Mánudagur 13.08.2012 - 09:09 - 9 ummæli

Framsókn sökkt Samfó bjargað!

VG hefur tekið mikilvægt skref til þess að bjarga Samfylkingunni frá afhroði í næstu kosningum og á sama tíma kaffæra Framsóknarflokkinn sem undanfarin misseri hefur markvisst leitað inn í ákveðinn hluta kjósendahóps VG með óbilgjarnri andstöðu Framsóknar við aðildarviðræður að Evrópusambandinu. 

Krafa VG um að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði endurskoðuð er klárlega sett fram til að styrkja stöðu flokksins meðal andstæðinga Evrópusambandsins sem hafa verið óánægðir með það sem þeir túlka linkind VG í Evrópumálum og hallað sér að Framsókn.

Það munu verða átök innan ríkisstjórnarinnar milli VG og Samfylkingarinnar vegna þessa. Þau átök munu styrkja verulega stöðu Samfylkingarinnar meðal þeirra kjósenda sem aðhyllast aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Það gleymist að stór hópur kjósenda er ekki búinn að gera upp við sig hvort ganga skuli í Evrópusambandið en vilja sjá niðurstöðu aðildarviðræðna áður en ákvörðun er tekin.

Með hertri stefnu VG í Evrópumálum þá er það einungis Samfylking og Björt Framtíð sem er vænlegur kostur fyrir evrópusinnaða kjósendur. Þessi herta stefna getur bjargað Samfylkingunni sem stendur afar illa um þessar mundir. Ekki vegna Evrópumála helfur vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í ýmsum öðrum málum.

Framsóknarflokkurinn náði þokkalegri kosningu í síðustu Alþingiskosningum annars vegar vegna þess að flokkurinn hafði fendurnýjað flokksforystu sína á glæsilegu 900 manna flokksþingi í janúar 2009 en ekki síður vegna þeirrar vönduðu, hófsömu og frjálslyndu stefnuskrár sem það tímamótaflokksþing samþykkti.

Illu heilli þá sneri stór hluti þingflokks Framsóknarflokksins fljótlega baki við hinni hófsömu 0g frjálslyndu stefnuskrá. Tóku einstaka þingmenn flokksins upp afar óbilgjarnan málflutning í flestum málum og unnu gegn nokkrum grundvallaratriðum í samþykktri stefnu flokksins. Þá er ég ekki eingöngu að ræða um hina hófsömu og skynsamlegu stefnu í Evrópumálum sem flokksþingið 2009 samþykkti.

Enda fór það svo að stefnuskránni frá því 2009 sem var grundvöllir þess að núverandi þingflokkur Framsókanrflokksins var kjörinn var hent út í ysta hafsauga á fámennu 300 manna flokksþingi Framsóknar árið 2011 að tilstuðlan nýrrar forystu.

Þrátt fyrir að hafa setið í stjórnarandstöðu gegn afar óvinsællri ríkisstjórn, þrátt fyrir óbilgjarnan málflutning í ýmsum málum og þrátt fyrir harða andstöðu gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu þá hefur Framsóknarflokkurinn ekki náð meira fylgi í skoðanakönnunum en flokkurinn fékk í síðustu kosningum.

Flokkurinn er því kominn í alvarlegan tilvistarvanda.

Nú þegar VG herðir á afstöðu sinni í Evrópumálum þá mun stór hluti þeirra óánægðu kjósenda VG leita aftur frá Framsóknarflokknum á heimaslóð. Þeir kjósendur VG sem styðja aðildarviðræður að Evrópusambandinu munu hins vegar eðli málsins ekki leita til Framsóknar. Þeir munu frekar styðja Samfylkingu eða mögulega annað framboð sem ekki er í krossferð gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu.

Framsóknarflokkurinn getur heldur ekki sett í bakkgír og þóst taka aftur upp hófsama, frjálslynda stefnu sína frá því árið 2009. Flokkurinn mun ekki geta náð aftur til þeirra hófsömu, frjálslyndu kjósenda sem kusu flokkinn í síðustu alþingiskosningum.

Þeir kjósendur í þeim hópi sem eru með aðildarviðræðum að Evrópusambandinu munu hafa tvo valkosti. Samfylkingu annars vegar og  Bjarta Framtíð hins vegar. Stór hluti þeirra mun ekki vilja kjósa Samfylkingu. Því á Björt Framtíð mikið sóknarfæri meðal þeirra ef þeim nýja flokk tekst vel upp í málefnavinnu og uppstillingu á lista.

Þeir frjálslyndu kjósendur sem hætt hafa stuðningi við Framsóknarflokkinn og eru á móti aðildarviðræðum að Evrópusambandinu munu heldur ekki koma til baka. Það er einfaldara fyrir þá að leita til Sjálfstæðisflokksins enda var stór hópur fyrrum kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður og stuðningsmanna Guðlaugs Þórs sem kaus Sigmund Davíð til að sýna óánægju sína með það sem þeim fannst aðför að Guðlaugi Þór sem endaði á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík suður.

Nýtt útspil VG veldur því að Framsókn situr inni með Svarta Pétur og á fá tromp á hendi!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Framsókn hefur í næstu Alþingiskosningum mörg tromp á hendi svo lengi sem flokkurinn heldur vel á spilunum og lætur ekki menn á borð við Jón Sigurðsson fv. formann flokksins og Hall Magnússon fv. vonarstjörnu flokksins villa sér sýn með hreint makalausum málflutningi og spuna. Það má fyrirgefa Halli sem vígmóður hvarf frá borði og hefur ekki lengur taugar til flokksins en Jón á hinn bóginn er enn flokksbundinn og sem „grand old man“ flokksins færi honum betur að koma fram sem hollur ráðgjafi en að vaða fram á opinberum vettvangi með niðurrifsummæli um forystu og stefnumál flokksins.
    Þegar dregur að þingkosningum er aðalatriðið að Framsóknarflokkurinn reki kosningabaráttuna af staðfestu og forðist allan hringlanda með frasa á borð við þann að ganga óbundnir til kosninga.
    Á yfirstandandi kjörtímabili hefur flokkurinn verið í harðri stjórnarandstöðu og sýnt að núverandi ríkisstjórnarflokkar eru ekki spennandi kostir fyrir framsóknarmenn og þá helst Samfylkingin og af ýmsum ástæðum en einna helst af svikum og undirmálum og síðan og ekki síst áherslur þess flokks í Evrópumálum.
    Stefnumál Framsóknarflokksins í komandi átökum á að draga saman í fá afmörkuð, afgerandi mál og forðast innihaldslitla langhunda sem kallaðir eru á fínu máli stefnuskrá. Og þessum fáu og mikilvægu málum á að fylgja eftir umbúðalaust og láta stjórnarmyndunarviðræður standa og falla með framgangi þeirra. Þar má nefna að aðildarviðræðum við ESB verði hætt, markviss og öflug atvinnuuppbygging, dregið verði úr skattbyrði á fyrirtæki og einstaklinga og verðtrygging lána afnumin í áföngum. Þessir þættir einir og sér eru forsenda aukins hagvaxtar og batnandi afkomu a flestum sviðum.
    Það er ljóst að Framsóknarflokkurinn nær ekki þessum markmiðum með samstarfi við núverandi stjórnarflokka. Stefna þeirra og störf taka af allan vafa um það. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar áþekkar áherslur í fyrrgreindum málum og því sjálfsagt og eðlilegt að flokkarnir bjóði þjóðinni uppá skýran valkost í komandi alþingiskosningum gegn núverandi stjórnarflokkum.
    Nái þessir tveir flokkar að mynda ríkisstjórn eftir næstu kosningar hefur Framsóknarflokkurinn þau tromp í hendi að vinna að öflugri framfararsókn fyrir fólkið í landinu og um það snýst heilbrigð pólitík. Og þá munu spunameistararnir sitja eftir með Svarta-Pétur.

  • Kímið að sjá hinn vel ritfæra varðhund flokksforystu Framsóknar tala um aðra sem spunameistara. Því miður fyrir gss og félaga er geining mín á stöðunni rétt. Veit það svíður!

  • Sæll Hallur.
    Þetta er rangt mat hjá þér eins og svo oft áður. Allar skoðanakannanir hafa rækilega og ítrekað sýnt að það er sáralítill hópur fólks sem hefur ekki gert upp hug sinn hvort að það styður ESB aðild eða ekki.

    Reyndar er yfirgnæfandi meirihluti sem vill ekki aðild eða kringum 70% og svo eru aðildarsinnar með sáralítið fylgi eða þetta 17 til 23% fylgi. Óákveðnir eða þeir sem ekki hafa gert upp hug sinn er aðeins 7 til 13% og stór hópur þeirra gerir sennilega aldrei upp hug sinn eða mætir ekki á kjörstað. Segjum samt svo að helmingur þeirra gri það þá eru það 3,5% til 6,5% kjósenda og samkvæmt fræðunum ættu þeir kjósendur að skiptast hlutfallslega á milli fylkinganna, en ekki jafnt. Því er ljóst að þó svo VG tapi örugglega talsverðu fylgi í næstu kosningum, vegna ESB umsóknarinnar, þá mun Samfylkingin alls ekki græða með sína rétttrúnaðar ESB stefnu. Samkvæmt könnunum hafa þeir verið að tapa 33 til 40% fylgis síns og mér sýnist allt stefna í að það verði niðurstaðan. Gummi Steingríms jafn litlaus og hann er mun ekki ná lágmarkinu. Framsókn á góða möguleika á að ná til baka eitthvað af fylgistapi undanfarinna ára, sérstaklega ef þeir halda sig hart við ESB andstöðuna sem formaðurinn hefur mótað.
    Samfylkingin verður því í sárum eftir kosningar og algerlega einangruð í íslenskum stjórnmálum sökum þrákelkni sinnar í ESB málinu !

  • Þetta er fínt innlegg hjá þér Hallur. Framsóknarflokkurinn hefur misst allt frumkvæði og forysta hans er í afar þröngri málefnastöðu. Framsókn hefur verið eina athvarf hófsamra félagshyggjumanna. Á tímum öfga og einhliða áróðurs hrekst félagshyggjufólk frá Framsókn í allar áttir. Jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn getur grætt á þessu tímabundið. Það er enginn sjáanlegur munur á þessum tveim flokkum í stjórnarandstöðu og hvorugur hefur plan B í evrópumálum. Óbreytt ástand og EES er ekkert plan svo það sé áréttað. Sigmundur Davíð mun ekki leiða flokkinn til sigurs. Það er hinsvegar spurning hvort það hafi verið misráðið að taka flokkinn ekki inn í ríkisstjórn 2009. Sennilega hafa menn talið að Sigmundur væri ekki starfinu vaxinn einsog mér virðist hafa komið í ljós.

  • siguróli kristjánsson

    SællHallur,auðvitað sjá það allir með þér að:

    vilja ganga inn í ESB er = frjálslyndi
    vilja ekki ganga inn í ESB er = þröngsýni

    snýrðu þessu ekki á hvolf Hallur minn
    prófum að sannfæra þig , skoðum :

    vilja ganga inn í ESB er = þrönsýni
    vilja vera frjáls á meðal þjóða er = frjálslyndi

    þú, Sif, Guðmundur Steingrímss og Samfylkingar sértrúarsöfnuðurinn allur, ættuð að stofna flokk saman…..mín tillaga að nafni gæti verið “ ástandið“

  • Magnus Jonsson

    Ég mun fagna með flugeldaskothríð þeim degi sem Framsóknarflokkurinn þurrkast út.

  • Hallur Magnússon

    Siguróli.

    Þótt það séu eðli málsins margir frjálslyndir sem vilja KANNA kosti og galla þess að ganga í Evrópusambandið með opnum huga og því klára aðildarviðræðu – og treysta þjóðinni síðan að taka ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu – þá gerir það ekki þá sem vilja vil EKKI ganga í Evrópusambandið ´“ófrjálslynda“ eða „þröngsýna“ eins og þú vilt kalla það. Hins vegar eru mjög margir þröngsýnir menn sem vilja ekki ganga í ESB. Þá er alveg ljóst að það er töluvert af þröngsýnu fólki sem vill ganga í Evrópusambandið og vilja jafnvel ekki láta þjóðina taka slíka ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning!

    Það að vera frjáls meðal þjóða stangast ekki á við það að ganga í Evrópusambandið – ef ásættanlegur aðildarsamningur næst. Evrópusambandið samanstendur af frjálsum þjóðum 🙂

  • Þetta er ekki rétt hjá þér, grunar mig. Ég er ein af þeim fjölmörgu í mínu nánasta umhverfi sem kusum VG vegna yfirlýstrar andstöðu við evrópusambandsaðild, og ekkert okkar ætlar nokkru sinni að kjósa þá aftur.

    Þetta síðasta útspil þeirra gerir VG enn aumkunnarverðari í mínum augum og ég get sagt þér fyrir frítt að flestir ofangreindra hafa hallað sér að Framsókn og engin breyting orðið þar á.

    Algjörlega rangt mat hjá þér vinur!

  • Eina leiðin til að tryggja áframhaldandi velferð og sjálfstæði þjóðarinnar er að kjósa aldrei Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Það eru úlfar í sauðagæru.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur