Miðvikudagur 24.07.2013 - 22:53 - 12 ummæli

RÚV á að vera pólitískt útvarp!

Ríkisútvarpið á að vera pólitískt útvarp.  Ekki í fréttaflutning eða vali á „fréttum“ eins og stundum hefur tíðkast. Heldur á það – sem „útvarp allra landsmanna“ – að vera trygg rás pólitískra samtaka til landsmanna.

Staðreyndin er sú að „óháðir fjölmiðlar“ – sem eru bara alls ekki óháðir – eru miklu verri pólitískir fjölmiðlar en til dæmis gömlu pólitísku blöðin:  Mogginn, Alþýðublaðið, Tíminn og Þjóðviljinn. Ekki flokkspólitískir beint – heldur pólitískir á annan og að sumu leyti óheiðarlegri hátt en „gömlu“ blöðin.

Það vissu allir með hvaða gleraugum ætti að lesa Moggann, Alþýðublaðið, Tímann og Þjóðviljann. Hver og einn gat tekið eigin afstöðu til umfjöllunar þessara frábæru blaða – vegna þess að þeir vissu hvaðan þau komu og fyrir hvern þeir voru að skrifa. Það er pólitískt.

Í gömlu góðu dagana var Ríkisútvarpið hlutlægt . Þótt þar væru fréttamenn eins og Alþýðuflokksmennirnir Eiður Guðnason og Árni Gunnarsson, Framsóknarmaðurinn Magnús Bjarnfreðsson, Sjálfstæðismennirnir Jón Hákon Magnússon og Hallur Hallsson, vinstri maðurinn Ögmundur Jónasson – svo ég taki nokkur dæmi. Það var pólitískt jafnvægi.

Það jafnvægi er löngu horfið í nafni „Óháðs, hlutlags (sic) Ríkisútvarps“.

Og í dag reyna Mogginn og 365 að þykjast vera „óháðir“ fjöllmiðlar og´“ópólitískir“.  Líka RÚV 🙂

Ætla ekki að ræða DV – sem er þekkt fyrir algerlega ópólitískt níð um sérvalda stjórnmálamenn.

En eins og ég sagði í upphafi. Ríkisútvarpið á að vera pólitískt útvarp.  Ekki í fréttaflutning eða vali á „fréttum“ eins og stundum hefur tíðkast. Heldur á það – sem „útvarp allra landsmanna“ – að vera trygg rás pólitískra samtaka til landsmanna.

Auðvitað eiga að vera fastir dagskrárliðir í RÚV þar sem stjórnmálaflokkar hafa skilgreindan tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Undir „nafni og kennitölu“ svo allir viti að útvarpsefnið sé pólitískt.

Það er hlutverk RÚV – í stað dulbúins pólitísks útvarpsefnis sem Speglar viðhorf ákveðinna stjórnmálafla gegn viðhorfum annarra – undir illa tættu „hlutleysisflaggi“ RÚV!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Hallur,
    Ætlarðu ekki að biðjast afsökunar á þínum þætti í tapi almennings á Íbúðalánasjóði?
    Telurðu kannski ekki sérstaka þörf á því?

  • Hvað er að þér? Fréttir í Ríkisútvarpinu eru nógu góðar og betri en í gamla dag. Svo telur þú upp alla óskemmtilegustu fréttamennina, sem voru í sjónvarpinu í gamla daga. Sem betur fer voru margir betri en þessir.

    Í gamla daga hringdu stjórmálamenn í fréttastofur útvarps og sjónvarps til að almenningur fengi ekki of góðar féttir af framferði þeirra. Vill einhver hafa þetta eins og það var þá? Eiga núverandi ráðherrar að reyna að vera leiðinlegri en þeir eru í raun og veru? Er ekki nóg samt.

    Það hefur verið kvartað yfir því að Ríkisútvarpið hafi dregið taum ESB.
    Ekki skal ég dæma um það. En ef það er satt hafa þeir það sér til afsökunar að ESB er í augum flestra Íslendinga heldur ógæfulegt fyrirbæri
    og fylgismenn þess einstaklega seinheppnir í málflutning og ágætt að Ríkisútvarpið reyni að jafna umræðuna, þá verður hún skemmtilegri.

    En afhverju eru talsmenn stjórnarflokkanna að reyna að breyta umfjöllun
    fréttastofu Ríkisútvarpsins? Hvað þýða þessar blikur á lofti stjórnmálanna. Hér varð hrun, segir fólk. Hér var framið rán, segja aðrir.
    Stórfé var lánað úr Íbúðalánasjóði til bankanna og tapaðist. Eignir Samvinnutrygginga -gagnkvæms tryggingafélags hurfu til himnaríkis peninganna. Lífeyrissjóðir voru látnir tapa stórfé. Ætla einhverjir stjórnmálamenn og vinir þeirra að stela meiru og vilja þeir frið fyrir gagnrýnisröddum? Græðgi þeirra er óseðjandi. Enn er fé í lífeyrissjóðum
    Enn er hægt að skuldsetja ríkissjóð í þágu glæpamanna. Enn á íslenzka ríkið eignir sem hægt er að einkavinavæða. Við, Íslendingar, sem nær allir
    standa utan við klíku stjórnmálayfirstéttarinnar eigum vera á verði og fylgjast vel með og gagnrýna þessa kumpána. Nær öllum Íslendingum er sama hvort fjallað meira eða minna um einn flokk eða annan. Hvort Söru Pailin er lofuð mikið eða lítið. Aðalatriðið er að almenningur og þá sérstaklega blaða- og fréttamenn veiti stjórnmálayfirstéttinni gott málefnalegt aðhald og troði ofan í kokið á þessari hrokafullu stétt hlutleysisvælinu, og haldi áfram miskunarlaust að grafa eftir sannleika hrunsins.

  • Ég skil ekki þennan pistil Hallur

    Þú lýsir þeirri skoðun þinni að Ríkisútvarpið eigi að vera hlutlaust í fréttaflutningi. Ég geri ráð fyrir því að þú eigir við að því sé best náð fram með því að leggja áherslu á faglega þætti í mannaráðningum á fréttastofu og að pólístísk afskipti af RÚV, og sérstaklega fréttaflutning þess séu sem minnst. Þannig skil ég orð þín.

    Samt mærir þú gömlu flokksblöðin, eins og það hafi verið gott að fréttaflutningur þessara blaða hafi verið svo sterklega pólítiskt litaður. Að mínu mati óskiljanlegt viðhorf. Enn óskiljanlegra finnst mér áhersla þín á að fréttastofa útvarps eigi að vera í pólítísku jafnvægi. Líklegast þá með mannaráðningum ?

    Að sleppa svo DV úr umfjölluninni rýrir réttmæti pistilsins, DV hefur gert marga ágæta hluti, sérstaklega fyrir almenning, sem betur fer ekki fyrir stjórnmálamenn.

    Það sem vekur manni náttúrulega mestan ugg varðandi þessa umræðu (eða „umræðu“) um hlutleysi RÚV er að fyrir henni stendur að mestu leiti einn stjórnmálaflokkur…menn ættu kannski að leita sér nær

  • Hallur Magnússon

    Einsi. Ég get beðið afsökunar á því að hafa ekki séð hrunið fyrir. Ekki að það hefði neinu breytt þótt ég hefði séð það fyrir.

    Tap Íbúðalánasjóðs er vegna hrunsins. Annað tap er ekki til staðar.

    Innspýting í Íbúðalánasjóð umfram niðurgreiðslu lána vegna 110% leiðarinnar var og er óþörf. Ég get ekki borið ábyrgð á pólitískum ákvörðunum síðustu ríkisstjórnar.

    Þannig að á hverju ætti ég að biðjast afsökunar?

    Reyndar er virðisrýrnun eigna ÍLS vegna hrunsins ótrúlega lítið.

    Við skulum bera saman nokkrar fjármálastofnanir – og hvernig virðisrýrnurn eigna þeirra varð í kjölfar tapsins:

    Kaupþing 69,4%
    Glitnir 65,2%
    Sparisjóðabankinn 63,7%
    Landsbankinn 54,2%
    Straumur Burðarás 31,3%
    Lífeyrissjóðir 25,0%
    SPRON 17,6%
    Íbúðalánasjóður 7,2%

    Þannig að Íbúðalánasjóður stóð heldur betur vel af sér hrunið miðað við aðrar fjármálastofnanir.

    Tek fram að ofangreindar tölur eru ekki frá mér komnar heldur frá fyrrverandi ríkisendurskoðanda sem nú er á eftirlaunum.

  • Takk Hallur
    Fróðleg innsýn og upplýsandi.. Á sinn hátt.
    Telur þú að trúverðugleiki þinn sem pistlahöfundur hafi rýrnað eftir útkomu skýrslu um íbúðalánasjóð?

  • Það liggja fyrir hundruð skjalfestra dæma (vöktun) um hlutleysisbrot fréttastofu RUV. Samfylkingin og stefnumál hennar njóta þar sérstakrar velvildar og hefur þeim verið fylgt eftir nánast grímulaust. Ein af siðareglum ríkisfjölmiðilsins, hlutlægnin því verið þverbrotin. Gagnrýni er illa tekið á þeim bæ og útvarpsstjóri svarar þeim röddum með hroka og útúrsnúningum í stað þess að gera kröfu til undirmanna sinna að fara að þeim siðalögmálum sem stofnunin sjálf hefur sett sér og til eru á pappír. Kannski eru viðbrögð hans tilraun til þess að breiða yfir þá staðreynd að fréttastofan er orðin ríki í ríkinu og hann hefur enga stjórn á.
    Eitt átakanlegasta dæmið um sjálfhverfuna á fréttastofu RUV eru viðbrögð eins reyndasta fréttamannsins þar á bæ. Réttmæt gagnrýni annars fjömiðils á starfshætti fréttastofunnar leiddi til þess að hann sagði upp áskrift og fylgdi því eftir með orðavali sem voru honum til hnjóðs og opinberaði um leið veikleikana á fréttastofunni. Gagnrýni er ekki liðin, sumar skoðanir njóta velvildar, aðrar ekki. Sanngjarnar óskir þeirra sem borga brúsann, almenningur um hlutlægni í fréttaflutningi ná því ekki í gegn meðan þetta hugarfar er nært og flutt til nýgræðinganna á fréttastofunni af eldri borgurum sem eru fastir í viðjum pólitískra skoðana og yfir það hafnir að taka vinsamlegri gagnrýni af hófsemi. Þegar svo er komið er ekkert annað í stöðunni en uppskurður og meinið fjarlægt. Sú stund hlýtur að renna upp fyrr en síðar.

  • RÚV á að vera laggt niður

    Ekki flóknara

  • Haukur Kristinsson

    Selection þeirra sem koma fram í RÚV er ekki eingöngu háð pólitískum skoðunum, heldur einnig og fremur hæfileikum manneskjunnar til að tjá sig um menn og málefni. Greind, þekking, menntun.
    Og þar standa Framsjallar vinstri mönnum að baki, eins og allir vita. . Þetta er nú bara staðreynd.
    Egill Helga reyndi eftir fremstu getu að balansera þetta í Silfrinu, en oft var skelfilegt að hlusta á bullið í mörgum hægri mönnum.

  • Hallur Magnússon

    Einsi.
    Skýrsla um Íbúðalánasjóð breytir engu um mig sem pistlahöfund. Það hefur alltaf verið á hreinu hver ég er, hvað ég stend fyrir og að ég tek mína afstööu til manna og málefna á mínum forsendum – ekki annarra.

    Ég segi það sem mér finnst óháð því sem öðrum kann að finnast.

    Hins vegar er hætt við að skýrsla RNA á ÍLS – þar sem sýnt hefur verið fram á tugi rangfærslna – hefur gersamlega gengið frá „fræðilegum“ trúverðugleika lektorrsins á Akureyri. Héðan í frá mun enginn taka mark á því sem sá annars ágæti maður reynir að setja fram „fræðilega“ eftir að hafa gersamlega klikkað á öllum grundvallaratriðum í hefðbundinni akademískri aðferðarfræði í vinnslu þessarar skýrslu – þar sem rangfærlur eru fleiri en það sem rétt er.

    Sama vandamál er með hagfræðinginn sem Samfylkingarráðherrar hafa verið duglegir að koma í bankaráð og stjórnsýslustjórnir – td. Arion (gamla Kaupþing) og Flugmálastjórn (sem ég fatta ekki af hverju skipaður var hagfræðingur sem sá um útgáfu í Seðlabankanum í stjórn á þessu sviði).

    Hún mun vlntanlega eiga erfitt uppdráttar eftir allar rangfærslurnar – ekki síst þegar menn átta sig á því að hún átti harma að hefna gagnvart framsóknarráðherranum Valgerði Sverrisdóttur – sem vildi ekki skipa hana aftur sem formann stjórnar Samkeppniseftirlitsins – og það var ástæðan fyrir því að forstjir Samkeppniseftirlitsins var dreginn inn í skýrslu um Íbúðalánasjóð 🙂

    ÓIíkt mörgum öðrum þá get ég staðið við það sem ég hef gert – bæði það sem gott var gert og það sem hefði mátt betur fara. Sumir aðrir þora ekki að standa í færturna.

    Þannig að svarið er – Nei, trúverðugleiki minn sem pistlahöfundar hefur ekki rýrnað. Þvert á móti.

  • Hallur Magnússon

    … og Einsi. Þorir þú að standa við það semþú segir – undir nafni?

  • Sigurjón

    Hægrimenn hafa alltaf, rétt eins og aðir öfgamenn, reynt að stýra umræðunni með eftirliti, hótunum og valdboði. Þeim líkar ekki gangrýnin hugsun menntaliðsins og menningarpáfanna.

    Hægrimönnum þykir fáfræði og þröngsýni góð. („Of Course he is stupid,“ sagði Barbara um George W son sinn.)

    Það er því mikil óheppni að blaða- og fréttamenn verða að vera bæði talandi og skrifandi. Annars væri hægt að hafa heimska hægrimenn í öllum stöðum.

  • Pétur Óli Jónsson

    Er þetta ekki bara rétt?

    Kosturinn við að lesa þessi gömlu flokksblöð var sú að þegar maður var búin að lesa þau öll, þá var maður kominn með alla vinkla.

    RÚV á að vera pólitískt í þeim skilningi að leyfa rödd almennings að koma fram. RÚV á að vera pólitískt þar sem Kastljós t.d. er breytt úr dægurflöguþætti yfir í málefnalega umræðu, þar sem ýmsir aðilar koma og ræða eitt tiltekið mál. Ekki bara mörg mál þar sem skautað er hratt yfir. Það mætti jafnvel vera með áhorfendur í sal.

    RÚV á hins vegar ekki að vera flokkspólitískt. Stjórn RÚV á ekki að vera skipuð af stjórnmálaflokkum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur