Laugardagur 13.04.2013 - 19:39 - 2 ummæli

Þingmenn með hugsjón

Virðing Alþingis hefur farið þverrandi undanfarin ár. Það þýðir hins vegar ekki að Alþingismenn síðustu ára hafi ekki unnið starf sitt af heilindum.  Þvert á móti eru margir þingmenn sem hafa unnið óeigingjarnt starf á grunni hugsjóna sinna og lagt líf sitt og sál í starf sitt. Á skítalaunum.

Margir þingmenn hafa ákveðið að hætta þingmennsku. Þar á meðal er fólk sem hefur gefið líf sína og sál í það erfiða starf sem starf þingmanns er. Og andstætt því sem margir halda þá hafa margir þingmenn unnið af heilindum og lagt sannfæringu sína og lífsskoðanir til grundvallar starfi sínu fyrir land og þjóð. Það ber okkur að meta óháð því hvort við höfum verið sammála þessum þingmönnum eða ekki.

Hæst ber að sjálfsögðu Jóhanna Sigurðardóttir sem hefur helgað nánast allt sitt líf stjórnmálum og jafnaðarhugsjóninni. Þótt ég hafi oft gagnrýnt hana harðlega þá hef ég aldrei efast um að Jóhanna stjórnast fyrst og fremst af því sem hún telur vera rétt. Jóhanna stjórnast ekki af sérhagsmunum heldur eigin hugsjón. Ég hef átt töluverð samskipti við hana starfs míns vegna. Jóhanna gerir miklar kröfur en hún metur það sem vel er unnið fyrir hana. Hvað sem fólki finnst um Jóhönnu þá er sjónarsviptir af henni.

Annar þingmaður yngri þó sem einnig hefur helgað líf sitt landi og þjóð á grundvelli hugsjóna sinna er Siv Friðleifsdóttir. Siv er kannske ekki mjög gömul – einungis um fimmtugt – en hefur lungann úr starfsævi sinni þjónað okkur sem þingmaður og ráðherra. Það liggur meira jákvætt eftir hana en margur hyggur þótt hún hafi verið á milli tannanna á fólki vegna þess að hún fylgdi sannfæringu sinni umn að rétt væri að virkja á Austurlandi.

Þriðji þingmaðurinn sem ég vil minnast á er Þuríður Backmann. Þuríður hefur að mínu viti verið vanmetin sem þingmaður. En hún á afar farsælan þingmannsferil að baki og hefur alla tíð unnið á grundvelli hugsjóna og þess sem hún hefur talið vera rétt. Þuríður hefur verið afbragsðgóður þingmaður.

Fjórði þingmaðurinn sem ég tel upp er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Ég hef þekkt til Þorgerðar Katrínar frá því hún var fyrirliði í ÍR í handbolta á unglingsaldri. Þá strax sýndi hún af sér afburða leiðtogahæfileika og staðfestu. Þorgerður Katrín hefur eins og þeir þingmenn sem ég hef minnst á hér að framan alla tíð unnið á grunni hugsjóna og þess sem hún hefur talið vera rétt fyrir land og þjóð.  Þorgerður Katrín hefur á undanförnum misserum ómaklega verið sökuð um sérhagsmunagæslu af pólitískum andstæðingum sínum. Þær ásakanir standast ekki einfalda skoðun. Því Þorgerður Katrín er og hefur alla tíð verið hugsjónakona og unnið eftir því.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Góð greining hjá þér, Hallur.
    Siv hefur átt góða spretti, en hennar verður einkum minnst vegna Kárahnjúkaúrskurðarins, því miður.
    Eftirsjá verður að Þorgerði Katrínu, en fjármálin urðu henni að falli. Leiðtogahæfileikana sækir hún svo til forfeðra sinna, danskra og þýskra herforingja.

  • Snæbjörn

    Ég er gáttaður á þessari grein.

    Enginn er svo slæmur að ekki sé eitthvað gott að finna í honum/henni, en ég sé ekki hvernig hugsjónirnar bæta syndirnar í mörgum þessa tilvika.

    700 milljóna kúlulán er afskrifað án nokkurra eftirmála, og lífríkið við Lagarfljót að deyja.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur