Sunnudagur 07.04.2013 - 15:39 - 5 ummæli

Þjóðsaga hrakin!

Sú þjóðsaga gengur enn fjöllum hærra að fyrirætlanir um svokölluð 90% almenn íbúðalán ÍLS til kaupa á hóflegri íbúð hafi orðið til þess að bankarnir ruddust af miklu offorsi haustið 2004 með hömlulaus fasteignatryggð lán.

Þess má reyndar geta að fram í ágúst 2004 höfðu bankarnir alls ekki verið á almennum íbúðalánamarkaði voru með innan við 5% markaðshlutdeild í slíkum lánum fram á haustið 2004. Lánuðu einungis 10 íbúðalán í ágúst 2004 samtals að fjárhæð 100 milljónir en veittu 30 milljarðar í íbúðalán í september 2004 og vel yfir 100 milljarða króna áður en almenn 90% lán Íbúðalánasjóðs komu til sögunnar.

Sannleikurinn er reyndar sá að innreið bankanna á íbúðalánamarkaðinn hefur ekkert með 90% lán Íbúðalánasjóð þvert á það sem ýmsir reyna að telja trú um í kosningabaráttunni.

Friðrik Jónsson starfsmaður Alþjóðabankans hefur greint meginástæðu innkomu bankanna í pistli hér á Eyjunni.  Þar segir Friðrik meðal annars:

„Það virðist oft gleymast þegar orsaka hrunsins er leitað að stór hluti upphafs útrásar bankanna hefði líklega aldrei átt sér stað ef ekki hefði verið fyrir verðtryggingu og verðtryggð ríkis- og húsnæðisbréf með meintri ríkisábyrgð. Eftir brösulegt gengi húsnæðisbréfa og nýs húsnæðiskerfis núverandi forsætisráðherra allan tíunda áratuginn fór að horfa betur við í upphafi nýrrar aldar. Ætli það hafi ekki verið Kaupþing í gegnum lítinn kontór sinn í Köben sem fór fyrst fyrir alvöru að selja íslensk íbúðabréf til erlendra fjárfesta. Fór það svo að eftir að erlendir fjárfestar áttuðu sig á eðli þessara bréfa að framboð annaði ekki eftirspurn. Bréf þessi voru í raun einsdæmi á markaði, þ.e. með jafn mikla ávöxtun og raun bar vitni, verðtryggt í þokkabót, sem var þess eðlis að hún var gengistryggð í raun og vel það. Síðan var meint ríkisábyrgð ofan á allt saman. Áhættuminni pappírar með jafnmiklar væntingar um endurheimtur og ávöxtun voru líklega vandfundnir.

Enda fór það svo að íslensku bankarnir sáu sér þarna leik á borði. Í stað þess að sitja og bíða eftir íbúðabréfaútgáfu hins þunglamalega ríkisbatterís Íbúðalánasjóðs, hví ekki að gefa út slík bréf sjálfir?

Og það gerðu þeir!

Reiknilíkan bankanna var í sjálfu sér sáraeinfalt: Húsnæðimarkaður á Íslandi var á þessum tíma rétt byrjaður að rétta úr kútnum eftir langan stöðnunartíma. Mat bankanna var það að húsnæði væri enn langt frá því sem “eðlilegt” gæti talist og markaðurinn gæti vel borið verulegar verðhækkanir. Í snilldarumhverfi verðtryggðra húsnæðislána var hér kominn einföld leið til að stækka hjá sér efnahagreikninginn, sækja ódýrt erlent fé, hleypa af stað eignabólu (eða að þeirra mati eðlilegri verðleiðréttingu húsnæðismarkaðarins) og græða vel á öllu saman. Stærri húsnæðislánapakki þýddi stærri efnahagsreikning sem þýddi meiri aðgang að erlendu lánsfé sem þýddi meiri hagnað sem þýddi hærri EBIDTA sem þýddi hærra hlutabréfaverð o.s.frv. o.s.frv. Hér var kominn grunnurinn að því sem seinna reyndist spilaborgin stóra sem hrundi endanlega haustið 2008.“

Pistil Friðriks er að finna í heild hér:  http://blog.pressan.is/fridrik/2013/03/23/hugvekja/

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Góður pistill hjá Friðrik en fleira skiptir máli. Þröskuldur var að ekki var veitt hærra lán en 80% af fasteignamati (að mig minnir) auk hámarks fjárhæðar láns. Framsókn lofaði fyrir kosningar árið 2003 að lækka þann þröskuld í 90%. Bankarnir gerðu enn betur og lofuðu 100% lánum.

    Þannig var staðan í lok árs 2004 að nóg var af erlendu fjármagni, gulltryggð verðtryggð ríkis- og húsnæðisbréf (eða það héldu menn) og engir þröskuldar. Þetta skipti sköpum og úr varð eignabóla.

    Stjórn Framsóknar og Sjáfstæðisflokks á þessum tíma er að því leitinu sek að hún beitti sér ekki í málinu. T.d. með því að skilyrða lágmarks eigið fé fólks í sínu húsnæði. Framsókn stefndi í þveröfuga átt með sínum kosningaloforðum. Hömluleysið var látið viðgangast. Íslensk hagstjórn í hnotskurn.

    Og hagfræðingurinn Geir H. var „sorry“ yfir öllu saman á landsfundi árið 2009.

  • stefán benediktsson

    Með þessari sögugreiningaraðferð má auðvitað réttlæta það að seilast aftur til haustsins 1979 að eldhússborðinu hjá Ólafi Jóhannessyni þegar hann skrifaði verðbótafrumvarpið, ég ætla ekki að gera það, en spyrja frekar. Hvað varð um húsbréfin? Hvenær hurfu þau?

  • @stebbi
    8.4 2013 @ 10:58

    Þetta er sannleikurinn hvað sem menn segja stjórnvöld áttu að grípa í taumanna stað þess var öllu hleypt í vitleysu og græðgisvæðing hófst.Þeir sem geta ekki litið í eigin barm og sagt þetta voru mistök ættu að líta í eigin barm og viðurkenna mistök.

  • Rúnar Vernharðsson

    Hvað var um danska húsnæðiskerfið sem tekið var upp þegar Húsnæðismálastofnun var lögð niður ?
    Eru menn að tala um að taka það aftur upp ?

  • Í örstuttu máli: Ég held að það sé vonlaust að verja orsök dýrtíðarsprengunnar í kjölfar einkavinavæðingar bankanna, 90% lánin (sem urðu meir en 100%) og framkvæmdir við stórvirkjanir. Verð á íbúðum fór t.d. úr 20 millj. í 30 (en fóru svo niður í 20 aftur með áhvílandi 27 millur). Þetta var tími hömlulauss stjórnleysis í efnahagsmálum okkar Íslendinga með óhóflegum lántökum og hverskonar sukki. Einskonar frjálshyggjugandreið með afleiðingum sem við erum enn að vinna úr.

    Nú er aðalmál kosninganna að redda sér einhvernvegin út úr slæmri stöðu heimilanna. Vinsælust er sú leið framsóknar „að skjóta hrægamma úti í skógi“ eða m.ö.o. lækka endurgreiðslur til eigenda vogunarsjóða. Komið hefur þegar í ljós að þeir hafa allan heimsins tíma til að bíða endurgreiðslna. Þannig er reddingin sýnd veiði en ekki gefin.

    Vonandi tekst að létta vanda heimilanna svo sem unnið hefur verið að á undanförnum árum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur