Sunnudagur 24.02.2013 - 17:32 - Rita ummæli

Ruglið í rannsóknarnefnd Alþingis

Þær ætla að verða langlífar rangfærslurnar hjá rannsóknarnefnd Alþingis varðandi áhrifa breytinga sem gerðar voru á Íbúðalánasjóði árið 2004 og tilkomu svokallaðra 90% almennra lána sem var kosningamál Framsóknarflokksins. Reyndar urðu 90% almenn íbúðalán Íbúðalánasjóðs aldrei að veruleika á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem sjóðurinn hætti að lána 90% lán um mitt ár 2004.

Nú er það hin knái Eyjapeyji Elliði Vignisson sem fellur í þann pytt að kynna sér ekki málin áður en hann rýkur fram á ritvöllinn með skondna og skemmtilega grein um Framsóknarflokkinn. Vandamálið er að Elliði er að vísa til ummæla í skýrslu sem fyrir löngu hefur verið hrakin með staðreyndum.

Því vandamálið við þennan hluta skýrslu rannsóknarnefndari Alþingis er sú að nefndin rannsakaði ekki málið og byggði niðurstöðu sína ekki á staðreyndum heldur tilfinningalegum vitnisburðu starfsmanns Seðlabankans og pólitískum ummælum formanns Sjálfstæðisflokksins sem var í nauðvörn á eigin Landsfundi vegna ásaka um að ótímabærar skattalækkanir sem hann stóð fyrir hefðu haft neikvæð áhrif á efnahagslífið.

Niðurlag skýrslu sem unnin var til að leiðrétta augljósar rangfærslur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er eftirfarandi:

„Það er niðurstaða þessarar skýrslu að rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki kannað nægilega undirbúning og skipulag ákvarðana um breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs sem áttu að taka gildi á árunum 2004 til 2007.

Allur undirbúningur ákvörðunartöku vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á opinbera húsnæðislánakerfinu miðuðu markvisst að því að valda eins litlum efnahagslegum áhrifum og nokkur kostur var og allt kapp var lagt á að vanda undirbúning og feril þessara breytinga.

Skýrslan sýnir að það voru róttækar breytingar á útlánareglum viðskiptabankanna sem settu þessar fyrirætlanir í uppnám og voru meginorsök víðtækrar hækkunar fasteignaverðs og þenslu efnahagslífsins sem stjórnvöld höfðu engin tök á að bregðast við.

Þær breytingar sem stjórnvöld gerðu á opinbera húsnæðiskerfinu í kjölfar þessa höfðu hverfandi áhrif á þróun efnahagsmála.

Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um að þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 hafi verið með stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda að falli bankanna stenst því ekki gaumgæfilega skoðun.“

Skýrsluna sjálfa má finna hér fyrir þá sem vilja leita sannleikans: http://ils.is/library/Skyrslur-og-samningar/Skyrslur/Aðdragandi%20innleiðing%20og%20áhrif%20breytinga%20-.pdf

Og inngangur skýrslunnar er eftirfarandi:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna efnahagshrunsins segir í yfirlitskafla:

„Þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 voru einnig þensluhvetjandi. Breytingarnar á útlánareglunum voru með stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna. Þau mistök voru gerð með fullri vitund um líklegar afleiðingar aðgerðanna. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Áhrif þeirra urðu enn meiri í alþjóðlegu lágvaxtaumhverfi þess tíma. Þessar hagstjórnarákvarðanir og aðrar sem nefndar eru í skýrslunni ýktu ójafnvægið í hagkerfinu. Þær áttu þátt í að knýja fram aðlögun með afar harðri lendingu.

                                                                                                                                               Rannsóknarskýrsla Alþingis. 2010. 1.bindi s. 34-35″

Þessar ásakanir á stjórnvöld hljóta að skoðast sem mjög alvarlegar og gera verður ráð fyrir að þær séu settar fram að vel athuguðu máli eftir gaumgæfilega skoðun nefndarinnar.

Við skoðun á skýrslunni kemur í ljós að nánar er fjallað um húsnæðislánamarkaðinn í kafla 4.4.5 en þrátt fyrir að þessi umfjöllun sé á köflum vönduð er þar engu að síður að finna staðreyndavillur og misskilning sem leiðir til rangra ályktana.

Ekki er að sjá að rannsóknarnefndin hafi leitað sér upplýsinga um fyrirætlanir stjórnvalda hjá þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd breytinga á opinbera íbúðalánakerfinu eða hjá stjórnendum Íbúðalánasjóðs. Þetta er umhugsunarvert í ljósi þess hve nefndin lítur þessar breytingar alvarlegum augum.

Í skýrslu nefndarinnar er fjallað innkomu bankakerfisins á húsnæðislánamarkaðinn og helstu staðreyndir reifaðar, en lítið gert úr þeim miklu áhrifum sem hún hafði á fasteignaverð, skuldsetningu heimila og þá þenslu sem varð í efnahagslífinu.

Þess í stað er sú ályktun dregin að Íbúðalánasjóður og breytingar á umhverfi sjóðsins hafi verið meginástæða þeirrar miklu hækkunar fasteignaverðs og þenslu sem því fylgdi, en ekki útlán bankakerfisins.

Í Rannsóknarskýrslunni er atburðarrás sem varð á árinu 2004 stillt upp í tímaröð, en sundurliðuð og nákvæm greining á henni hefði undirstrikað áhrif aðgerða og innkomu bankanna og varpað ljósi á það af hverju stjórnvöld hættu við að innleiða hækkun hámarksláns og lánshlutfall Íbúðalánasjóðs í 90 % í áföngum fram til vors 2007 svo sem áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Slík áfangainnleiðing hafði enga þýðingu eftir innkomu bankanna með þeim hætti sem raun varð á, hún hefði aðeins leitt til þess að Íbúðalánasjóður hefði ekki verið lengur á þessum markaði, trúlega misst hlutverk sitt og tilgang og þar með hefði megin markmiði bankanna með þessari innkomu verið náð.

Skýrslu þessari sem hér er birt er ætlað að draga fram gleggri mynd af þeirri atburðarrás sem varð á sviði húsnæðislána á árunum 2003 – 2008 og einnig að koma á framfæri leiðréttingum og mikilvægum upplýsingum sem hefðu vafalítið haft áhrif á heildarniðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis um húsnæðislánamarkaðinn ef eftir þeim hefði verið leitað.

Þá er í skýrslu þessari dregin skýrar fram en áður hefur verið gert sterk tengsl íbúðalána bankanna og þeirrar þróunar sem varð á húsnæðislánamarkaði og efnahagslífinu með innkomu þeirra á þennan markað á árinu 2004.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur