Þriðjudagur 08.01.2013 - 07:51 - 3 ummæli

Namibískar kýr í Noregi

Það er margt skrítið og skemmtilegt í kýrhausnum í Noregi. Nú er það þannig að „átakanlegur“ smjörskortur fyrir jólin 2011 varð til þess að namibískar kýr flæða nú yfir Noreg. Ekki lifandi þó heldur bútaðar niður í neytendapakkningar.

Það þótti fréttnæmt þegar Norðmenn voru teknir í stórum stíl við að smygla smjöri til Noregs síðasta vetur vegna þess að norskar kýr mjólkuðu ekki nóg til að trygga þetta hefðbundna viðbit. Reyndar hækkuðu Norðmenn innflutningskvóta á smjöri tímabundið til að tryggja jólagleðina og draga úr smjörsmygli og svartamarkaðsbraski. En eins og flestir vita eru Norðmenn með ólíkindum háa og mikla tolla á innfluttar landbúnaðarvörur.

Norskir bændur brugðust við ástandinu með því að slátra færri kúm og setja á fleiri kálfa. Alfeiðing þess í afar tollvörðu landi var að sjálfsögðu skortur á „stórfjárkjöti“  þar sem kálfar og kýr sem ekki hefur verið slátrað eru ekki étin…

Og já! Norðmenn eru ekki eins og Íslendingar sem selja kýrkjöt sem nautakjöt. Kjöt af fullorðnum nautpeningi er einfaldlega kallað „storfekjøtt“.

En hvað hefur þetta með namibískar kýr að gera?

Jú, Norðmenn eru nú farnir að kaupa namibískt nauta og kálfakjöt í stórum stíl. Slík viðskipti eru hagkvæm í kjötskorti í  Noregi þrátt fyrir langar vegalengdir þar sem namibískt kjöt fellur undir sérstaka innflutningskvóta sem komst á eftir GATT samninga árið 1995.

Namibískir bændur eru himinlifandi enda greiða Norðmenn hærra verð fyrir namibískt nautakjöt en aðrir!  Ástæðan. Niðurgreitt norskt stórfjárkjöt er miklu dýrara en óniðurgreitt namibískt nauta og kálfakjöt.

Á meðan innflutningur á namibísku nautakjöti er innan innflutningskvóta og norskir verndartollar bíta því ekki svo sárt sem venjulega, þá er namibískt nautakjöt sem greitt er vel fyrir á namibískan mælikvarða, vel samkeppnisfært í verði í Noregi þrátt fyrir kostnað við skipaflutning frá syðri hluta Afríku!

… og hvernig ætli namibísku beljurnar séu á bragðið?

Kanske maður láti á það reyna um helgina …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Ásdís Jónsdóttir

    Síðast þegar ég borðaði kindakjöt í Noregi var það frá Falklandseyjum og var bara alveg ágætt, svo það ætti að vera nokkuð öruggt að namibískt stórgripakjöt sé gott! Þeim vex greinilega ekki í augum að flytja kjöt langar leiðir frekar en Íslendingum að flytja inn bláber frá Argentínu.

  • Hvað segir okkar eini sanni Guðni um þetta? Hvernig ætli sé að kyssa Namibiskar kýr?

  • Namibískt nautakjöt er flutt í stórum stíl til Evrópu, sérstaklega Þýskalands en það eru mikil tengsl á milli Namibíu og Þýskalands. Ég get a.m.k. fullyrt að namibískt nautakjöt er mun betra en þetta íslenska.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur