Mánudagur 29.04.2013 - 07:39 - 8 ummæli

Þjóðin valdi nýja framtíð!

Það er merkilegt að fúllyndir fallistar og flestir stjórnmálaskýrendur sjá ekki hið augljósa í niðurstöðu Alþingiskosninganna.  Þjóðin var að losa sig við gömlu 20.aldar pólitísku hundana og kjósa nýja framtíð. Sigurvegarar kosninganna eru Framsóknarflokkur, Björt framtíð og Píratar sem eru eiga það sameiginlegt að tefla fram nýjum, ferskum frambjóðendum sem ekki sátu á Alþingi fyrir hrun og flestir ekki 20. aldar stjórnmálamenn.

Á sama tíma var þjóðin að hafna gömlu 20. aldar risaeðlunum í Samfylkingu, VG og Sjálfstæðisflokki. Það er þeim sem voru á Alþingi fyrir hrun.

Þótt Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið að hætta þá sveif andi hennar yfir Samfylkingunni og þeim stóra hóp 20. aldar pólitíkusa sem þar voru í framboði. Það sem verra var fyrir Samfylkinguna var að hún var algerlega klofin. Ákveðinn hluti hennar fór í bakið á nýjum formanni frá degi eitt og vilja nú koma honum frá. Enda vildi það fólk ekki öflugan, frjálslyndan jafnaðarmann í forystu „flokksins síns“ . Það fólk er fast í raunveruleikafirrtum draumi um 20. aldar bleikan sósíalisma sem er bara ekki 21. öldin!

Árni Páll átti ekki séns í kosningunum vegna þessa.

Steingrímur J. Sigfússon og gömlu 20. aldar sófakommarnir voru næstum búnir að ganga frá VG. En Steingrímur hafði vit á því að halda sig algerlega til hlés og gefa nýjum formanni allt sviðið eftir. VG stóð líka að baki nýja formanninum sem er holdgervingur nýju kynslóðarinnar á vinstri vængnum. Vel menntuð, afar greind kona sem leggur áherslu á samstarf og samvinnu í satað átaka og kreddufestu.

Katrín Jakobsdóttir Thoroddssen fékk sviðið, sneri vörn í sókn og bjargaði VG fyrir horn. En hún gat ekki breytt því að þjóðin var að hafna 20. aldar risaeðlunum sem hún sat og situr upp með.

Sjálfstæðisflokkurinn er kapítuli fyrir sig. Reynir að túlka afhroð sem sigur 🙂   Flokkurinn hafði tök á því að losna úr viðjum 20. aldar pólitíkurinnar og slá nýjan tón. Það gerði hann ekki. Þrátt fyrir ungan formann þá er flokkurinn nú holdgervingur staðnaðar 20. aldar pólitíkur. Þess vegna er forystuhlutverk þess flokks endanlega búið að vera.

Það er ný framtíð að hefjast. Spennandi að sjá hvernig hún mun þróast!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Þurfum við sem sjáum þetta ekki þetta nýja og ferska við Framsóknarflokkinn kannski að fara í „endurmenntun“.

    – Þeir sem voru á lífi „fornöld“ þ.e. fleiri en eitt ár fyrir hrun og svo náttúrulega erlendu fréttaskýrendurnir – þeir þurfa svo sannarlega líka að fara í endurmenntun.

    Með kveðju til þín og Þorgerðar Katrínar:-)

  • Guðný Ármannsdóttir

    Það gæti líka elft vinstri flokkana að endurnýja tengslin við verkalýðinn, þá er ég ekki að meina ASÍ forustuna heldur launþegana sjálfa. Þaðan spruttu þeir.

    Skerðingar hjá öryrkjum og öldruðum auk aukins lyfjakostnaðar fara heldur ekki vel með vinstri flokka, sérstaklega þegar nógur peningur virðist vera til að byggja og reka rándýra tónlistarhöll og tvöfalda listamannalaun.

    Listamenn og fræðingar voru hvort eð er með sín eigin framboð

  • Haukur Kristinsson

    Það virðist auðvelt að plata innbyggjara, jafnvel spila með þá.
    Kemur skýrt í ljós í pistli Halls Magnússonar.

    Það má öllum vera ljóst að 2007 glæpagengið heldur enn í taumana hjá Íhaldinu og hækjunni. Ekkert hefur breyst, þótt synirnir hafi verið dubbaðir upp og gerðir að gluggaskreytingu.

  • Guðmundur

    Þetta er frekar einfalt:

    Íhaldið var við völd og allt fór í kalda kol. Við tók vinstri stjórn, sem reyndist óttalegt íhald líka (þó þau hafi gert ýmislegt vel)

    Fólk kaus Framsókn af því að sá flokkur virðist sá eini sem er nógu klikkaður til að aksjúallí gera eitthvað róttækt. Afleiðingarnar? Fokkit, þetta getur nú varla versnað… (eða hvað?). Íslendingar nota kosningar eins og spilakassa, og nú eru allir með fiðring í maganum af því að hjólin byrja að snúast einu sinni enn.

    Þetta hjal um að fólk hafi kosið „nýja framtíð“ er barnalegt og krúttlegt, en bull engu að síður.

    (Annars er ég sammála Guðnýju um tengslin við verkafólkið, sem vinstri flokkarnir eru búnir að brjóta og týna)

  • Frétt dagsins er að dýrtíðin er komin niður í 3.3%. ÞÖKK SÉ RÍKISSTJÓRN jÓHÖNNU.

    HVER ÆTLI DÝRTÍÐIN VERÐI ÞEGAR BÚIÐ ER AÐ FELLA NIÐUR OG LÆKKA SKATTA HINNA AUÐUGU OG GREIÐA NIÐUR SKULDIR HINNA BETUR SETTU SKULDARA UM 20%?

    Það er samhengi þarna á milli. Það sjá allir sem búnir eru að núa pólitíska glýju úr augunum eftir kosningarnar.

  • Árni Páll tapaði á eigin forsendum, hann þurfti alls enga hjálp frá Jóhönnu til að svo yrði.

  • Sýnist frekar að þjóðin hafi frekar verið að kjós Gamla Góða Ísland, spillingar og helmingaskipta, skv. reglunni um betra sé þekkt böl en óljós von. Og segir kannski nokkuð um siðferðilegt stig þjóðarinnar að hægt er að fá hana til að velja þetta með smá mútum í formi vonar um smá aur í vasan.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur