að nýrri stjórnarskrá.

    Afrek hjá Gísla finnst mér.

    Slóðin á þetta merka verk Gísla Tryggvasonar er:

    http://blog.pressan.is/gislit/

  • Sigurjón Njarðarson

    „Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“ (79, gr, 2 mgr. Stjskrár)

    Samkvæmt þessu þá bætir stjórnlagaráð engu við núverandi stjórnarskrá. nema auðvitað þessu stórgallaða þjóðaratkvæðisfrumvarpi.

    Gott og blessað að vera ánægður með tillögur stjórnlagaráðs, en það verður að vera einhver botn í þessu.

    Hversu öfugsnúið er það svo að kalla tillögur lýðræðislegar, þegar þær eru ættaðar frá ráði sem var stofnsett eftir að mistókst að kjósa lýðræðislega til þess? Það er einn partur umræðunar sem mér mistekst algerlega að fá skilning í.

    Þess utan held ég að það sé laukrétt. Að kirkjunni yrði mun betur borgið án ríkisins en með. En það verður að gerast á forsendum kirkjunar sjálfrar. Annað yrði dónaskapur við kirkjuna og þjónustu hennar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur